Pylsuskólinn er einmitt í dag
sksiglo.is | Almennt | 13.04.2014 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 378 | Athugasemdir ( )
Í tilefni þess að síðasti Kirkjuskóladagurinn er í dag þá á að halda upp á það með einhverju öðru en
vöfflum og ávöxtum.
Kristinn Kristjánsson (sem ætti eiginlega að vera aðjúnkt í matvælafræði og framreiðslutæknir) kom með þá snilldar
hugmynd að láta feður barnanna sjá einu sinni um veitingarnar sem Siggi, Rut og Viðar þáðu með þökkum og létu þetta alfarið
í hendur þeirra Kristins og Hrólfs að sjá um að versla inn fyrir veisluna.
Miklar pælingar fóru í gang með það hvað skyldi nú hafa til tilbreytingar fyrir feður, mæður, afa, ömmur og börn og varð
beikonvafinn nautavöðvi á pipar-rjómasósubeði og japönsku mæjónesi "on the top" og bakaðri kartöflu með dash af
hvítlaukssmjöri fyrir valinu. Þessu átti svo að skola niður með úrvals messuvíni af árgangi og afgangi 2013. En því miður
fékkst ekki leyfi til þess þannig að það verða grillaðar pylsur í staðinn ef veður leyfir og grill finnst. Nú ef veður leyfir bara
alls ekki og öll grill eru týnd eftir veturinn þá verður þetta bara mauksoðið í stórum potti, örbylgjueldað eða ofnbakað,
það skiptir víst ekki máli því pylsur eru alltaf góðar.
Kristinn og Hrólfur vilja biðja karlmennina sem mæta í pylsuveisluna að hafa það í huga að einhversstaðar stendur líklega "þeir
fyrstu verða síðastir og þeir síðustu verða fyrstir" eða eitthvað álíka. (Það er eiginlega verið að tala um það
að það er bannað að ryðjast og troða sér fremst.)
Barnastarfi Siglufjarðarkirkju er að ljúka þennan veturinn eftir mikla og góða aðsókn í vetur fólks á öllum aldri. Þegar
flestir mættu komu um 120 manns í Kirkjuskólann en annars hefur aðsóknin að jafnaði verið í kring um 80 manns.
Þetta byrjar allt klukkan 11:15 og Guð einn veit hvenær þetta endar.
Athugasemdir