Siglfirðinga hestaferð

Siglfirðinga hestaferð Í síðustu viku fór hópur Siglfirðinga ríðandi um Húnavatnssýslu og Skagafjörð. Þetta var hin árlega ferð hestamanna sem gekk

Fréttir

Siglfirðinga hestaferð

Roy Rogers eldist bara nokkuð vel.......
Roy Rogers eldist bara nokkuð vel.......

Í síðustu viku fór hópur Siglfirðinga ríðandi um Húnavatnssýslu og Skagafjörð.

Þetta var hin árlega ferð hestamanna sem gekk lengi undir nafninu Sparisjóðsferðin, en undanfarin ár bara kölluð Siglfirðingaferðin.

Fréttaritari Sigló.is var svo heppin að eiga bróðir sem var með í þessari ferð og ég bað hann að senda myndir og segja mér frá þessum sí-ríðandi sveitungum okkar.

„Jú þetta er hópur Siglfirðinga, sem bæði býr hérna og svo brottfluttir, sem eru búnir að fara þessa ferð í sennilega 15 ár. Sjálfur er ég búinn að fara 7-8 ár.

Þegar maður er í hestum þá er þetta toppurinn á tilverunni, að fara ríðandi um hálendið og bara almennt íslenska náttúru.

Þarna nær maður sambandi við hrossinn og þau sýna sínar bestu hliðar í svona ferðum.

Næstum allur hópurinn á góðri stund (Kolla fékk flugu í augað á þessari mynd)

Maggi Jónasar hefur tekið að sér að undirbúa og boða okkur í þessar ferðir, en svo er það Ingimar Pálsson, sem rekur Topphesta á Sauðárkróki sem sér um skipulag og framkvæmd. Þetta er auðvitað mikið mál að halda utan um svona ferð sem tekur 3-4 daga. Það eru 80-100 hross í stóðinu, svo er að velja leiðir, ákveða stoppin, matur og nesti og svo fylgir okkur rúta alla daganna.

Hvíldarstund í haga. Magnús Jónasson, Stefán Björnsson og dóttir Magnúsar hún Rósa.

Þetta var eðalfólk með okkur núna, að sjálfsögðu. Maggi var þarna og Rósa dóttir hans, Halli Matt og Kolla, Hákon þýski og hestasveinn hans Haukur Orri, Hreinn Júll, sem er einhver mesti hestamaður Siglufjarðar. Nú svo vorum við aðfluttir Siglfirðingar; ég og Sigga Gunn (systir Kollu), Stebbi Rabbýar og Svafa, Jónsi Gutta og Fríða.

Frá vinstri: Ónefndur alvöru Skagfirskur hestamaður, Sigurður Björgvinsson, Karla, Hreinn Júll, Hákon og Svein.

Fyrsta daginn voru með okkur hjón frá Þýskalandi, Karla og Svein, en þau komu siglandi á skútu frá Kiel til þess að upplifa svona hestaferð. Þau eru vinir Hákons og eru að sigla hringinn í kring um Ísland.

Svo eru alltaf með frábærir Skagfirðingar. Ég nefndi Ingimar Páls sem er fyrirliði hópsins, en með honum voru Árni Malla, Bjössi í Nesi, Tobbi, Halli bílstjóri og svo Geiri og Sigga sem sáu um mat og nesti af einstakri snilld.

Hákon að ljúga einhverju að Stebba og Ingimari.

Við hófum ferð á bænum Mosfelli í Svínadal. Þar lá ferðin yfir í Bollastaði í Blöndudal. Þaðan var riðið yfir hina endalausu Eyvindarstðarheiði yfir í Svartárdal. Að lokum var farið þaðan um Kiðaskarð yfir í Skagafjörð, og við enduðum á Starrastöðum í Lýtingsstðarhreppi – þar sem Ingimar er fæddur.

Greinilega alltaf verið að hvíla sig í þessari ferð. Var þetta ekki hestaferð eða hvað ? (Kolla aftur með eitthvað í auganu)

Á hverju kvöldi var svo farið í sund og potta og vil ég koma þökkum til sundlaugavarða um allt land fyrir að sýna okkur þolinmæði þegar við komum skítug og illa lyktandi úr hestaferðunum.

Hluti hópsins ætlar síðan í Löngufjörur í lok mánaðarins, en allir eru staðráðnir í að hittast að ári liðnu á Norðurlandi.“

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson
Myndir: Sigurður Tómas Björgvinsson 
Myndvinnsla: Jón Ólafur Björgvinsson

Tengdar greinar:  Siglfirskir hestamenn í Skagafirði


Athugasemdir

21.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst