Pylsuveisla kirkjuskólans var sunnudaginn 13. apríl
sksiglo.is | Almennt | 30.04.2014 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 389 | Athugasemdir ( )
13. apríl síðastliðinn var síðasti kirkjuskólinn fyrir
sumarfrí. Boðið var til pylsuveislu og það var vægast sagt óvenju margt um karlmanninn í kirkjuskólanum þann daginn.
Þetta var bara eins og að vera kominn í feðra orlof og karlmennirnir sem mættu
og voru komnir yfir fermingu hreinlega misstu sig í pylsuáti og almennri ánægju með veturinn því oft á tíðum hafa þau Siggi, Rut og
Viðar ásamt fermingarbörnum slegið upp vöfflu-, ávaxta- og alls konar veislum í kirkjuskólanum.
Að sjálfsögðu var ég með myndavélina og smellti af nokkrum myndum
ásamt því að tekið var upp myndband þar sem börnin sjást syngja svona líka ljómandi vel. Sumir dönsuðu af meiri innlifun en
aðrir.
Ég veit um nokkra aðra en mig sem bíða alveg snarspenntir eftir næsta
kirkjuskólaári. Kannski verður nýi örbylgjuofninn notaður þá. Hver veit?
Og Skarphéðinn grillaði og grillaði og grillaði og ...........
Og Doddi smakkaði og smakkaði og smakkaði og.......
Flottur hópur.
Og svo beið hópurinn eftir að grillmeistarinn væri klár með pylsurnar.
Rut sá um að allt væri í röð og reglu. Sinnep, tómatsósa, hrár laukur, steiktur laukur og remúlaði. Allt eins og
það átti að vera.
Mikael beið alveg sallarólegur eftir því að pylsurnar væru klárar.
Siggi var harður á því að það væri bara ein pylsa á mann fyrir pabbana. En hvort hann fór eftir því sjálfur
er svo alveg hreint allt annað mál og þegar var minnst á þessa "ein pylsa á mann" reglu þá sagði hann : "sá yðar sem syndlaus er kasti
fyrsta steininum". Þetta sagði hann semsagt á fjórðu pylsu. Þannig að það var fátt um steinagrýtingar þann daginn
þó svo að ég persónuleg, yfir og undirritaður hafi átt löglegan og siðferðislegan rétt á því kasta steini
því eins og allir vita er ég einn af fáum sem kann mér hóf í mat og drykk og hlýði fyrirmælum til hins ýtrasta.
Og svo miklu meira af myndum hér.
Og svo eitt stutt myndband í lokin.
Athugasemdir