Siglfirðingur talar um einelti sitt

Siglfirðingur talar um einelti sitt

Fréttir

Siglfirðingur talar um einelti sitt

Inga Margrét Benediktsdóttir
Inga Margrét Benediktsdóttir

Ég heiti Inga Margrét Benediktsdóttir og ólst upp á Siglufirði. Siglufjörður var mjög einangraður bær og mikið var um einelti þar þegar ég var barn og unglingur og enn eru börn að verða fyrir einelti.

Ég man þegar ég var barn og unglingur þegar fullorðna fólkið sagði við mann: „Hvað er að þér? Þetta er bara saklaus stríðni! Hlæðu bara að þessu þá hættir þetta.” Sár sannleikurinn var þó sá að það hætti ekki, sama hvað ég sló frá mér, hló eða gerði. Á endanum ákvað ég bara að þegja í skólanum til þess að enginn hefði ástæðu til að stríða mér – en það hætti samt ekki heldur voru fundnar aðrar ástæður. Ég tel að fullorðna fólkið hafi einfaldlega ekki vitað hvað einelti var á þessum tíma, enda var umræðan um það og fræðslan nánast engin.

Inga Margrét Benediktsdóttir

Ég átti aldrei neina vini sem voru á sama aldri og ég í grunnskóla og ef kalla má það vini þá voru þær fáu stelpur sem vildu vera með mér yngri en ég og yfirleitt varði sá vinskapur stutt og snérust þær gegn mér til þess að reyna að vera svalar eða passa inn í hópinn. Þarna strax í grunnskóla var ég búin að þróa með mér félagsfælni út af eineltinu og fljótlega þunglyndi og kvíðaraskanir – út af „saklausri stríðni”. Í grunnskóla hugsaði ég um að kannski væri bara best fyrir mig að láta mig hverfa. Ég rispaði mig á höndunum en gat falið það mjög vel. Ég smakkaði fyrsta áfengi í 8. bekk en byrjaði ekki að fara á fyllerí fyr en í 10. bekk. Fyrsta skipti sem ég prufaði að reykja var ég 9 ára en ég var byrjuð að reykja 16. ára.

Einn strákur sem lagði mig í einelti sagði við tengdamömmu mína núverandi að hvernig ég hefði verið lögð í einelti hafi verið ógeðslegt. Þetta er eini aðilinn sem hefur beðið mig afsökunar á því hvernig hann kom fram við mig í grunnskóla og ég met hann mikils fyrir það.

Eineltið stoppaði ekki eftir grunnskóla heldur snérist það í aðra mynd í framhaldsskóla og ég hraktist frá einum vinnustað vegna eineltis eftir að ég lauk framhaldsskóla.

Ég fór á Sauðárkrók í framhaldsskóla. Fyrsta önnin var mjög góð og mér leið mikið betur en á Siglufirði. Ég var öruggari með sjálfa mig og átti vinkonur á sama aldri og ég. Við náðum vel saman og skildum hvora aðra. Seinni önnin var líka góð á fyrsta ári en þarna strax var komið fólk utan vinahópsins sem var farið að kalla mann ýmsum nöfnum og gera lítið úr manni. Á öðru ári þá voru komnir fleiri Siglfirðingar á Sauðárkrók og þá varð allt milljónfallt verra. Ég ætlaði að hætta um áramótin vegna eineltis en hætti við og fór aftur í skólann, ég hefði aldrei átt að gera það. Stelpan sem var með mér í herbergi og önnur stelpa sem hafði verið vinkona mín voru nú orðnar vinkonur og ákveðið plott fór í gang hjá þeim, það að gera líf mitt ömurlegt.

Það var mjög hröð þróun sem fór í gang og hvernig þær fengu allar þessar stelpur á móti mér og hvernig sögurnar spunnust og urðu að einni vitleysu sem ég skildi varla sjálf veit ég ekki, en lítið af þeim voru sannar. Eitt kvöldið fór ég út í sjoppu og þar var yfir 20 manna hópur mættur á staðinn til þess að ráðast á mig, hrækja á mig, sparka í mig og sögðust ætla að lemja mig. Þær rökkuðu mig niður þar til ég varð tilfinningarlaus, var búin að gráta þar til ég fann ekkert, og ég sagði þeim bara að klára og labbaði síðan frosin inn á heimavist þar sem ég brotnaði saman. Það var stelpa sem ég hafði aldrei hitt áður sem kom inn í herbergi til mín. Ég vildi ekki lifa lengur, ég var gjörsamlega komin með nóg.

