Skattar eiga að vera sanngjarnir.
Kveikjan að þessum skrifum mínum var í
upphafi sú að Þorleifur nokkur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi í Reykjavík fór
mikinn á síðasta flokksráðsfundi VG.
Það kunna svo sem að leynast einhver rök fyrir því áliti, en í framhaldinu þróaðist umræðan út á óheillavænlegri brautir, mikið bull og tóma vitleysu í pólitískum trúarsetningastíl. Í grein sem ber fyrirsögnina “Hækki fjármagnsskatt” og birtist í Mbl. þ. 28.08. sl. setur hann fram það álit sitt að hækka beri fjármagnstekjuskatt úr 20 í 30% til að stuðla að meiri jöfnuði í þjóðfélaginu og eina leiðin sé að skattaleggja þá sem eiga meira en aðrir til að standa undir velferðinni. Í meginatriðum áferðarfallegt en því miður innihaldslítið orðaglamur, þar sem góður málsstaður er settur fram á versta mögulega hátt.
Á svari Þorleifs við gagnrýni á tillöguna sést að hann veit greinilega ekki of mikið um jöfnuð. Fjármagstekjuskattur er nefnilega svolítið skrýtið fyrirbæri og jafnvel óheilbrigt á köflum. Hann tekur á hagnaði af skulda og hlutabréfum, vaxtatekjum af peningainneignum, arði, húsaleigutekjum, kaupum og sölu fasteigna og eflaust fleiri liða sem ég læt hjá líða að telja alla upp. En umræddur skattur er í eðli sínu á margan hátt ósamkvæmur sjálfum sér, því tæplega er eðlilegt að skattleggja alla þessa liði með alveg sama eða svipuðum hætti. Skattur á að vera sanngjarn, en er hann það? Einfalda svarið er nei, m.a. fyrir hugmyndafræði manna eins og Þorleifs sem stuðla (stundum óvart) að meiri enn ójöfnuði meðal þegnanna án þess að reikna dæmið nægilega vel til enda. Eða kannski í brambolti sínu við að olnboga sig upp hinn pólitíska metorðastiga sjálfum sér til dýrðar, – hver veit? Tala fyrst og hugsa svo, eða tala fyrst og hugsa alls ekki, sbr. skjóta fyrst og spyrja svo. Líklega hafa engir aðrir þurft að þola 100% skattahækkun en greiðendur fjármagnstekjuskatts, en Þorleifur vill að hækkunin verði 200% frá því sem var. Margir gera sér enga grein fyrir því að fjármagnstekjuskattur er líka lagður á kostnað eins og um hreinan hagnað sé um að ræða. Hann er flatur og tekur ekkert tillit til þess kostnaðar sem leggja þarf út til þess að tekjurnar myndist. Það væri á margan hátt sambærilegt við að einungis velta fyrirtækja væri skattlögð en ekki hagnaður þeirra, og alveg sama þó þau væru rekin með bullandi tapi. Og ég er ekki viss um að Þorleifur yrði par sáttur ef allir frádráttarliðir á skattaframtalinu hans yrðu sniðgengnir og þar með talinn persónuafslátturinn, en það er í grunninn akkúrat þannig sem fjármagnstekjuskatturinn er lagður á. En það er því miður allt of oft sem umræðan virðist fara fram í sjálfri spaugstofu stjórnmálanna, að mestu leyti handan fjarskans og leidd áfram í blindni af sjálfskipuðum handhöfum sannleikans.
Mig langar að nefna nokkur dæmi um fórnarlömb fjámagnstekjuskattsins sem vildu eflaust margir hverjir komast út úr því kerfi og inn í samfélag “heiðarlegra” ef sú leið væri fær. En mér virðist stundum sem hefðbundin orðræða í pólitík innan sumra flokka geri ráð fyrir að greiðendur þess skatts séu upp til hópa braskarar og spegúlantar af síðustu sort.
Tökum dæmi um fasteignaviðskipti venjulegs fólks sem ég fullyrði að eigi enga samleið með núverandi skattakerfi.
X sem keypti íbúð á 27 milljónir skömmu fyrir hrun á 100% láni, tekst með ótrúlegri heppni að selja hana aftur á 29 milljónir þegar allt var komið í óefni. Á tímabilinu sem var nokkuð innan við 2 ár, hafa lánin hækkað um 6 milljónir og seljandinn skuldar því alls 33 milljónir. Hann þarf því að borga 4 milljónir með eigninni og sleppur á þann hátt frá málinu, en þó aðeins ef hann hefur til þess fjárhagslega burði eða bakhjarl. En það er ekki allt, því nú kemur skatturinn, vill halda því fram að X hafi grætt mismuninn þ.e. 2 milljónir og 20% af því eru 400 þúsundkall. Stofnunin eykur því á eymd hins ólánssama “fjárfestis” sem er mjög sennilega fyrir löngu farinn í þrot og sumir virðast vilja auka hana enn meira.
Áður fyrr tók skatturinn tillit til verðbólguþróunar í landinu, en svo hætti hann því árið 2001 á þeirri forsendu að hún væri orðin það lítil að þess þyrfti ekki lengur. Í dag er notast við svokallaðan verðbreytingarstuðull sem er 1, þegar söluhagnaður fasteigna er metinn. Það þýðir í reynd að þegar kemur að því að selja fasteignina, er ekkert tillit tekið til þess að það er aftur og enn bullandi verðbólga í landinu og allt hefur hækkað, þar á meðal húsnæði. En fasteignalánin eru aftur á móti vísitölutryggð í bak og fyrir eins og við vitum svo vel.
