Raunsæi í stjórnmálin takk!

Raunsæi í stjórnmálin takk! Ég er ein fimm systkina sem ólst upp á sveitbæ sem verið hafði í eigu ættarinnar í 400 ár. Faðir minn seldi jörðina þegar

Fréttir

Raunsæi í stjórnmálin takk!

Signý Sigurðardóttir
Signý Sigurðardóttir
Ég er ein fimm systkina sem ólst upp á sveitbæ sem verið hafði í eigu ættarinnar í 400 ár. Faðir minn seldi jörðina þegar ljóst varð að ekkert okkar vildi taka við, það var erfið ákvörðun en raunsæ.

Bróðir minn sem fór í Bændaskólann á Hvanneyri sölsaði um og ákvað að fara í tölvufræði. Starfar í þeim geira í dag með hærri laun en hann hefði nokkurn tíma getað vænst að hafa sem bóndi. Annarr bróðir minn er líffræðingur. Um það leyti sem hann útskrifaðist voru kollegar hans ekki með miklar væntingar til hárra launa. Það gjörbreyttist þegar De Code kom hingað og þessi sérfræðigrein varð allt í einu eftirsóknarverð og ígildi hárra launa. Við höfum öll fylgst með gríðarlegu breytingu sem orðið hefur í íslensku samfélagi síðustu áratugina. Samfélagi þar sem fjölbreytni atvinnutækifæra (á Stór Reykjavíkursvæðinu alla vega) - hafa aukist gríðarlega. Síðustu ár reyndar í fullkomnu gullæði sem augljóslega byggði á sandi en það breytir ekki því að við erum á öðrum stað núna en við vorum fyrir tuttugu árum síðan og ég er sannfærð um að við viljum ekki fara til baka.

Við viljum öll fjölbreytt atvinnutækifæri. Ástæða þess að ég tek dæmi af fjölskyldu minni hér að ofan er að í mínum huga getur hún verið fulltrúi fyrir þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi og sem ég vil sjá að við horfumst í augu við.

Að landbúnaður á Íslandi er ekki og verður ekki undirstaða fjölbreyttra atvinnutækifæra til framtíðar. Landbúnaður verður áreiðanlega stundaður á Íslandi til langrar framtíðar og hann þarf að hafa skilyrði til þess eins og aðrir atvinnuvegir en hann á ekki að upphefja eða tala um í umræðunni eins og hann eigi að vera í forgrunni atvinnustefnu til framtíðar litið.

Það sama á við um sjávarútveg. Við skulum bera virðingu fyrir sjávarútvegi sem atvinnugrein en látum ekki eins og hann komi til með að standa undir þeim lífskjörum sem við viljum horfa til í framtíðinni.

Við þurfum á raunsæi að halda í umræðunni meira en nokkurs annars. Því hef ég haldið fram frá upphafi hruns og geri staðföst enn. Við eigum umfram allt að hætta að flokka atvinnuvegi í „góða" atvinnuvegi og „vonda" atvinnuvegi. Við eigum að vera raunsæ og horfa heildstætt á möguleika okkar og tækifæri og taka raunsæjar ákvarðanir.

Við eigum að styðja við uppbyggingu atvinnulífs í landinu hvaða nafni sem það nefnist. Það hugarfar sem hefur verið byggt undir síðustu mánuði að atvinnurekendur og fjárfestar séu glæpamenn þar til annað sannast er stórhættulegur jarðvegur og leiðir okkur ekkert nema afturábak.

Fréttir af fjárlagafrumvarpinu á föstudaginn var sannarlega ekki tilefni til bjartsýni. Frumvarp sem gerir ráð fyrir skattlagningu „auðlinda" búið til að því er virðist í fullkomnu tómarúmi innan veggja fjármálaráðuneytisins. Útfærsla hugmynda í þessa veru byggir á þeim jarðvegi sem byggt hefur verið undir í samfélaginu síðustu misseri. Jarðvegi fullkomins óraunsæjis til atvinnulífs í landinu. Höfum hugfast að til að „auðlindir" séu verðmæti þurfa að vera til kaupendur að þeim.

Við þurfum ekki á uppákomum af þessu tagi að halda. Við þurfum á því að halda að vita að stjórnmálamennirnir okkar viti í hvers konar samfélagi við lifum og hvaða tækifæri eru til staðar til að við komust einhvern tíma út úr því ástandi sem nú ríkir.

Grunnforsenda þess er uppbygging atvinnulífsins. Það er atvinnulífið sem býr til gæði þess samfélags sem við búum í. Það er styrkur fyrirtækjanna til athafna, greiðslu launa sem býr til þau samfélagslegu gæði sem við öll leitum eftir.  Svo einfalt er það og það vitum við öll.

Okkar persónulega afkoma verður ekki til í tómarúmi heldur byggir á því hvaða atvinnustarfsemi er til í landinu. Þess vegna er skýlaus krafa til stjórnmálamanna að þeir átti sig á nákvæmlega því og vandi til þeirra ákvarðana sem teknar eru. Ákvarðanir núna til skemmri tíma skipta öllu máli. Við erum í vanda og eina leiðin til að komast út úr þeim vanda á sem skemmstum tíma er hröð uppbygging atvinnulífsins. Það er alveg sama hvað við heyrum margar útfærslur á afskrift lánanna okkar - það er aukaatriði ef að hjól atvinnulífsins komast ekki í gang.

Það er aðalatriði og það eiga þeir sem eru við stjórnvölinn - og líka hinir að hafa hugfast.

Raunsæi og samstöðu í stjórnmálin takk!

Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst