Skíðaíþróttin á rangri leið?

Skíðaíþróttin á rangri leið? Ég hætti að æfa skíði á sínum tíma vegna hnémeiðsla. Ég varð ekki fyrir slysi eða neinu svoleiðis, en endalaus pressa á

Fréttir

Skíðaíþróttin á rangri leið?

Kristín M. Jóhannsdóttir
Kristín M. Jóhannsdóttir
Ég hætti að æfa skíði á sínum tíma vegna hnémeiðsla. Ég varð ekki fyrir slysi eða neinu svoleiðis, en endalaus pressa á hnén olli skemmdum og ég var farin að finna mikið til á hverri æfingu. Ég var átján ára.

Þessa dagana hef ég lesið mikið um áhyggjur manna yfir nýjum búnaði skíðamanna því hnémeiðsli eru orðin algengari og alvarlegri. Á aðeins einni viku hafa fjórir meðlimir alpagreinaliðs Kanada orðið fyrir alvarlegum hnémeiðslum sem verða til þess að ekkert þeirra mun geta keppt á Ólympíuleikunum eftir tvo mánuði. Þar er með talin Kelly VanDerBeek, sem var talin líklegust Kanadamanna til að vinna til verðlauna í alpagreinum. Í engum þessara tilvika var um alvarlegt fall að ræða, heldur fremur saklausar byltur. Talið er að eitthvað í skíðabúnaðinum sé valdur þess að meiðsli eru orðin svo mikið alvarlegri. Það er auðvitað mjög slæmt ef satt er.

Annars finnst mér skíðaíþróttin hafa farið í ranga átt, sérlega á Íslandi. Þegar ég var heima um daginn rakst ég á fyrrverandi keppinaut minn í skíðaíþróttinni. Dóttir hennar og systurdóttir mín spila saman fótbolta. Hún sagði mér að hún væri guðslifandi fegin að dætur hennar vildu ekki æfa skíði því það væri ómögulegt fyrir venjulegt fólk að greiða fyrir íþróttina, eins og kröfurnar væru orðnar.

Þegar við vörum að keppa á sínum tíma þá átti maður eitt par af skíðum í gegnum alla barnaflokkana. Þegar maður kom upp í unglingaflokk þurfti maður helst að eiga tvö pör, eitt fyrir svig og eitt fyrir stórsvig. Við fórum aldrei til útlanda í æfinga- eða keppnisferðir, ekki einu sinni þegar maður var í unglingalandsliðinu. Á þeim tíma sem ég var í unglingalandsliðinu þá æfðum við einu sinni í Kerlingafjöllum yfir sumar þar sem við vorum á skíðum. Við fórum á tvær hlaupaæfingar, önnur var í Reykjavík og hin á Ísafirði, og við æfðum eina helgi um vetur á Akureyri. Það var allt of sumt á tveim árum.

Núna eru krakkar farnir að fara í æfingaferðir í barnaflokki, svo ég tali nú ekki um unglinga. Þannig var þetta reyndar orðið fyrir nokkrum árum. Veit ekki hvernig það er núna í hallærinu. Þar að auki þurfa krakkar víst að eiga tvö pör til keppni (svig g stórsvig) og svo önnur tvö fyrir æfingar. Þar að auki þurfa þau að eiga bæði sviggalla og stórsvigsgalla. Já, það er ekki ódýrt fyrir foreldra að eiga börn á skíðum.

Annars var ýmislegt á rangri leið líka þegar ég var að æfa, svona undir lokin alla vega. Síðasta árið vorum við með júgóslavneskan þjálfara og hann kom með hugsunarháttinn að heiman upp í brekkurnar, þar sem við áttum öll líf okkar undir því að ná árangri. Hann var því farin að fjölga æfingum og setti meðal annars á aukaæfingar á daginn þegar við áttum öll að vera í skólanum. Það var því þannig að þeir sem skrópuðu í skólann áttu orðið kost á tveim æfingum á dag, á meðan þau sem voru samviskusamari og fóru í skólann komu aðeins á kvöldæfingar. Ég hafði alltaf æft af því að mér fannst gaman á skíðum, en þetta var ekki orðið skemmtilegt lengur og þegar þetta bættist við hnéverkinu þá var ekki of erfitt að hætta. En enn þann dag í dag fæ ég fiðring við það eitt að sjá vel lagða braut. Mig langar enn að skella mér niður.


Athugasemdir

09.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst