Rammafiskur á sýningum ytra
sksiglo.is | Almennt | 10.03.2014 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 639 | Athugasemdir ( )
Ég hitti Kristján Sturlaugsson fyrir stuttu síðan og tók hann spjalli.
Hann sagði mér að hann væri að fara til Bretlands og að sjálfsögðu gerði ég ráð fyrir því að hann
væri að fara á fótboltaleik með Liverpool eða einhverju öðru fótboltaliði sem kennt er við bæ, borg, fallbyssu eða
álíka spennandi. Og að sjálfsögðu spurði ég strax "og á hvaða leik ertu að fara?" og spurði svo aftur áður en hann
náði að svara " ertu búinn að fá leyfi hjá Boggu (sem er konan hans Kidda)?". En það var nú ekki raunin því Kristján var
á leið til Bretlands til að kynna starfsemi Ramma ásamt 2 öðrum herramönnum. Ég náði því nú fljótlega upp úr
honum hverjir væru að fara með honum og Björn Valdimarsson markaðsstjóri Ramma var annar þeirra.
Ég hafði samband við Björn og fékk upplýsingar hjá Birni hvert förinni væri heitið og hvort það væru
reglulegar heimsóknir til afurðakaupenda. Björn var fús til að gefa mér upplýsingar um ekki fótboltaförina auk þess sem hann lét mig
fá nokkrar myndir til að sýna ykkur.
Rammamenn fara árlega á tvær til þrjár sýningar í Bretlandi til að kynna framleiðslu sína fyrir eigendum fish and chips
veitingahúsa, en langmest af þorsk- og ýsuflökum sem veidd eru á frystiskipum félagsins eru notuð í þjóðarrétt Breta, fisk og
franskar.
Mikil áhersla er lögð á vandaða framleiðslu um borð í Mánabergi og Sigurbjörgu og nú er Rammamerkið vel þekkt
sem gæðavara á fish and chips markaðnum.
Björn fer mjög reglulega á þessar sýningar ásamt einum skipstjórnarmanni.
Þetta árið fóru Björn og Friðþjófur Jónson skipstjóri á Sigurbjörgu á sýningu
í Peterborough, en Björn og Kristján Sturlaugsson stýrimaður á Sibbunni ásamt Ragnari Aðalsteinssyni útgerðartjóra til
Newcastle.
Mikill fjölda gesta kemur að jafnaði á þessar sýningar, t.d. komu yfir 2.000 manns frá 500 veitingahúsum á sýninguna
í Newcastle þetta árið og eru þær því kjörinn vettvangur að til að kynna vöruna og jafnframt gott tækifæri fyrir
kaupendur til að hitta skipstjórnarmennina og ræða við þá.
Nú er bara spurning hvort það fari ekki einhver að bjóða upp á fish og chips á Sigló? Það væri nú
svolítið skemmtilegt.








Athugasemdir