Annað dæmi: Y keypti íbúð skömmu eftir aldamótin síðustu og greiddi fyrir hana 15 milljónir sem þá svaraði til árslauna viðkomandi í 10 ár. Íbúðin hækkaði verulega í fasteignabólunni en hrapaði svo aftur í hruninu. Í dag er eignin seld á 22 milljónir sem svarar nú til árslauna Y í 7 ár. Y hefur því í raun tapað þriggja ára launum. Og það er ekki allt, því í kjölfarið kemur Skattmann og vill fá sitt, eða 20% fjármagnstekjuskatt af “hagnaði” upp á 7 milljónir sem gerir 1,4 m. Samkvæmt skattalögum þarf einstaklingur ekki að greiða fjármagnstekjuskatt ef hann hefur átt fasteigninga í meira en 2 ár og er skráður fyrir minna en 600 rúmmetrum af húsnæði. En stundum falla menn undir undantekningarnar í smáa letrinu sem gerðist í þessu tilfelli og þá er fjandinn laus.
Þriðja dæmi sem ég þekki persónulega: Z keypti litla íbúð sem þurfti mikilla endurbóta við á kr. 11 m. og tók bankalán upp á 9 m. til að fjármagna kaupin að hluta og standa straum af efniskostnaði. Þetta var snemma árs 2008, og meðan á endurbótunum stóð stórlækkaði fasteignaverð en lánið stökkbreyttist í hina áttina. Þó seldist íbúðin árið 2010 á 15 m., en þá hafði lánið hækkað um 2.5 m. og samantekt leiddi í ljós að efniskostnaðurinn var u.þ.b. aðrar 2.5 m. Z þurfti því að greiða 1 m. með sér auk þess að vera launalaus við vinnu sína. En hremmingar Z voru ekki á enda, því viðkomandi var skráður eigandi af meira en 600 rúmmetrum af húsnæði þó svo að bankarnir ættu það í raun. Þá gildir tveggja ára reglan ekki og árið eftir vill skatturinn fá 20 prósentin sín af “söluhagnaðinum”, eða kr. 800 þús.
Og eitt dæmi til viðbótar úr hinum blákalda raunveruleika. Þ keypti sér íbúð snemma árs 2008 úti á landi sem kostaði 15 m., en á henni hvíldu 14 m. sem Þ yfirtók. Aðstæður breyttust óvænt síðla árs 2009, Þ flytur búferlum og selur íbúðina. Þ var þó að mörgu leyti heppinn, því fasteignaverð á þessum stað hafði hækkað í hruninu og íbúðin seldist á 20 m. En lánið hafði líka hækkað og stóð í 19 m. þegar salan átti sér stað. Þ fékk því milljónina sína til baka eða þannig virtist það vera í fyrstu. Þá var aðeins eftir að taka fjármagnstekjuskattinn með í reikninginn sem breytti dæminu talsvert. Hjá skattinum eins og áður segir, aðeins litið til mismunar á kaup og sölu eignarinnar sem er jú 5 m., en ekkert tillit er tekið til hækkunar íbúðalánsins. Hagnaður samkvæmt skattalögunum var því reiknaður í þessu tilfelli 5 m. og fjármagnstekjuskatturinn af honum 1 m. þar sem Þ hafði átt eignina í minna en 2 ár. Þ tapaði þar með öllu sparifé sínu sem var þó ekki allt of mikið fyrir.
Ein birtingarmynd fjármagnstekjuskattsins er svo sú að hann skattleggur neikvæða vexti á sparifé sem verðbólgan er auk þess hægt og bítandi að brenna á báli tímans. Þar eru því hlutirnir verðlagðir úr samhengi við raunveruleikann eins og svo víða í skattakerfinu, og má segja að leggist þá á eitt, ill öfl, slæmar venjur og vondir siðir. Oftar en ekki eru fórnarlömbin auk þess aldraðir lífeyrisþegar sem eru búnir að skila sínu til samfélagsins og eiga alls ekki slíka meðferð skilda eftir allt sitt streð í táradalnum.
Auðlegðarskatturinn er líka ein af nýjustu uppfinningunum sem áttu að jafna lífskjörin í landinu. Nýlega var nefnt til sögunnar í fréttatíma Sjónvarpsins dæmi um ekkju sem þurfti að selja húsið sitt til að gjalda Skattmann sitt. Og svona mætti halda lengi, lengi áfram, því alltaf dúkkar upp ný lægð í lágkúrunni.
Sumir sjá matarholu á undarlegustu stöðum og telja sig hafa ráð undir rifi hverju þegar þarf að fjármagna velferðina á erfiðum tímum. Allir eiga auðvitað að greiða sanngjarna skatta og allra helst og mest þegar á móti blæs, en beiting ranginda og ósanngirni getur aldrei leitt til góðs. Stundum er eins og stjórnvöld fari af stað með ágæta hugmynd sem virðist sanngjörn við fyrstu sýn. Hún fái þó aldrei að ná nauðsynlegum þroska, þróast og aðhæfast samfélaginu. Það er engu líkara en henni sé varpað blóðhrárri út í mórauðan flauminn, berist síðan með honum og valdi slæmri sýkingu hvar sem hana ber að landi.
Grófur samanburður gæti verið Kaninn að skjóta eldflaugum á Talibana en hefur (auðvitað alveg óvart) drepið 100 óbreytta þorpsbúa í leiðinni sem hann flokkar sem fórnarkostnað.
En ef við viljum halda okkur á mýkri nótunum, þá kemur mér í hug sagan af kúabóndanum sem minnkaði fóðurgjöfina verulega í sparnaðarskyni, en kýrnar hættu auðvitað umsvifalaust að mjólka.
Texti og mynd: Leó R. Ólason
Athugasemdir