Nýja svissneska röntgentækið á Sjúkrahúsinu á Sigló
sksiglo.is | Rebel | 15.04.2014 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 1422 | Athugasemdir ( )
Þar sem ég er nú orðinn íþróttamaður og þar af
leiðandi hlýt ég að meiðast eitthvað eins og allir alvöru íþróttamenn (og konur). Átökin sem fylgja því að koma
svona vöðvaboddýi (sem er búið að vera í innhverfri íhugun og líkamlegri slökun í cirka 14 ár) eins og mér hátt
upp í loftið til að smassa blakbolta eru gríðarleg og eitthvað verður jú undan að láta.
Í einu úrvals stökkinu hjá mér þar sem ég líklega
stökk hæð mína eða rétt rúmlega einn og hálfan metra upp í loftið að því mér fannst til að smassa þá
gaf öxlin sig í lendingunni.
Reyndar átti ég frekar von á því að parketið í
íþróttahúsinu eða skórnir, öklarnir, hnén, liðþófar, hásinar eða eitthvað annað álíka
íþróttalegt léti frekar undan í stökkinu frekar en öxlin en svona var það nú samt.
Á þeim tímapunkti fylltist ég stollti og var alsæll með það
að ég væri nú orðinn einn af úrvals íþróttamönnum Siglufjarðar.
Þetta var líklega á æfingu á mánudegi því ég
var spurður að því fyrir næstu æfingu sem er á miðvikudegi hvort ég ætlaði ekki örugglega að mæta aftur og þá
gat ég sagt stoltur eins og ekkta íþróttamaður "ha, nei, ætli ég hvíli ekki bara núna, ég er nefnilega meiddur sko". Ég
sá á augnaráði þeirra sem fengu að vita þetta (og já það fengu fleiri en vildu að heyra það að ég væri með
íþróttameiðsl) að þeir voru fullir virðingar fyrir þessum nýja afreksíþróttamanni.
En á þriðju viku sem öxlin var að plaga mig þá var þetta
svona nokkurn vegin hætt að vera svo stórsniðugt og því var eina ráðið það að leita til hans Andrésar Magnússonar
læknis og fá hjá honum góðar ráðleggingar auk þess sem við töluðum aðeins um jeppa.
Andrés tékkaði á öxlinni og svo tók hann af mér mynd í
flúnkunýja röntgentækinu sem var alveg ljómandi gott og maður myndast alveg sérlega vel í tækinu góða. Öfugt við aðrar
myndavélar sem hafa tekið myndir af mér þá er ég ekki frá því að maður virki grennri á myndum úr þessari
myndavél en þessum hefðbundnu.
Andrési til aðstoðar var hún Svala læknir sem gerði heimsóknina
skemmtilegri og myndefnið mun fegurra, án þess þó að ég sé að segja að Andrés og ég séum ekki fagrir, þá var
það alls ekki verra að hafa svona lækna-blóma-rós með okkur til halds og trausts.
Um mittið fékk ég svuntu sem átti að verja það allra heilagasta ef
við Ólöf myndum nú vilja eignast fleiri börn. Ég þarf reyndar að ræða það betur við hana Ólöfu. Kannski fer ég
bara svuntulaus ef ég þarf að fara í svona tæki aftur, hver veit hvað hún Ólöf vill? Allavega ekki ég.
Ég hafði örlitlar áhyggjur um að svuntan væri ekki nógu
síð og ég spurði þau að því hvort þau ættu ekki svuntu sem næði niður á kálfa, bara svona upp á
öryggið. En þau fullvissuðu mig um að þetta væri allt í lagi og ég þyrfti líklega bara alls ekki síðari svuntu en
þá sem ég fékk. Svo var smellt af og myndin kom á tölvuskjáinn þar sem Andrés og Svala skoðuðu myndefnið.
En myndirnar komu ljómandi vel út úr nýja röntgentækinu frá
Sviss og mun vafalaust nýtast vel og var eiginlega bara alveg nauðsynlegt að fá á Sjúkrahúsið.
Þóra tók á móti mér og hughreysti mig. Hún kannast líklega vel við svona íþróttameiðsl því ef
mér skjátlast ekki þá var nú sonur hennar hann Bjarki Már ansi duglegur í íþróttunum hér áður fyrr og hefur
líkleg oft meiðst.
Andrés
og Svala byrjuð að stilla tækið.
Og
ennþá verið að stilla.
Svala sá um fínstillingarnar.
Þarna
var ég kominn með svuntuna á mig. Óþarflega stutt svunta fannst mér.
Þarna
var ég orðinn svo snarspenntur fyrir myndatökunni að ég var næstum því byrjaður að steppa.
Og
Andrés að fara að smella af.
Íþróttameiðsl.
Ég er
bara ekki frá því að ég virki bara hár og grannur á þessari mynd.
Athugasemdir