Siglufjörður til Þýskalands

Siglufjörður til Þýskalands Spennusagan Snjóblinda eftir Ragnar Jónasson er heldur betur að slá í gegn. Þýska forlagið Fischer Verlag hefur tryggt sér

Fréttir

Siglufjörður til Þýskalands

Spennusagan Snjóblinda eftir Ragnar Jónasson er heldur betur að slá í gegn.

Þýska forlagið Fischer Verlag hefur tryggt sér útgáfuréttinn á Snjóblindu og fer bókin í dreifingu í Þýskalandi.
 
Þetta þýðir að Siglufjörður sem er sögusvið bókarinnar fer senn inn á þúsundir þýskra heimila. Þetta er mikill og stór áfangi fyrir ungan rithöfund og töluverð kynning á Siglufirði í þýskalandi.

Ragnar greinir frá þessu í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu í dag :

„Þetta kom mér skemmtilega á óvart. Ég er í sjöunda himni með þetta,” segir glæpasagnahöfundurinn Ragnar Jónasson.

Þýska forlagið Fischer Verlag, sem hefur á sínum snærum glæpahöfunda á borð við Henning Mankell og Jens Lapidus, hefur tryggt sér útgáfuréttinn á Snjóblindu, annarri bók Ragnars sem er nýkomin út hér á landi. Fjórar af helstu bókaútgáfum Þýskalands bitust um réttinn en á endanum hreppti hið virta Fischer Verlag hnossið. Snjóblinda verður aðaltromp kiljuforlags Fischer næsta haust þegar Ísland verður heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt.

„Ég er ánægðastur með að koma Siglufirði, því sagan gerist þar, inn á heimili þýskra lesenda. Ég vona að Þjóðverjarnir verði eins hrifnir af Siglufirði og ég er. Ég nota eiginlega hvert tækifæri til að fara norður því ég á ættir að rekja þangað,” segir Ragnar. „Það gladdi mig sérstaklega á miðvikudaginn þegar málin fóru að gerast mjög hratt, að það var á afmælisdegi afa míns og nafna, Þ. Ragnars Jónassonar,” útskýrir höfundurinn en afi hans og amma létust fyrir nokkrum árum. „Mig grunar að hann hafi nú eitthvað verið að fylgjast með þessu,” segir hann og hlær. „Amma og afi bjuggu á Siglufirði og ég heimsótti þau nánast á hverju sumri. Þau eiga mikinn þátt í því að ég er að skrifa sögu um Siglufjörð þannig að þetta var allt mjög viðeigandi.”

Ragnar heimsótti Siglufjörð fyrir skömmu og las upp úr nýju bókinni í leikhúsi bæjarins þar sem gamall maður dettur niður stiga og deyr í bókinni. „Ég fór þarna upp á svalirnar í leikhúsinu þar sem stiginn er og las þar fyrir gesti,” segir Ragnar, sem áritaði bókina vel og lengi í framhaldinu. „Mér þykir vænt um það að Siglfirðingar taki henni vel því maður notar bæinn þeirra sem sögusvið.”

Þjóðverjar og Siglfirðingar eru ánægðir með Snjóblindu en bókagagnrýnendur Kiljunnar í Sjónvarpinu voru ekki alveg á sama máli. Aðspurður segist Ragnar reyna að taka mark á þeim ábendingum sem gagnrýnendur setja fram. „Maður tekur því alltaf sem bent er á og reynir að nýta það í næstu bók.”


Athugasemdir

27.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst