Ómar Ragnarsson vill ekki göng yfir í Fljót

Ómar Ragnarsson vill ekki göng yfir í Fljót Kristján L. Möller og Ómar Ragnarsson skiptast á skoðunum varðandi göng um Héðinsfjörð og Fljót en í skrifum

Fréttir

Ómar Ragnarsson vill ekki göng yfir í Fljót

Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson

Kristján L. Möller og Ómar Ragnarsson skiptast á skoðunum varðandi göng um Héðinsfjörð og Fljót en í skrifum má lesa að sá síðarnefndi telur íbúa Tröllaskaga ekki eiga skilið að fá göng um Fljót.

Ómar ragnarsson skrifar í megindráttum á bloggi sínu omarragnarsson.blog.is þann 21.júlí að vegna pólitískra kjördæmahagsmuna hafi menn ekki viljað svokallaða Fljótaleið og að í dag eigi það því ekki að vera í boði. Hér að neðan má lesa bloggfærslu Ómars.

Vildu ekki göng yfir í Fljótin.

Þegar fjallað var um vegabætur á utanverðum Tröllaskaga hér um árið komu tveir möguleikar til umræðu: Héðinsfjarðarleið og Fljótaleið.

Fljótaleiðin hefði legið þannig að frá Siglufirði væri ekið um göng yfir í Fljótin utanverð og innar úr Fljótunum um göng yfir í Ólafsfjörð. 

Fljótaleiðin hafði að vísu þann ókost að leiðin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar varð 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng, 34 í stað 17. 34 kílómetrar þykja ekki mikið á höfuðborgarsvæðinu og eru vel innan þeirra marka, sem eitt atvinnusvæði spannar. 

En að öllu öðru leyti hafði Fljótaleiðin kosti umfram Héðinsfjarðarleiðina.  

Fljótagöngin styttu leiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar og suður um til Reykjavíkur um átta kílómetra.

Þau tryggðu heilsárssamgöngur vestur og suður um og afnámu hinn hættulega og vonda veg um Almenninga.

Þeir skópu líka heilsársleið milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar, mun styttri en leiðin er um Héðinsfjarðargöng og hina slæmu Almenninga.

Þau styttu heilsárs hringleið um Tröllaskaga um ca 20 kílómetra og afnámu leiðina um Almenninga.

Þau viðhéldu töfrum Héðinsfjarðar og ævintýralegu aðdráttarafli hans sem eina óbyggða fjarðarins á svæðinu frá Ingólfsfirði á Ströndum til Loðmundarfjarðar á Austfjörðum.

Pólítískir kjördæmahagsmunir og flutningur Siglufjarðar úr Norðurlandskjördæmi vestra yfir í Norðausturkjördæmi réðu miklu um að Héðinsfjarðargöng voru valin. 

Til að aðstoða þingmennina til að tala niður Fljótaleiðina niður var Vegagerðin fengin til að gera að skilyrði að gangamunnarnir Fljótamegin lægju mun lægra en aðrir gangamunnar á landinu.

Það lengdi göngin verulega og gerði þau dýrari.

Meðmælendur Héðinsfjarðarleiðarinnar höfðu yfirburði í aðstöðu til að reka áróður fyrir henni.

Nú þrýsta Siglfirðingar á að fá nyrðri helming Fljótaleiðarinnar frá Siglufirði til Fljóta í viðbót við Héðinsfjarðargöngin.

Á sama tíma er æpandi þörf fyrir göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vegabætur við norðanverðan Breiðafjörð fyrir landshluta, sem enn er á svipuðu samgöngustigi á landi og í lofti og v var fyrir hálfri öld.

Því var aldrei lofað á sínum tíma að grafin yrðu jarðgöng þvers og kruss um allan norðanverðan Tröllaskaga.

Valið stóð á milli tveggja leiða og hvor kosturinn, sem í boði var, var mjög dýr og á kostnað annarra landshluta.

Úr því að menn vildu ekki göng milli Siglufjarðar og Fljóta þegar þeir gátu fengið þau, er ólíklegt að þeir geti fengið þau í viðbót við Héðinsfjarðargöng.

Því að það er oft þannig, að sá sem vill ekki þegar hann fær, fær ekki það sem hann vill. 

 

Tengdar fréttir:

 Kristján L. Möller svarar rangfærslum Ómars Ragnarssonar


Athugasemdir

25.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst