Ölvun ógildir miðann
Er undirrituð stóð í stórræðum í dag við að taka til í geymslu á Siglunes Guesthouse eða Hótel Höfn eins og hún hét á mínum sokkabandsárum fann ég gamlan miða á ball með Stormum frá því í denn. Gaman væri ef einhver vissi eitthvað frekar um hvenær þessi dansleikur með Stormum var haldinn og hvort hafi verið gaman.
Ekki var laust við að minningarnar heltust yfir mig og lét ég hugann reika til þess tíma er dansgólfið var fullt af dansandi og góðglöðum ballgestum sem fylltu Hótel Höfn. Þá var tíminn annar og stóðu böllin yfir frá því kl. 21.00-01.00 á föstudögum og 22.00-02.00 á laugardögum og fimm mínútur í lokin voru ljósin kveikt og vangadansinn tekinn.
Miði á dansleik með hinni siglfirsku hljómsveit Stormum
Skoðaði ég einnig gamla aðgöngumiða og skemmtanaleyfi sem var gefið út það herrans ári
1960. Er það virkilega skemmtileg lesning og ekki síður aðgöngumiðarnir þar sem tekið er fram á öðrum að ölvun ógilti
miðann sem kostaði 15 krónur og tekið er samviskulega fram hvað rynni í ríkiskassann af inngangseyrinum og hinn miðinn er greinilega nokkuð yngri og
kostaði þá 150 krónur inn.
Já, þá var tíðin önnur.
Skemmtanaleyfi fyrir Hótel Höfn frá árinu 1960
Bakhlið skemmtanaleyfisins
Miði nr. 4395 sem kostaði heilar 150 krónur.
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir
Athugasemdir