Nýr ríkiskassi - lífeyrissjóðirnir
Flestir fara betur með eigið fé en annarra. Margt er endurmetið, endurskipulagt og endurfjármagnað um þessar mundir. Nú er komin röðin að ríkiskassanum. Þar eru það lífeyrissjóðirnir sem skulu taka yfir og standa undir útgjöldum ríkisins á meðan kreppan er hvað dýpst - eða hvað? Hve lengi og hve oft verður peningum dælt úr lífeyrissjóðakassanum yfir í botnlausa hít ríkiskassans?
Harmsaga lífeyrissjóðanna á Íslandi og ill meðferð fjármagns þeirra virðist ætla að verða sagan endalausa. Hve margir eru þeir lífeyrissjóðir orðnir sem hafa tæmst að hluta eða öllu leyti á síðustu áratugum vegna taps á áhættusömum fjárfestingum?
Allt vinnandi fólk á Íslandi er skyldað til að borga í lífeyrissjóð drjúgan hluta tekna sinna hvort sem fólki líkar það betur eða verr - alla heilu starfsævina! Flestir gera þetta í góðri trú og möglunarlaust enda til lítils (hingað til!) að deila við regluverkið.
En kona spyr sig hvort það landslag fari ekki að breytast þegar aðstæður í landinu eru orðnar þær að í hverri viku birtast okkur tilkynningar frá stjórnendum lífeyrissjóða sbr þá sem hangir með í meðfylgjandi frétt, að þeir séu að dæla út fjárfúlgum í hin og þessi atvinnubótaverkefni.
Voru eigendur peninganna nokkurn tíma spurðir? Halda ekki flestir sem borga í lífeyrissjóð að þeir eigi eftir að hafa síðar aðgengi að þessum peningum og fá þá greidda út síðar og þá helst með sæmilegri ávöxtun.
Eins og efnahagur þjóðarinnar er að þróast og skattheimta verður æ þyngri byrði þá hlýtur fólk að líta á lífeyrissjóðsgreiðslur sem auka skattlagningu. Launþegar greiða yfir 36% tekna sinna í skatt og 12% að auki í lífeyrissjóð sem er orðið eins konar lotteríisgreiðsla. Kannski sérðu þetta fjármagn einhverntímann aftur - kannski ekki! Skattheimtan er þarna orðin um 48% eða um helmingur alls sem þeir afla sem eru enn svo heppnir að hafa vinnu.
Eðlileg krafa er á þessa leið ...gott og vel borgum í lífeyrissjóð því skyldusparnaður er þjóðhagslega hagkvæmur. En er ekki kominn tími til að lífeyrissparnaður sé 100% séreign þess sem aflar teknanna og að við sjálf tökum ákvarðanir um hvar við ávöxtum peningana og hvað við STYRKJUM og hvað ekki.
Hver er t d ávöxtunarkrafan á vegaframkvæmdum þeim sem lífeyrissjóðirnir ætla að greiða fyrir skv tilkynningu fyrir skömmu í fjölmiðlum. Varðandi þennan styrk til Landsvirkjunar sem hér er sagt frá í meðfylgjandi frétt, mér er spurn - munu lífeyrissjóðirnir eignast hlutabréf í Landsvirkjun út á þessa peninga eða á bara að borga þetta til baka eftir minni eða borga það bara alls ekki - eins og svo margt annað sem greitt hefur verið úr sjóðunum í gegnum árin.
Nýlega sáum við í fjölmiðlum birtar
tölur yfir kjör fyrrv formanns lífeyrissjóðs VR og ítarlegar
upplýsingar um bílafríðindi hans. Maðurinn var að taka við greiðslum úr
sjóðnum uppá ca 300 þús kr á mánuði BARA fyrir rekstur bílsins! Þá
voru launin hans ótalin. Meginþorri þeirra sem greiða í lífeyrissjóð VR
eru ekki með þessi heildarlaun á mánuði hvað þá ráðstöfunartekjur
eða aukagreiðslu. Reyndar mun ég seint skilja hvers vegna æðstu
stjórnendur geta ekki komið sjálfum sér til og frá vinnu á eigin
kostnað rétt eins og launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar
gera og tekst það bara með ágætum svona yfirleitt
Skerðing lífeyrisgreiðslna var boðuð strax 7.okt.2008.
Lífeyrissjóðir hlaupa undir bagga með Landsvirkjun | |
Athugasemdir