Og göturnar glitra...
Þegar léttir til og vind lægir kólnar yfirborðið snögglega, jafnvel þó enn sé bjart af degi, en sólin gefur heldur lítinn varma á þessum árstíma. Hálka af þessari tegund, þ.e. þegar blautur vegurinn frýs er sérlega varasöm, ekki síst fyrir þær sagir að hún myndast oft á blettum eða stöðum sem kólna hraðar og fyrr en annars er. Ég hef kallað hana glerhálku eða glærahálku, en á ensku nefnist hún black ice.
Á laugardag var hitinn kl. 15 í Reykjavík +5°C. Engu að síður tóku göturnar að glitra þegar létti til. Vindur er oftast mældur í 10 metra hæð. Þegar hann er orðinn minni en 3-4 m/s í þeirri hæð má fara að gera ráð fyrir lítilli loftblöndun niðri við jörð. Staðalhæð hitamælinga er í 2m hæð, en miklu getur munað á hitastigi niðri við jörð eins þegar skilyrði er hagstæð fyrir myndun hitahvarfa samfara örri kælingu yfirborðsins.
Í morgun voru göturnar enn og aftur blautar eftir smá rigningu í nótt, síðan létti til og lægði. Þá var ekki að sökum að spyrja og betra að fara varlega. Hálkuvarnir m.a. af hálfu Vegagerðarinnar og líka sveitarfélaganna miðast mikið að því að eyða hálku sem myndast á þennan hátt og jafnvel að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, þ.e. að salta í þann mund sem nær að frysta.
Athugasemdir