Ég kláraði samt önnina mína og lét engan vita af því hvað hefði gerst fyrr en ég kom heim og þá fyrst var byrjað að taka á mínum málum, eftir á, þótt ég hefði leitað til námsráðgjafa áður með ýmislegt. Ég fór á Akureyri í skóla og eins og áður var fyrsta önnin fín en svo fór þetta að snúast upp á sig. Það var ein af stelpunum sem hafði verið með mér á Króknum í skóla sem startaði eineltinu aftur á Akureyri. En það varð svolítið öðruvísi en á Króknum. Það fór heldur fram í gegnum netið, sms, utan skólatíma og í afmörkuðum klúbbum. Þar sem ég var ekki mikið fyrir að tjá mig í tímum, þá var það þarna sem ég lokaði mig nokkuð af og mætti oft ekki í skólann í nokkra daga heldur bara svaf.

Eftir framhaldsskólann var ég komin í sambúð og í vinnu á stað innan Akureyrarkaupstaðar sem ég vil ekki vera nefna beint á nafn. Margir starfsmennirnir á þessum vinnustað voru mjög góðir og hjálpsamir og ég gleymi þeim seint. Aftur á móti átti ég erfitt með vímugjafa á þessum tíma og endaði í eitt skipti upp á geðdeild vegna sjálfsvígstilraunar og þær voru fleiri á undan því þótt ég hefði ekki verið að segja neinum frá því, þegar ég notaði vímugjafa þá hvarf ákveðinn sársauki innra með mér en aftur á móti gat ég ekki stoppað svo þegar ég var orðin of full þá datt ég niður í þungar hugsanir tengdar fortíðinni.

Ég átti oft erfitt með að mæta í vinnu vegna þunglyndis og vaktarvinnan fór algjörlega með mig. Það endaði með því að vegna þess hversu illa ég mætti og hversu veik ég var þá var byrjað að setja út á mig í vinnunni út af því. Ég heyrði fólk baktala mig þegar það vissi ekki að ég var nálægt og endaði á því að skrifa bréf til starfsfólksins. Á endanum hætti ég í vinnunni því ég þoldi ekki allt þetta álag og fór í aðra vinnu. Ég var rosalega dugleg í þeirri vinnu og stóð mig vel en ég var bara gjörsamlega búin á því andlega og endaði á atvinnuleysisbótum í nokkur ár.

Ég held að fólk átti sig oft ekki á því hvað það gerir og segir getur haft djúp áhrif á einstakling. Og hvað þá ef að hópur af fólki gagnrýnir og ræðst á einn einstakling.

Ég er fullorðin kona í dag, en þrátt fyrir það að ég sé fullorðin þá situr eineltið sem ég lenti í fast í mér. Ég á mjög erfitt með að treysta og kynnast fólki og á því mjög vel valda og fáa vini. Þótt það sjáist ekki utan á mér – fyrir utan nokkur ör á höndunum – þá er ég sködduð til lífstíðar og þarf að læra að lifa með því og ég er enn þá að læra það þótt ég sé orðin 27 ára. Ég er að stríða við afleiðingar eineltis enn þann dag í dag svo sem ofsakvíða, áfallastreituröskun, félagsfælni og þunglyndi.

Ég hef gengið erfiðan veg fyrir utan eineltið og lent í ýmsu sem margir þurfa aldrei að lenda í á lífstíðinni. Það er ekki fyrr en nýlega sem ég hef áttað mig á því að það hafa ekki allir upplifað það sama og ég og hafa þann skilning á hlutunum sem ég hef dýpri skilning á.

Hvert og eitt líf er einstakt og misjafnt og því er ekki hægt að dæma einstaklinga út frá útliti, hegðun, klæðnaði, þrifnaði, fjölskylduaðstæðum eða annað. Þú hefur ekki gengið sömu braut og þetta fólk og veist ekkert hvað það hefur gert eða þolað í lífi sínu sem hefur haft áhrif á það og mótað það eins og það er í dag.

Ég þekki nokkur dæmi um einelti – nýleg og gömul – og hef gert allt það sem í mínu valdi stendur til  þess að aðstoða þá einstaklinga sem hafa lent í því. Stundum vantar aftur á móti skilningin frá fullorðna fólkinu og þeim sem eru gerendur eineltis. Ég veit til dæmis um dæmi þar sem fullorðin manneskja vísaði beiðni minni um að grípa til eineltis til hliðar og kenndi fjölskylduaðstæðum viðkomandi um það að hún væri lögð í einelti í skólanum. Er það rétt að þótt að það sé erfitt heima hjá einhverjum að viðkomandi þurfi að gjalda fyrir það í skólanum einnig?

Ég hef eina góða reglu að sjónarmiði í samskiptum mínum við fólk. Ekki dæma neinn fyr en þú hefur kynnst honum sjálf/ur. Þær sögur sem þú heyrir um einstaklinga og dómar frá öðru fólki eru ekki endilega sannir og oft einstaklingsbundnir.

Oft er manneskjan sem öllum finnst vera öðruvísi en allir hinir ekkert öðruvísi – prófaðu að tala við hana og gefðu þér tíma þótt hún hafni þér kannski í fyrstu.

Inga Margrét Benediktsdóttir


Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst