Sagan af hljómsveitinni Hrím

Sagan af hljómsveitinni Hrím Jarðvegurinn og umhverfið. Á sjöunda áratug síðustu aldar var mikil gróska í tónlistarlífinu á Sigló og er það í mínum huga

Fréttir

Sagan af hljómsveitinni Hrím


















Sagan af hljómsveitinni Hrím.

(Viðtal við Kristján Jóhannsson fyrrum bassaleikara)

 

hrímLjósmyndin sem birtist af hljómsveitinni HRÍM í Morgunblaðinu eftir Verslunarmannahelgina í Húsafelli árið 1969. Höfundur ókunnur.

 

Jarðvegurinn og umhverfið.

Á sjöunda áratug síðustu aldar var mikil gróska í tónlistarlífinu á Sigló og er það í mínum huga ekki síst að þakka hinum stórkostlega Gerhard Schmidt sem átti jafnan auðvelt með að hrífa fólk með sér, hvetja það til góðra verka og kveikti marga tónlistarelda sem margir hverjir loga enn, hálfri öld síðar. 

En fleiri komu vissulega þar við sögu. Sigursveinn D. Kristinsson frá Syðsta Mói í Fljótum kenndi við Tónskóla Siglufjarðar 1958-1963 og var fyrsti skólastjórinn þar. Hinn þýski Richard Jauer kenndi á blásturshljóðfæri sex daga vikunnar veturinn 1959-60, en spásseraði eða öllu heldur marseraði um bæinn á sunnudögum í síðum leðurfrakka sem minnti óþægilega mikið á klæðnað þekktra sveita þriðja ríkisins sem við nefnum ekki hér. 

Einnig Lydia Guðjónssen píanóleikari, Hlynur Óskarsson trompetleikari, Einar Sturluson (Einar á Grund) söngkennari og söngvari, Ásdís Ríkharðsdóttir píanókennari (dóttir Ríkharðs Jónssonar myndhöggvara), Concordía Guðjónsson cellóleikari, Ítalinn Vincenzo Demetz söngkennari, Íraninn Mohamed Massouidikh og svo mæti lengi telja.

Góðir menn eins og Óskar Garíbaldason, Hafliði Guðmundsson, Kristján Sigtryggsson og auðvitað Sigurjón Sæmundsson áttu allir sinn þátt í tónlistarbyltingunni á Sigló, þó hver á sinn sérstaka hátt, að ógleymdum fjölmörgum erlendum og all nokkuð fjarlægari áhrifavöldum svo sem Bítlunum, Rollingunum og fleiri “bítlahljómsveitum” og síðar auðvitað m.a. þeim Hendrix og Clapton.

Saga Tónskóla Siglufjarðar sem er um margt merkileg, er því miður enn óskráð. Það væri þó full ástæða m.a. fyrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar að fræðast um þann hvata sem leiddi til hins sérstæða samruna listiðkunar og stéttabaráttu á Sigló um miðja síðustu öld og þeirra fjölmörgu góðu hluta sem urðu að sannkölluðu blómaskeiði og aldrei mega gleymast.. Sama má einnig segja um poppsöguna, því hún er ekki síður merkileg, svo fjölskrúðug og litrík sem hún var.

Tónlistarlífið á Sigló var eins og risastór suðupottur og frjór jarðvegur fyrir þá sem vildu vera eitthvað og gera eitthvað. Sumir notfærðu sér það til hins ítrasta en aðrir hrifust með straumnum, fitluðu svolítið við tónlistargyðjuna um stundarsakir og höfðu gagn og/eða gaman af. Á seinni hluta sjöunda áratugsins munu á einhverjum tímum allt að fjórar hljómsveitir hafa verið að spila í Gagganum á sama tíma.

-

Forsagan og upphafið.

Ein af hljómsveitunum sem urðu til á þessum tíma var hin magnaða Hrím sem var upphaflega skipuð þeim Gesti Guðnasyni og Árna Jörgensen á gítara, Rúnari Egilssyni trommur, Magnúsi Þormari Hilmarssyni orgel og Kristjáni Jóhannssyni á bassa. 

Um svipað leyti og unglingahljómsveitin  Hrím varð til, voru aðrir enn yngri drengir að stíga sín allra fyrstu spor á poppbrautinni. Það var sá sem þetta ritar ásamt þeim Þórhalli Ben, Vidda Jóhanns, Guðna Sveins og Óttari Bjarna. Þetta var árið sem við fermdust og við guttarnir nefndum hljómsveitina okkar Hendrix eftir aðalátrúnaðargoði Þórhallar. Þegar Hrímararnir voru að spilla í gamla Allanum, lágum við ýmist með eyrun á hurðinni sem er rétt framan við sviðið og snýr út að Þormóðsgötunni, eða gægðumst varfærnislega inn um aðaldyrnar ef þær stóðu opnar. Óhætt er að segja að við höfum hlustað með áfergju á sérhvern tón og héldum síðan eins konar málfundi á milli laga þar sem útkoman var rædd fram og aftur. Ef Gestur tók eitt af sínum spunasólóum áttu við þó fá orð til að lýsa skoðunum okkar á þeim gjörning sem fyrir eyru okkar bar. 

-

Við byrjendurnir fengum að æfa uppi á lofti í Vökuhúsinu að Gránugötu 14, þökk sé Óskari Garíbaldasyni. Þá átti Gestur það til að birtast upp úr þurru, setjast niður með okkur litlu guttunum og kenna okkur nokkur ný grip eða jafnvel heilt lag sem við gátum þá bætt við prógrammið eftir að hafa hamrað svolítið á því. Það hefur þó eflaust hjálpað til að hann var náfrændi Guðna Sveins. Einu sinni man ég líka eftir Stjána Hauks úr hljómsveitinni Max (hinni fyrri) í svipuðum erindagjörðum, en hún hafði líka fengið inni í Gránugötunni um tíma og æfði niðri í salnum.

 

hrím

Kristján á spjalli um hljómsveitarferilinn og þau ævintýri sem honum fylgdu.

Ljósmynd Leó R. Ólason. 

 

Myndin úr Mogganum.

Eftir að Kristján Jóhannsson myndlistakennari og fyrrum bassaleikari hljómsveitarinnar Hrím flutist aftur heim á Sigló, hitti ég hann úti á götu og ég spurði hann hvort ekki væru til einhverjar gamlar hljómsveitarmyndir en hann sagði svo ekki vera, en eftir svolitla umhugsun bætti hann við, “nema gamla úrklippan úr Mogganum síðan við kepptum í Húsafelli, en hún er því miður orðin ansi gömul og máð”.

Ég varð auðvitað strax forvitinn um hana og við gerðum með okkur samkomulag. Stjáni ætlaði að finna úrklippuna og koma með hana til mín á Aðalgötuna, en þar ætlaði ég að skanna hana og laga til, prenta hana út á ljósmyndapappír fyrir hann, en ég mætti alla vega hans vegna nota rafrænu útgáfuna með greinarskrifum eins og þessum.

Eitt sinn þegar ég var staddur á Siglufirði, kom hann í heimsókn með gripinn í umslagi og ég lofaði að fara alveg rosalega vel með hann. Við tókum svolítið spjall saman og Stjáni sagði mér frá hljómsveitarárunum.

-

Kristján segir frá.

Við vorum miklir vinir Gestur og ég, og einu sinni spurði hann mig hvort ég vildi ekki reyna að spila á bassa. Þetta var sennilega árið 1967 og ég var ekkert allt of viss, því það hafði aldrei reynt á að ég gæti yfirleitt spilað á nokkurt hljóðfæri. Í öðru lagi átti ég alls engar græjur, en fékk samt lánaðan bassa og prófaði. Þetta lukkaðist merkilega vel og ég var þar með kominn í hljómsveit. Gestur Guðna og Árni Jör komu úr hljómsveitinni Stormum og voru alveg þrælsjóaðir. Rúnar Egils kom líka þaðan, en hafði þó aðeins trommað þar í fáeina mánuði. Maggi Þormar bróðir Jómba í Gautum var með fyrsta árið og spilaði á orgel, en síðan hætti hann og enginn var ráðinn í stað hans. 

-

Við æfðum fyrst í stað í húsnæði verkalýðsfélagsins Vöku við Gránugötu, en síðar meir í Allanum þar sem við spiluðum oftast enda stóðu hljóðfærin yfirleitt þar. Æfingarnar voru nokkuð skipulagðar, t.d. æfðu gítararnir fyrst saman sér, trommur og bassi sér og síðan söngur og raddir sér. Eftir þetta var allt æft saman, og þessi aðferð reyndist okkur ágætlega. 

-

Við spiluðum áfram fjórir og það gekk bara vel. Við höfðum merkilegamikið að gera og þetta var mjög skemmtilegur tími. Gestur fór vestur um haf seint á árinu 1967 í heimsókn til föðurbróður síns, en hann kom til baka með fullt af forvitnilegri tónlist á splunkunýjum vinyl. Þar á meðal var fyrsta plata hljómsveitarinnar “The Doors” sem enginn á Íslandi hafði þá heyrt getið um. 

Ég var ballöðukarlinn í bandinu og söng m.a. bítlalagið Hey Jude svo og nokkur Bee Gees lög.

-

Árið 1969 ákvað ég að reyna að komast inn í “Mynd og hand,” og fór í inntökupróf um vorið ásamt Örlygi núverandi safnverði.Við komumst báðir inn og stefndum því að hefja skólagönguna þá um haustið. Ég þurfti því að huga að fjármögnun námsins því engin fékk ég námslánin, og þegar leið á sumarið seldi ég hljóðfærin og varð því að hætta að spila.

-

Um verslunarmannahelgina ákvað ég að skella mér í Húsafell og það gerðu hinir Hrímararnir líka. Þetta átti í upphafi bara að vera til skemmtunar, en það fór svolítið á annan veg. Þeir spurðu mig hvort ég væri ekki til í að vera með þó svo að ég væri eiginleg hættur, því það væri hljómsveitarkeppni í Húsafelli. Auðvitað var það í góðu lagi, en ég átti bara engan bassa lengur. Þeir fullvissuðu mig um það væri ekkert mál að fá lánaðan bassa, og svo var unglingahljómsveitin Hrím frá Siglufirði skráð til þátttöku. Það var ákaflega vænn og prúður piltur sem lánaði mér bassann sinn. Hann hét Pétur Kristjánsson, síðar m.a. í Pops, Svanfríði, Pelican, Paradís og Póker. Blessuð sé minning hans. Við spiluðum þrjú eða fjögur lög og það var mjög gaman og ég hugsaði síðan eiginlega ekki mikið meira út í það. Það var síðan Rúnar Egils sem kom og tilkynnti mér að við hefðum verið kosnir “Besta unglingahljómsveitin ´69.” Þessu fylgdi ýmislegt sem ég átti ekki von á þegar lagt var upp í ferðina, en gerði hana vissulega að meira ævintýri. Við urðum núna að spila á stóra sviðinu, og þá var komið upp sama vandamálið og áður þ.e. bassaleysið. Í þetta skiptið var mér bjargað af Rúnari Júlíussyni, en hin nýstofnaða Trúbrot var aðalhljómsveitin í Húsafelli 1969. Við fengum þarna nýjan og virðulegan titil, einhver peningaverðlaun og hljómplötuverðlaun frá SG.

“Hrím er fyrsta og eina hljómsveitin sem ég hef verið í og reyndar hef ég aldrei snert bassa síðan þarna á stóra sviðinu í Húsafelli,” bætti Kristján við.

-

-Um framhaldið er svo það að segja að við Ölli vorum í bekk með Áskeli Mássyni sem síðar varð m.a. slagverksleikari í Náttúru. Hann spurði mig hvort ég vissi um einhvern góðan gítarleikara, því það vantaði þá svoleiðis mann í hljómsveitina Tatara. Sú sveit hafði þá nýverið gefið út smáskífu með lögunum “Sandkastalar” og “Dimmar rósir” sem hafði fengið talsverða spilun. Ég benti honum á Gest Guðnason og það varð líklega til þess að Gestur fór suður, því Tatarar höfðu samband við hann og hann gekk síðan til liðs við þá sagði Kristján að lokum.

-

Nýr bassaleikari

Guðmundur Ragnarsson tók svo við bassanum í stuttan tíma, eða þar til Gestur sem var næstur til að yfirgefa þetta eðalband hélt suður á vit ævintýranna. 

Gummi sem þá var aðeins 16 ára, var bæði og er mjög liðtækur á tónlistarsviðinu, en varð þarna svolítið fórnarlamb aðstæðna.

“Hann er nú bara þarna af því að Gestur er með systir hans,” sögðu einhverjir hljómsveitaspegúlantar sem höfðu jafnvel hver sínar sérstöku skoðanir á því hver ætti að vera arftaki Stjána. 

Gummi hafði áður verið að spila í nokkrum unglingasveitum og eftir Hrímtímabilið spilaði hann með hléum í nokkrum Siglfirskum böndum. Meðal annars var hljómsveit við hann kennd því Hljómsveit Guðmundar spilaði talsvert á árabilinu 1973-74. Hana skipuðu ásamt Gumma, undirritaður, Þórhallur Ben, Birgir Ingimars og um tíma Birgir Eðvarðsson. (Biggi Ölmu). Í dag býr hann á Sauðárkróki, starfar sem verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, spilar við ýmis tækifæri og syngur í kirkjukórnum.

 

Hvert fóru svo allir?

Á þessum árum þekkti ég Gest sem hreint ótrúlega ljúfan dreng og mikið prúðmenni í alla staði. Svo hvarf hann á braut, ákveðinn í að freista gæfunnar sunnan heiða með gítarinn og mannkosti sína að vopni, en ég hef því miður lítið séð hann eða heyrt síðan þá.

Magnús Þormar bjó í nokkur ár á Siglufirði en flutti síðan suður. Síðast þegar ég vissi starfaði hann sem fasteignasali hjá Fasteignasölunni Skeifunni.

Rúnar og Árni bjuggu áfram á Siglufirði um tíma og spiluðu þar u.þ.b. ár til viðbótar. Eftir það hélt Rúnar á vit Reykvískra örlaga sinna en Árni erlendis til framhaldsnáms.

Um Kristján er það að segja að eftir að hafa lokið námi í Myndlista og handíðaskólanum, kenndi hann í sjö ár við Garðaskóla. Hann flutti til Akureyrar 1982 og kenndi þar þangað til hann flutti aftur til Siglufjarðar og lokaði þar með hringnum. Þó það tilheyri ekki beint sögunni af Hrím, þá langar mig að skjóta því inn að eplið fellur sjaldnast svo ýkja langt frá eikinni, því að dóttir hans Alma Rut hefur sungið með mörgum þekktustu tónlistarmönnum landsins á síðustu árum og er mjög vaxandi söngkona. Hún hefur kennt í söngskóla Maríu Bjarkar með hléum síðan 2005, er ein þeirra sem mynduðu söngflokkinn Heitar lummur, hefur sungið bakraddir í Söngvakeppni Sjónvarpsins nær óslitið síðan 2007 og söng bakrödd hjá Grétu Salome (sem er einnig ættuð frá Siglufirði) og svo mætti reyndar lengi telja. 

-

 

hrímÞessa stórskemmtilegu mynd tók umboðsmaðurinn Kristján L. Möller af síðustu útgáfu hljómsveitarinnar. 

 

Upprisan og endalokin.

Því er svo við að bæta að hljómsveitin Hrím var ekki alveg öll eins og áður sagði, því hún var endurreist snemma árs 1970. Þá flutti Magnús Guðbrandsson aftur til Siglufjarðar, en hann hafði nýverið lokið námi í bifvélavirkjun hjá Heklu og keypti sér forláta Yamaha orgel. Sverrir Elefsen var kominn á bassann, en hann hafði spilað með danshljómsveitinni Max (þeirri eldri) í nokkur ár, ásamt þeim Óla Ægis, Rabba Erlends, Sjána Hauks og um tíma Hjálmari Jóns. Þeir Magnús og Sverrir ásamt Árna Jör og Rúnari Egils sem hafði þá vaxið mjög sem söngvari, æfðu stíft fyrir vorið og spiluðu síðan nánast um hverja helgi fram á vetur. Þessi síðari útgáfa af bandinu lagði mikla áherslu á vandaðar og vel unnar raddsetningar ekki síður en sú fyrri. En í árslok 1970 leystist hópurinn svo upp þegar Árni fór til Þýskalands til náms og hefur ekki verið endurreistur enn sem komið er.

-

Að lokum.

Fyrsta ballið héldu Hrímararnir á Höfninni en þegar fram í sótti vildu þeir frekar spila í Allanum. Kannski fannst þeim þeir vera nær áheyrandanum eða vildu kannski bara spila annars staðar en flestir aðrir gerðu á þessum tíma? Ég veit það ekki, en þeir voru ekkert sérstaklega mikið fyrir það sem hefðbundið gat talist á hvaða hátt sem var, en ég reyndi það síðar á eigin skinni að það var svo sannarlega einhver sérstakur sjarmi yfir salnum og stemmingunni í gamla Allanum. Í hljómsveitinni var ekki gert út á hina hefðbundna skiptingu á hlutverki gítarleikaranna, þ.e. milli rythma og sóló eins og í flestum öðrum böndum, heldur útpældu samspili beggja og oft spiluðu bæði Árni og Gestur sóló í sama laginu.

Í mars 1998 skrifaði Árni Jörgensen stórskemmtilega plötugagnrýni vegna útkomu Pilgrim sem fyrirmyndin og gítarhetjan hans Clapton var þá að senda frá sér, en þar er ekki minna fjallað um hljómsveitarstrákana norður undir Dumbshafi sem biðu þess forðum með mikilli óþreyju að setjast yfir nýfengna plötu John Mayall og Clapton í Bluesbrakes. Þar segir hann líka frá leitinni að hinum eina sanna bluestón og hvernig trixið með banjostrengina leiddu þá að lausninni með aðstoð Magga Eiríks í Rín. 

Greinin heitir “Þegar Clapton kom til Siglufjarðar” og ég hvet alla til að lesa þessa stórskemmtilegu “frásögn”, en slóðin þangað er  HYPERLINK "http://www.mbl.is/greinasafn/grein/387081/" http://www.mbl.is/greinasafn/grein/387081/

Á þessum tíma var engin hljómsveit með hljómsveitum nema hún hefði umboðsmann, og það verður auðvitað að fylgja sögunni af Hrím að umboðsmaður var framan af Theodór Júlíusson, en síðar tók Kristján L. Möller við því embætti.

Aðal keppinautarnir var Max skipuð þeim Rabba Erlends, Sverri Elefsen, Stjána Hauks og Óla Ægis, til að byrja með einnig Hjálmari Jóns og um tíma Sigga Hólmsteins. Þrátt fyrir samkeppnina fór ágætlega á með liðsmönnum Hrím og Max rétt eins og Bítlunum og Stones forðum daga. Hljómsveitirnar héldu meira að segja einu sinni dansleik saman þar sem þær spiluðu til skiptis fyrir troðfullum Allanum.

Á svipuðum tíma æfði barnaskólahljómsveitin Bláu Bítlarnir uppi á lofti í Æskó. Þeir Finni Hauks, Siggi Blöndal, Bjössi Sveins og Robbi Guðfinns.

Í gaggnanum varð svo síðar til hljómsveitin Tupamaros með þeim Stebba Fidda, Hödda Júll, Bjössa Sveins og Sigga Blöndal.

Og Stebbi Fidda kom víða við á þessum árum, því hann var einnig liðsmaður í hljómsveitinni Áhrif sem æfði stíft um tíma í kjallaranum í Æskó um eða upp úr 1970 en spilaði þó eitthvað lítið. Þar voru einnig liðsmenn þeir Raggi Tona (söngvari) Baldur Jörgen, Guðni Sölva, Matti Ægis, Kristinn Ásmundsson örfhenntur gítarleikari úr Fljótunum sem síðar fór í Upplyftingu og Björn Valur Gíslason skipstjóri, fyrrverandi alþingismaður og aðal hugmyndafræðingurinn í Roðlaust og Beinlaust. Ekki má svo gleyma að nefna til sögunnar Halla Bó sem var sérlegur fylgifiskur hljómsveitarinnar og hafði m.a. það sérstæða hlutverk að sitja fyrir framan trommusettið til að það yrði kyrrt á sínum stað meðan Guðni lamdi húðirnar, en hann átti einnig til að taka eitt og eitt lag inn á milli.

Þá var líka til hljómsveitin Enterprise skipuð þeim Gumma Ingólfs, Bjössa Birgis, Jóhanni Skarp, og Stjána Elíasar, sem spilaði stundum í Sjallanum og var frægust fyrir lagið “Anna Lára, Bryndís, Bára frænka mín og Lalli Blöndal”.

En minningin um hljómsveitina Hrím og ekki síður þessa frábæru tíma mun lifa í hugum þeirra sem upplifðu þá, og fortíðarþráin mun væntanlega nota hvert tækifæri til að banka upp á það sem eftir lifir. - Það er gott að eiga góðar minningar.

-

Texti Leó R. Ólason

Ljósmyndir.

Mynd 1. Úrklippa úr Morgunblaðinu.

Mynd 2. Leó R. Ólason

Mynd 3. Kristján L. Möller.

-

Sérstakar þakkir til Kristjáns fyrir spjallið og Árna Jörgensen sem bætti við heilmiklum fróðleik um viðfangsefnið.

Einnig þeirra Stefáns Friðrikssonar og Ragnars Antonssonar sem reyndust hinar ágætustu upplýsingaveitur.


Athugasemdir

12.mars 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst