Sólstöðuganga yfir Dalaskarð

Sólstöðuganga yfir Dalaskarð Síðast liðinn laugardag var gengin Sólstöðuganga yfir Dalaskarð á vegum Ferðafélags Siglufjarðar. 

Fréttir

Sólstöðuganga yfir Dalaskarð

Komið upp á brúnina og horft yfir Siglufjörð
Komið upp á brúnina og horft yfir Siglufjörð
Síðast liðinn laugardag var gengin Sólstöðuganga yfir Dalaskarð á vegum Ferðafélags Siglufjarðar. 
Farið var upp úr landi Dalabæjar, gengið inn Mánárdalinn og komið upp á fjallsbrúnina skammt norðan við Snók og ofan við Skjaldarbringur.

Þegar þangað var komið skipti hópurinn sér, sumir gengu niður Stóra-Bola en aðrir fóru vestan við Hafnarhyrnu, fyrir botn Hvanneyrarskálar og þar niður.
En þá vildi svo vel til að stærðarinnar snjóskafl náði allt frá efstu brún og niður á botn skálarinnar.

Tóku þá ýmsir til þess ráðs að setjast niður og renna sér á rassinum upp á gamla mátann alla leið niður sem var hreint enginn smáspölur. Vísast hefur þetta tiltæki verið bæði mikil upplifun og ekki síður skemmtileg upprifjun þeirra sem þetta reyndu frá gamalli snjóatíð og vakti auk þess ekki svo litla kátínu annarra viðstaddra.

Þetta var góður og skemmtilegur hópur sem þarna var á ferðinni þótt fleiri hefðu alveg mátt slást með í för. Veðrið var hið besta og það gerði ekkert til þótt svolítill rigningarúði og léttur goluþeytingur sæi “genginu” fyrir hæfilegri kælingu stutta stund.

Þetta er hópurinn sem gekk yfir Dalaskarð, en á myndina vantar Stellu Matt og Gunnar Trausta. Það vakti athygli mína að hér eru allir ýmist Siglfirðingar eða nátengdir Siglufirði, en þó ekki nema þrír göngumenn búsettir á staðnum.

Mig langar til að þakka þeim Gesti Hansa og Maresku alveg sérlega fyrir þeirra framlag í þágu félagsins sem heimamenn mættu að ósekju alveg sýna meiri áhuga og ræktarskap.
LRÓ
(sending frá Leó R.Ó)


Athugasemdir

28.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst