Skarðdalur eða Skarðsdalur

Skarðdalur eða Skarðsdalur Siglo.is hefur borist ábending um að réttara sé að tala um Skarðdal frekar en Skarðsdal. Ekki munu við dæma um hvort sé réttara

Fréttir

Skarðdalur eða Skarðsdalur


Siglo.is hefur borist ábending um að réttara sé að tala um Skarðdal frekar en Skarðsdal. Ekki munu við dæma um hvort sé réttara að segja en það hefur orðið talsverð umræða um málefnið. Kunningi okkar telur að elstu heimildir um Skarðdal séu reyndar í bókinni Siglufjörður en þar er getið heimilda frá árinu 1352. Ákvað hann að fá álit hjá Jónínu Hafsteinsdóttur sem vinnur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á Örnefnasafni – nafnfræðisviði.


Hér má svo sjá álit Jónínu.

Sæll XXXXXXX

Eftir leit í heimildum sýnist mér að mjög rík hefð sé fyrir nafnmyndinni
Skarðdalur. Að vísu er Skarðsdalur í elstu heimild sem ég hef séð, þ.e.
fornbréfum frá 15. öld, og í Jarðabók Árna Magnússonar frá  1712 stendur
reyndar  Skarðsdalur en hins vegar Skarðdalskot. Í manntali frá 1703 er
bærinn nefndur Skarðdalur, einnig í manntali 1801 þar sem hann er
nefndur upp á dönsku eins og aðrir bæir í þeirri skráningu og heitir
"Skardal" og loks í manntali 1816 er Skarðdalur, a.m.k. hefur útgefandi
þess valið þá mynd í prentun manntalsins.

Í lýsingu Hvanneyrarprestakalls, sem rituð er 1845 eða eitthvað síðar,
er Skarðsdalur og Skarðsdalskot, en þess er að gæta að presturinn sem
skrifar lýsinguna er aðfluttur, nýkominn í prestakallið (kemur um 1845).
Það kann að vera að hann "leiðrétti" bæjarnafnið þó heimamenn hafi talað
um Skarðdal, talið réttara að rita Skarðs-, en þetta er auðvitað ekki
hægt að fullyrða. Sama gæti átt við Helga Guðmundsson sem skráir örnefni
á öllum bæjum við Siglufjörð (sjá http://www.snokur.is/), en hann
skrifar Skarðsdalur.

Ég hef skoðað ýmsar bækur og gögn hér í safninu sem eru að því er ég tel
flest eða öll eftir heimamenn, þ.e. innfædda Siglfirðinga, og þar er
myndin Skarðdalur eingöngu notuð. Þetta eru rit eftir sr. Bjarna
Þorsteinsson, Ingólf Kristjánsson og Sigurjón Sigtryggsson, einnig skrif
í Siglfirðingabók 1975 og 1976 og eftir Pétur Björnsson frá Á og
Gunnlaug Sigurðsson. Í Árbók Ferðafélags Íslands 2000 er kafli um
strandbyggðir Mið-Norðurlands eftir Valgarð Egilsson og þar er ævinlega
Skarðdalur. Á Ferðakorti 1 (1:250 000) sem Landmælingar Íslands gáfu út
2003 og aftur 2005-6 er Skarðdalur en í eldri útgáfu hafði staðið
Skarðsdalur, og ég hygg að því hafi verið breytt skv. tillögu
Örnefnastofnunar sem þá las yfir kort LMÍ fyrir útgáfu.

Að lokum vil ég nefna að á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar er
Bæjatal þar sem reynt er að hafa bæjanöfn sem næst því sem réttast getur
talist og þar er nafnið Skarðdalur
(http://arnastofnun.is/page/arnastofnun_gagnasafn_baejatal)
.
Ég held ég komist ekki lengra með þetta. Þú sérð á þessu sem ég hef
talið upp að mjög rík hefð er fyrir myndinni Skarðdalur meðal heimamanna
og víðar og þú getur óhikað haldið þig við það. Mér vitanlega hefur
engin ósk komið frá "þar til bærum aðilum" um að breyta því enda veit ég
ekki hverjir það ættu að vera.

Bestu kveðjur,

Jónína Hafsteinsdóttir
Örnefnasafn - nafnfræðisvið
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum


Athugasemdir

12.mars 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst