Smásaga úr fortíðinni.
Það gæti hafa verið snemma árs 1967, en kannski árið áður eða það næsta á eftir, að nokkrir brekkuguttar upplifðu svolítið ævintýri sem hófst inni á Leirunum en endaði úti á firði. Þetta var nokkru eftir áramótin, en samt var dágóður tími í að vorið næmi land í litlum firði á miðjum Tröllaskaganum.
Það hafði verið óvenju kalt í veðri, og meira að segja svo kalt að gjörvallar Leirurnar hafði lagt. Svo hlýnaði í veðri og lagísinn brotnaði upp í stóra fleka. Það fjaraði undan honum, ísinn lagðist á sandbotninn þar sem grynnst var og brotnaði svo í smærri fleka. Þeir fylgdu síðan sjáfarföllunum, flutu ýnist inn eða út og voru í augum okkar guttanna, spennandi farkostir sem að okkar mati mætti vel nýta til að kanna innfjörðinn. Það gerðum við líka alveg svikalaust, en reyndar í mikilli óþökk foreldra og forráðamanna okkar sem hefðu eflaust kosið að vita af okkur á öruggari stað. Það má alveg orða það svo að skilningur minn á afstöðu þeirra sé mun meiri og betri í dag, en á þessum tíma var hann nákvæmlega enginn. Þarna var einfaldlega gaman að vera og hreinlega allt að gerast sem skipti einhverju máli.
Tæknin við að komast frá stað A til staðar B var einföld. Við komum okkur út á lagísjakana ýmist frá fjöruborðinu, eða við notumst við kajaka sem helst voru gerðir úr ellefu báru blikkplötum. Það voru að vísu líka til plötur sem voru aðeins níu bárur, en farkostir gerðir úr þeim voru mjög valtir og kröfðust þess af sjórnandanum að hann hefði ofur gott jafnvægisskyn. Þegar út á flatísinn var komið og hann laus frá landi, var notast við stjaka sem oftast voru ekki annað en “eintommasex” uppsláttartimbur, eða “eintommafjórir” sem reyndust okkur mun betur. Þá var öðrum endanum stungið ofan í botninn við brún jakans, síðan lagst á hinn endann og vogstangaraflið notað til að sigla honum um Leirurnar.
Að öllum líkindum er þetta Raggi Ragg sem er lengst til vinstri á myndinni, en Gústi Dan stendur við jakabrúnina fyrir miðju. Myndin er tekin u.þ.b. þar sem nú er suðurhlið Rarikhússins.
En í það skipti sem hér er til umfjöllunar, breyttist ævintýrið í eitthvað allt annað en til stóð við upphaf ferðar, og áætlanir okkar drengjanna fóru fullkomlega úr böndunum. Við stóðum líklega fjórir eða fimm saman á myndarlegum jaka og ýttum okkur frá landi með þeirri aðferð sem áður er lýst. Fyrir utan mig voru þarna Sigurjón Gull, Úlfar bróðir hans og Steini Elíasar og hugsanlega einhver yngri bræðra Steina. Þegar ferðin hófst í króknum innan við öskuhaugana var háflóð og mikil lygna. Okkur gekk vel að stjaka okkur frá landi og kannski þó fullvel, því nú tók að fjara og það nokkuð hratt. Við vorum allt í einu komnir austur fyrir steinprammana, dýpið varð meira og spýturnar sem við notuðum til að kraka í sandbotninn náðu varla lengur niður. Við flutum því á þessari fleytu okkar út með hinni manngerðu eyri sem á þessum tíma þá var mun minni en nú er, og nálguðumst fljótlega endann á stálþilinu. Við vorum komnir utar og á mun meira dýpi en við höfðum áður farið. Okkur var eiginlega ekkert farið að lítast á blikuna og reyndum að spyrna í botninn með spýtunum, en án nokkurs árangurs.
Sá sem þetta skrifar þekkir sjálfan sig á miðri myndinni þar sem hann situr á tunnu og er að kanna dýpið, en þykist einnig þekkja Valda Nonna Sæm og bróðir Gústa snúa baki í myndatökumanninn.
Ég horfði um stund til lands yfir krapann og ískaldan sjóinn áður en ég tók þá ákvörðun að freista þess að synda til lands. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti hugsanlega fengið krampa eða eitthvað í þá áttina þó ekki virtist langt upp í fjöruborðið. Yfirborð sjávarins var ekki lengur rjómaslétt, það var aðeins farið að kula og litlar öldur teknar að narta í brúnir jakans. Hann var orðinn nokkru minni en í upphafi ferðar og ég sá fram á að það hlyti að stefna í mikið óefni. Ég lýsti því þá yfir hvað ég hygðist gera og settist á ísbrúnina. Ég fann kuldann hríslast upp eftir líkamanum um leið og stígvélin fylltust af sjó, en ákvörðunin hafði verið tekin. Ég renndi mér fram af brún jakans og tók sundtökin. Sjórinn var auðvitað ískaldur og ég fann kuldann læsast um mig. En það var bara rétt fyrst, því eftir nokkur sundtök virtist þetta alls ekki svo slæmt. Ekki fyrr en ég hafði kraflað mig í gegn um krapann og hrönglið sem flaut á yfirborðinu, var kominn upp í fjöruna og stóð þar í norðannepjunni.
Ég leit um öxl og sá félaga mína standa úti á ísnum sem flaut nú fyrir endann á stálþilinu og mér sýndist hafa brotnað enn meira utan af honum þá skömmu stund sem liðin var frá því ég yfirgaf þá. Þeir voru greinilega farnir að ókyrrast, ég hugsaði með mér að nú yrði ég að vera fljótur að sækja einhverja aðstoð og flýtti mér af stað án þess þó að vita alveg hvar heppilegast væri að leita hennar. Ég var þó ekki kominn nema í miðjan sneyðinginn sem lá upp af haugasvæðinu og upp á Hafnargötuna, þegar ég sá litla trillu leggja frá bryggju einhvers staðar sunnan við Skaftaplanið. Mér létti talsvert þegar ég sá að hún stefndi rakleiðis að jakanum sem mér fannst nú vera orðinn frekar lítill. Strákarnir stóðu í þéttum hnapp á honum miðjum, veifuðu eins og óðir í áttina að trillunni og hrópuðu hástöfum á hjálp. Ég gat vel skilið að þeim litist ekki á blikuna þarna úti á þessum ótrausta farkosti, en þeir voru nú staddir u.þ.b. miðja vegu milli enda stálþilsins og Hafnarbryggjunnar. Ég sá hvar bátur kom siglandi fyrir Hafnarbryggjuna og stefndi inn að Bátastöð. Bylgjurnar sem kjölfar hans myndaði, breiddu úr sér svo úr varð stórt V sem fór sífellt stækkandi. Ég sá fyrir mér endalok lagísflekans og velti fyrir mér hvort strákarnir yrðu komnir af honum í tíma. Þegar trillan nálgaðist sá ég ekki betur en það væri Sigurjón sem tók undir sig heljarmikið risastökk. Úlfar segir að það hafi verið Steini. En hvor þeirra sem það var, þá sveif hann í loftinu og rétt náði að tylla öðrum fæti í borðstokkinn, en ferðin var slík að hann hélt áfram og lenti sitjandi á botni fleytunnar. Trillan hafði nú lagst upp að ísbrúninni og ég sá að þeir sem eftir voru fetuðu sig varfærnislega um borð. Ekki hefði þó björgunaraðgerðin mátt taka mikið lengri tíma, því þegar síðasti maður steig um borð lyftist flekinn öðru megin og brotnaði við það í tvennt. Rétt á eftir náði bylgjan frá kjölfari bátsins að ísnum, sem breyttist við það í sumdurlaust hrafl sem flaut áfram út fjörðinn með útfallinuMig (Leó) ber þarna í Rauðkutankana en aðra þekki ég ekki, því fjarlægðin gerir fjöllin “blá” og mennina í móðu. Þó bendir flest til þess að einhver úrkoma sé á leiðinni inn fjörðinn.
Ég hafði rölt eftir Hafnargötunni og fylgst með atburðarrásinni í leiðinni. Ég var kominn að endanum á Lindargötunni og beygði upp Brekkustíginn rétt í þann mund sem báturinn lagði af stað til lands frá jakanum. Og þar sem athygli mín var ekki lengur einskorðuð við hina ungu sjófarendur, tók ég loksins eftir því að talsvert af fólki stóð á bökkunum fyrir ofan Þóroddar og KEA plönin og fylgdist með ævintýrinu úti á pollinum. En ég tók líka eftir því að nú var mér orðið svo kalt að ég átti öllu erfiðara með gang. Ég staulaðist upp brekkuna, síðasta spölinn heim þar sem ég vissi að mín beið heitt bað og þurr föt. Þetta hafði verið okkur heilmikil kennslustund í hagnýtum fræðum og við lært nytsamlega lexíu. Nú vissum við að ekki var skynsamlegt að fara nema stutt frá landi á lagís, en það var auðvitað allt annað mál ef maður var á kajak.
Texti: Leó R. Ólason
Ljósmyndirnar eru teknar inni á Leirunum um svipað leyti og ævintýrið átti sér stað, af ýmsum Brekkuguttum á Kodak instamatic vélina mína. Á myndunum má vel sjá að við erum að stjaka okkur áfram á ísflekunum með þeirri aðferð og lýst er í pistlinum hér að ofan.
Athugasemdir