Bæjarmerki Aabenraa og Siglufjarðar.

Bæjarmerki Aabenraa og Siglufjarðar. Aabenraa er danskur bær með svolítið þýsku ívafi, svipaður Akureyri að stærð og stendur við samnefndan fjörð

Fréttir

Bæjarmerki Aabenraa og Siglufjarðar.

Bæjarmerki Aabenraa og Siglufjarðar.
Bæjarmerki Aabenraa og Siglufjarðar.

Aabenraa er danskur bær með svolítið þýsku ívafi, svipaður Akureyri að stærð og stendur við samnefndan fjörð sunnarlega á austanverðri strönd Jótlands.

Hann er u.þ.b. 20 kílómetra fyrir norðan Þýsku landamærin og vegna nálægðarinnar við þau eru þýsk áhrif skiljanlega talsvert mikil, en Þjóðverjar nefna bæinn Apenrade.

Suður Jótar nefna hann hins vegar Affenråe, en nafnið þýðir samkvæmt mínum heimildum “opin strönd”. Danir vildu breyta stafsetningunni á nafni bæjarins, innleiða danskan rithátt og nota þá svokallað bollu-a, en það hefði þá verið skrifað Åbenrå.

Mikil andstaða var við það meðal bæjarbúa, því þeir litu á stafsetninguna sem hluta af sögulegri sérstöðu sinni. Í dag er því bærinn skrifaður Aabenraa af íbúunum en stundum Åbenrå af dönum úr öðrum landshlutum og telst nú hvort tveggja málfræðilega rétt.

 


Höfnin og miðbærinn í Aabenraa (mynd af netinu).

Eftir Slésvíkurstríðið hið síðara árið 1864, varð bærinn hluti af Prússlandi og enn síðar hluti af sambandsríkinu Þýskalandi, eða allt til 1920 þegar honum ásamt allri Norður Slésvíkursýslu var skilað aftur til Dana. Fáeinum árum áður kusu íbúarnir um hvort þeir vildu tilheyra Danmörku eða Þýskalandi, og þá vildu 55% tilheyra Þýskalandi. Þegar heimsstyrjöldinni fyrri lauk, vildu hins vegar 70% tilheyra Danmörku.

Upphaflega fór byggð að þéttast í kring um kastala sem var reistur sem biskupssetur. Það mun hafa verið um miðja 13. öld eða á Sturlungaöld sem svo var nefnd hér uppi á Íslandi. Það var á tíma Flugumýrarbrennu, Örlygsstaðabardaga, Guðmundar biskups hins góða, Haukanesbardaga og þegar íslendingar gengu Norgegskonungi á hönd. Á 18. og 19. öld var Aabenraa þriðja mesta útflutningshöfn Dana á eftir Kaupmannahöfn og Flensborg sem þá var dönsk borg. Í bænum hefur lengst af verið talsverð útgerð og eitt af því sem íbúarnir státa sig af eru mjög þekktar skipasmíðastöðvar. Frægasta skip sem var smíðað í Aabenraa er án efa Cimber sem sigldi á 106 dögum frá Liverpool til San Francisco árið 1857 og var því talið vera hraðskreiðasta skipið á höfunum um áraraðir. Þá er rétt að nefna einnig hið virðulega fyrirtæki Marcussen & Søn sem hefur starfrækt þar pípuorgelsmiðju sína óslitið síðan árið 1806.


Siglufjörður (Ljósmynd LRÓ).

Það er ekki laust við að það sé sterkur svipur með skjaldarmerkjum bæjanna Aabenraa í Danmörku og Siglufjarðar á Íslandi, svo og ekkert síður bæjunum sjálfum og sögu þeirra.

Merkið vinstra megin hér efst á síðunni er bæjarmerki Aabenraa, sem stendur við samnefndan fjörð eins og áður segir. Aðal atvinnuvegur bæjarbúa hefur lengst af verið sjósókn og þar er mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi. Bærinn er þekktur fyrir langa góðviðriskafla og segja má að hjarta bæjarins slái í nánd við höfnina. Íbúarnir halda fornri frægð mjög á lofti og eru stoltir af, og á skjaldarmerkinu er mynd af þremur uppsjávarfiskum sem í þeirra tilfelli er makríll. 

Merkið hægra megin kemur líklega flestum sem þetta lesa mjög kunnuglega fyrir sjónir, því það hefur verið skjaldarmerki okkar Siglfirðinga í um áratuga skeið og er teiknað af Sigurði Gunnlaugssyni. Okkar bær stendur einnig við samnefndan fjörð, atvinnuvegur bæjarbúa hefur lengst af verið sjósókn og þar er mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi. Bærinn er þekktur fyrir hreint ótrúlega góðviðriskafla og óhætt er að segja að hjarta bæjarins slái skammt frá höfninni. Íbúarnir halda fornri frægð mjög á lofti og eru stoltir af, og á skjaldarmerkinu er líka mynd af þremur uppsjávarfiskum sem í okkar tilfelli er síld.

Texti: Leó R. Ólason.




Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst