Setjum út mannspilin
Það virðist í stóru sem smáu vera skoðun þeirra sem eiga að gæta hagsmuna almennings að sú staða sem þúsundir heimila horfa framan í sé lítt breytanleg og brýnt sé að alls ekki verði reynt að taka þannig á skuldamálum fólks að nokkur reisn sé yfir.
Vilji þjóðin raunverulega ná aftur vopnum sínum og hefja endurreisn efnahagslífsins þá er ekki til nema eitt ráð til þess, það ráð er vel þekkt og kallast í daglegu tali hagvöxtur. Það er hins vegar ekki sama á hverju hann byggist, hagvöxtur sem byggist auknum umsvifum ríkissjóðs er jafn falskur og skráða gengið sem var á íslensku krónunni þegar hún var sem sterkust.Þjóðin verður að framleiða verðmæti til að bæta hag sinn og barnanna. Það er eldgömul saga að án atvinnu (verðmætasköpunar) verða engin laun greidd og án tekna lækka hvorki skuldir né vænkast hagur heimila og fyrirtækja. Það verður aldrei hægt að viðhalda því heilbrigðiskerfi sem við gjarnan viljum geta gengið að né tryggt framfærslu þeirra sem minnst hafa nema fyrst sé byggður sá grunnur sem atvinnulífið er.
Virðing Alþingis hefur aldrei verið minni og það litla sem eftir var af henni fyrir atkvæðagreiðsluna um ráðherraábyrgð rann þá út í sandinn. Þegar fámennur hópur reyndi að breyta heimskreppu fjármálastofnana í íslenskt sakamál var nýjum lægðum náð sem seint verður jafnað. Það var samt Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð vörð um réttlætið og sannleikann þegar á hólminn var komið og féll ekki í þá freistni að velta sér ofaní þann forarpytt sem aðrir flokkar voru sokknir í upp að enni.Ég er spurður oft í viku hvað sé til ráða? Hvernig náum við þeim markmiðum að auka þjóðarframleiðsluna og bæta þannig hag allra landsmanna?
Einfalda svarið er: stefna og hugarfar.Undir stefnu Sjálfstæðisflokksins hefur þjóðin vaxið úr örbirgð til velsældar. Með réttu hugarfari hefur tekist að byggja upp atvinnulíf þar sem verkfræðingar og járniðnaðarmenn hafa fundið verkefni til jafns við kennara og sjómenn. Ef börnin okkar eiga að hafa fjölbreytt tækifæri til atvinnu og sköpunar þá verður að halda áfram á þeirri braut að hlúa að fyrirtækjum og frumkvöðlum, búa til jarðveg og gæta hans eins og kostur er. Þannig munu kraftmiklir einstaklingar brjótast áfram í leit sinni að nýjum tækifærum og bættum hag síns og þeirra sem hjá þeim starfa.
Það ferðalag sem við erum nú á getur ekki endað vel og það þarf ekki sjónauka til að koma auga á þá staðreynd.Klikkaðir karlmenn munu án efa ekki efna til atvinnureksturs í því hugarfari sem nú ríkir og fáir aðrir hafa gefið sig fram síðustu 60 árin sem vilja hætta fé og framtíð sinni til að byggja upp atvinnu í von um ávinning.
Fyrir þá sem trúa því að ESB geti komið í staðinn fyrir stefnu okkar sjálfra, fullyrði ég að okkur mun með réttu hugarfari vegna framúrskarandi vel á þessu frábæra landi hvort sem við verðum innan ESB eða utan. Það eru margir kostir við inngöngu í ESB og margir ókostir, framtíðin mun samt ráðast af því hvernig við sjálf spilum á þau spil sem okkur hafa verið gefin.Núverandi stjórnvöld virðast halda að hægt sé að vinna spilið án þess að setja út mannspilin.
Athugasemdir