Sáttin er sæt

Sáttin er sæt Uppsveiflan sem endaði með hruni bankakerfisins er sú fyrsta frá stríðslokum sem ekki var knúin áfram af útflutningi sjávarafurða. Á

Fréttir

Sáttin er sæt

Uppsveiflan sem endaði með hruni bankakerfisins er sú fyrsta frá stríðslokum sem ekki var knúin áfram af útflutningi sjávarafurða. Á síðasta áratug breiddist því sá misskilningur því út að sjávarútvegur skipti ekki lengur máli fyrir efnahagslíf landsins. Hátæknigreinar, fjármálageirinn og nýja hagkerfið væru að taka við því hlutverki sem sjávarútvegur hafði áður.

Stöðugt rekstrarumhverfi skiptir miklu fyrir öll atvinnufyrirtæki. Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að glíma við meiri óstöðugleika en þekkist í flestum öðrum greinum vegna náttúrulegra sveiflna í stofnstærðum. Ekki er heppilegt að bæta pólitískri óvissu þar á ofan. Sjávarútvegur er hins vegar ekki einkamál sjómanna, útgerðarmanna eða nokkurra annarra. Hann er ein meginstoð íslensks efnahagslífs og afkoma hans skiptir sköpum fyrir lífskjör almennings, hvar sem er á landinu. Í þessu ljósi er umræða um kvótakerfið oft óábyrg. Gagnrýnendur eru margir og stórorðir. Það er aðeins andstaðan við núverandi kerfi sem sameinar þá. Engin samstaða hefur náðst um nokkra aðra leið. Sumir vilja stjórna með handafli, aðrir með sóknarmarki og enn aðrir vilja frjálsar veiðar. Hægt er að sjá fyrir umbætur á núverandi kerfi en gagnger umbylting sem allir gætu sætt sig við er mjög ólíkleg. Því var það nánast kraftaverk að nær allir hagsmunaðilar og stjórnmálaöfl skildu geta komið sér saman um ramma fyrir nýtt kerfi líkt og nýlega gerðist með samningaleiðinni svokölluðu. En eins og ég hef áður bent á, innan þess ramma vill forsætisráðherra ekki staðsetja sig. Forsætisráðherra þarf jú sitt olíufélag.

Stór hluti þjóðarinnar virðist vera þeirrar skoðunar að leggja beri auðlindaskatta á útgerðina þar sem auðlindin sé lögfest eign þjóðarinnar allrar og því skuli hún öll njóta afrakstursins. Þeir hinir sömu verða að hafa í huga að ef skattleggja á auðlindahagnaðinn þá þarf hann að vera til staðar og eina þekkta raunhæfa kerfið sem tryggir hann er aflamarkskerfi líkt og hið íslenska, allt annað eru töfluæfingar. Jafnframt virðist það gleymast í umræðunni að útvegurinn borgar nú þegar um 3 milljarða á ári í auðlindagjald. En til að varðveita auðlindaarðinn þarf að tryggja að fiskveiðistjórnunarkerfið búi yfir tilteknum eiginleikum:


  • Aðgangur að auðlindinni þarf að vera takmarkaður. Með aðgangstakmörkunum er komið í veg fyrir sorgarsögu almenninganna. Eins og ég hef áður rakið leiða frjálsar veiðar til þess að of margir fiskimenn fjárfesta í of miklum búnaði sem leiðir til sóunar fiskveiðiarðsins og rányrkju á fiskistofnum.
  • Rétturinn til að nýta auðlindina þarf að vera því sem næst varanlegur. Með því að aðgangsrétturinn sé til langs tíma myndar hann verðmæti og langtímahugsun við nýtingu auðlindarinnar er tryggð. Það er ekki rétt sem oft er haldið fram að með varanlegum nýtingarrétti sé verið að færa útgerðum auðlindana. Alþingi getur á hverjum tíma afturkallað heimildir með lagasetningu. Íslenska ríkið á auðlindina.
  • Aðgangsrétturinn þarf að vera framseljanlegur. Til að auðlindarentan myndist að fullu öllum Íslendingum til hagsbótar þarf að ná fram hagkvæmni. Það er gert með því að hagkvæmar útgerðir geti keypt út þær óhagkvæmu. Þannig minnkar sóknargeta og offjárfesting – auðlindaarðurinn verður til. Því þarf að vera hægt að kaupa og selja nýtingarréttinn.

Íslenska aflamarkskerfið hefur alla þessa eiginleika. Eins og ég hef sýnt fram á hér í blaðinu undanfarna daga byggist gagnrýni á kerfið að mestu á staðleysum. Kerfið er hins vegar ekki gallalaust. En að það þurfi að umturna öllu kerfinu til að lagfæra þá og setja um leið útveginn í algjört uppnám er einfaldlega rangt. Vel er hægt að sníða af ágalla með tiltölulega einföldum hætti eins og samningaleið sáttanefndarinnar sýnir.


Athugasemdir

04.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst