Siglunesviti 100 ára

Siglunesviti 100 ára Vitarnir á Siglunesi og Sauðanesi eru öryggis- og varðturnar Siglufjarðar – hvor sínum megin fjarðarmynnisins. Ljós þeirra hafa vísað

Fréttir

Siglunesviti 100 ára

Siglunesviti 1912 - ljósm. Thorvald Krabbe
Siglunesviti 1912 - ljósm. Thorvald Krabbe
Vitarnir á Siglunesi og Sauðanesi eru öryggis- og varðturnar Siglufjarðar – hvor sínum megin fjarðarmynnisins. Ljós þeirra hafa vísað hundruð þúsunda sjófarenda leið í myrkri og dimmviðrum.

 

Innar áttu þeir einnig sína varðstöðu innsiglingarvitarnir á Selvíkurnefi og á Granda. Þessir fjórir vitar eru ljósustu merkin um mikilvægi hinnar fjölförnu síldarhafnar sem Siglufjörður var á 20. öld.
Siglunesviti er þeirra elstur, byggður 1908, Sauðanesviti var byggður 1933-34 og Selvíkurnefsviti 1930, en þar var áður lítill stólpaviti frá 1911. Ekki er ljóst hvenær grindarvitinn á Granda var byggður

“Um fjölda ára hafði verið talið mjög nauðsynlegt að byggja vita á Siglunesi til leiðbeiningar á hættulegri skipaleið þar sem eru ótal blindsker og boðar. Í því sambandi má geta þess að 20. febrúar 1879 héldu útvegsmenn við Eyjafjörð fund á Akureyri til þess að ræða um vitabyggingu á Siglunesi og gufubátsferðir um Eyjafjörð. Nær þrem áratugum síðar var svo loks reistur viti á Siglunesi, efst í Neshólum, norðanvert við Nesnúp, ásamt íbúðarhúsi fyrir vitavörð.”
Þannig skrifar Þ. Ragnar Jónasson í Siglfirskum söguþáttum, 1997. (1)

Undirbúningur að byggingu vita á Siglunesi mun hins vegar hafa byrjað seint á 19. öld og til er útlits- og sniðteikning vitans frá dönsku vitastofnuninni 1899 og merkt er:                                                                         


VI Ordens Lynfyr til Siglenæs
ISLAND NORLIGE KYST
Fyrdirektoratet
Marts 1899

Vitinn var hannaður sem steinsteypt bygging, um 10,8 m há, sem vitastofnunin lagði til að byggður yrði. En af vitabyggingu á Siglunesi varð ekki að sinni.

Árið 1907 kom fram í grein í blaðinu Ísafold að Alþingi hafi samþykkt byggingu “smávita á Siglunesi, er kosti 10.000 kr. og sé kominn upp fyrir árslok 1909.” Til samanburðar kemur fram í sömu grein að þá sé áformað að endurbyggja vitann á Dalatanga fyrir 20.000 kr. enda “fróðra manna mál að hans muni mest þörf allra vita á Íslandi” (2)
Í þessu samhengi má þess geta að allt frá 1903 var mikil og vaxandi skipaumferð um Siglufjörð. Sumarið 1906 er talið að 217 síldarskip hafi legið þar inni samtímis.(4) Staðurinn var þá þegar orðinn miðstöð síldveiðanna og þess eru engin dæmi að slíkur fjöldi skipa væri saman kominn í einni höfn eins og tíðum var þar í landlegum og átti enn eftir að aukast á næstu áratugum.
Sumarið 1908 var Siglunesviti byggður og tekinn í notkun það sama ár (4) Ekki var unnið eftir teikningunum frá 1899 heldur notuð teikning og hönnun á Dalatangarvita að undanskildu sambyggðu íbúðarhúsi. Í þeirri breytingu liggur sennilega munurinn á kostnaðaráætlunum vitabygginganna tveggja sem sagt var frá í Ísafold 1907. (5)
Hönnuður þessara vita var Thorvald Krabbe, danskur verkfræðingur og síðar vitamálastjóri á Íslandi.
Ekki er vitað hver stjórnaði vitabyggingunni en heimild er fyrir því að Siglnesingar komu að verki og að þeir fluttu steypumöl á hestum úr fjöru. Mokað var í poka og þeir síðan reiddir á klakk á vinnuhestunum út á byggingastað. (6)
Vitahúsið, byggt úr steinsteypu, er 6.5 m há og ofan á það var sett ljóshús með snúningslinsum úr gamla vitanum á Reykjanesi.  Ljósið kom frá steinolíulampa og snúningi linsanna stýrði búnaður sem trekktur var upp með lóðum í keðjum eins og klukkuverk.
Að utan var byggingin hvítmáluð með rauðri rönd ofarlega á veggjum. (7)

Þórður Þórðarson kom sunnan af landi til að setja upp linsurnar sem hann þekkti vel eftir að hafa verið vitavörður í Reykjanesvita 1902 - 1903. Sumarið sem Siglunesviti var í byggingu birtist auglýsing í Norðra um lausa stöðu vitavarðar á Siglunesi. (8)

Laus staða sem ráðherrann veitir
Vitavarðarstaðan við hinn fyrirhugaða vita á Siglunesi er laus.
Árslaun 600 kr. Umsóknir séu komnar til stjórnarráðsins fyrir 24.
ágúst nk.”
                                  Stjórnarráðið 20 júlí 1908.

Það er ekki ósennilegt að þetta opinbera starf hafi verið það fyrsta sem venjulegum og ómenntuðum alþýðumönnum buðust hér um slóðir enda urðu margir til að sýna því áhuga. Fjörtíu og tvær umsóknir bárust og var Þórður Þórðarson ráðinn vitavörður (sjá mynd).
Síðar var byggt íbúðarhús fyrir vitavörðinn “fyrir landsfé, og þar að auki bætt þegjandi við launin hans 300 kr., svo hann hefir nú 900 kr. árslaun og ókeypis húsnæði, kol og ljós.”  Svo skrifar Guðmundur Bíldahl í Norðurland 1913. Í grein hans gætir mikillar gagnrýni á tilhögun mála í kringum Siglunesvitann. (9)

Í bókinni Vitar á Íslandi kemur fram að íbúðarhúsið hafi verið byggt 1911 og þar bjó Þórður (f. 1869), fyrsti vitavörðurinn, og gegndi starfi sínu allt til 1923 er hann lést.

Aðrir vitaverðir á Siglunesi voru:
Þórður Bjarnason (f. 1879)  1923 – 1928
Grímur Hálfdanarson Snædal (f. 1878)  1928 – 1942
Jón Þórðarson (f. 1910)  1942 – 1958
Erlendur Magnússon (f. 1930)  1958 – 1968
Einar Ásgrímsson (f. 1904)  1958 – 1968
Stefán Einarsson (f. 1948)  1968 – (10)

Siglunesviti var í upphafi hvítmálaður með rauðri rönd ofarlega á veggjum eins og áður getur. Síðar var hann málaður gulur og enn síðar rauðgulur.
Íbúðarhús vitavarðarins var rifið um 1960.
Margar breytingar hafa verið gerðar á tækjakosti Siglunesvita á 100 árum. Gas varð ljósgjafi og snúningsafl linsunnar 1926. Árið 1961 var vitinn rafvæddur og fékk straum frá ljósavélum fram til 1992. Þá var gamla snúningslinsan tekin niður og í hennar stað sett plastlinsa og ljósið hefur síðan skinið frá sólar-rafbúnaði.
Starfsmenn Siglingastofnunar gerðu hinum gömlu linsum Siglunesvita margt til góða og komu þeim fyrir á sýningargrind og er þessi forláta glæsilegi gripur nú er varðveittur í Síldarminjasafni Íslands. (11)


Örlygur Kristfinnsson 1. desember 2008.

Heimildir:
1. Siglfirskir söguþættir, 1997 bls. Þ. Ragnar Jónasson.
2. Ísafold 12. okt. 1907.
3. Norske Islandsfiskere paa havet, útg 1985. Höf. Kari Sheterlig Hovland. Bls. 79.
4. Öldin okkar, minnisverð tíðindi 1901-1930, bls. 79.
5. Afrit teikningar dönsku vitastofnunarinnar.
6. Hljóðritað samtal við Önnu Björnsdóttur Siglufirði, 17 des. 2008.
7. Vitar á Íslandi, höf. Guðmundur Bernódusson, Guðmundur l. Hafsteinsson, Kristján Sveinsson. Útg. Siglingastofnun Íslands 2002, Siglunesviti bls. 303.
8. Norðri, 21. júlí 1908.
9. Grein Guðmundar Bíldahl í Norðurlandi 7. júní 1913.
10. Vitar á Íslandi. Skrá um vitaverði, bls. 160)
11. Vitar á Íslandi. Siglunesviti bls. 303.


Staðreyndir um Siglunesvita
(úr bókinni Vitar á Íslandi, bls. 303)

Landtökuviti í eigu og umsjón Siglingastofnunar Íslands.
Staðsetning: 66°11,6’ n.br., 18°49,3’ v.lgd.
Ljóseinkenni: Fl W 7,5 s.
Sjónarlengd: 12 sjómílur.
Ljóshæð yfir sjávarmáli: 51 m.
Vitahæð: 9.7 m.
Byggingaár: 1908.
Byggingarefni: Steinsteypa.
Hönnuður: Thorvald Krabbe verkfræðingur.


Athugasemdir

24.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst