Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Magnús Guðbrandsson

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Magnús Guðbrandsson Magnús Guðbrandsson er fæddur á Siglufirði árið 1948 og er hann fjórði í röð sjö

Fréttir

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Magnús Guðbrandsson

Magnús Guðbrandsson. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson
Magnús Guðbrandsson. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson

Magnús Guðbrandsson er fæddur á Siglufirði árið 1948 og er hann fjórði í röð sjö systkina,
sonur strandamannsins Guðbrandar Magnússonar kennara og Önnu Magnúsdóttur sem á ættir sínar að rekja að Upsum í Svarfaðardal en er fædd í Vestmannaeyjum.

 

Þegar hugsað er aftur í tímann man ég ekki til þess að hafa heyrt mikið á hann minnst fyrr en hann er kominn undir fermingu og farinn að spila, en það hefur hann gert síðan með sáralitlum hléum í tæpa hálfa öld. Við félagarnir knúðum dyra hjá Magnúsi í Garðabænum, þáðum kaffi og nýbakað (að vísu úr næsta bakaríi) og tókum til við spjallið.

Fyrstu tónlistarskref Magnúsar voru stigin í Lúðrasveit Siglufjarðar eins og hjá svo mörgum ungum verðandi músíkantinum á þessum tíma og Magnús byrjaði á að tala um Skálmhornasveitina.

 

 

 

 

 

Jósep Blöndal að spila á pianóið uppi á sal í Gagganum

 

Það má segja að það hafi verið starfandi þrjár sjálfstæðar lúðrasveitir undir merkjum Lúðrasveitar Siglufjarðar. Skálmhornasveitin var t.d. sérstök sveit og ólík öllum öðrum lúðrasveitum sem ég veit um. Kristján Sigtryggs stjórnaði henni og þar var eingöngu leikið á hljóðfæri sem flutt höfðu verið inn frá Austur-Þýskalandi eða Rússlandi. Þessi hljóðfæri voru trompetættar ef þannig mætti að orði komast, flest með þrjá takka að ofan og það var blásið í þau á sama hátt og trompet. En þau voru líka afar sérstök að ýmsu öðru leyti. Tónsvið þeirra spannaði aðeins eina áttund og öll lög þurftu að vera í F-dúr. Þeir annmarkar takmörkuðu því lagavalið verulega mikið. Þau voru líka miklu háværari en flest önnur blásturshljóðfæri og áttu því litla samleið með þeim sem hefðbundnari töldust, en e.t.v. heppilegri til notkunar utandyra af sömu ástæðu. Mig minnir líka að eitt þessara hljóðfæra hafi verið kallað Alt-horn, það var bara með einn takka og úr því var einungis hægt að fá tvo hljóma.

Einn af hinum árvissu viðburðum Skálmhornasveitarinnar ár hvert voru tónleikar á Sumardaginn fyrsta. Þá var setið uppi á vörubílspalli og spilað lagið “Nú er vetur úr bæ,” en sú laglína rúmast einmitt innan “einnaráttundarmarkanna.” Það var ekið um bæinn, staldrað við á nokkrum stöðum og boðskapnum um betri tíð og bjartari daga þannig blásið í brjóst bæjarbúa.


Hljómsveitin Gipson 1963 – Tommi, Baldi, Maggi og Elías

Það var svo farið að spila um leið og sest var á skólabekk í Gagganum. Ég var þá ekki nema tólf ára því ég er ekki fæddur fyrr en í desember. Í fyrstu hljómsveitinni voru ásamt mér þeir Baldi Júll, Tommi Hertervig og Jósep Blöndal. Þarna í upphafinu var hljóðfærakosturinn ekki upp á marga fiska. Hann samanstóð af einni sneriltrommu sem var lögð ofan á eldhúskoll úr tré þannig að gormarnir snéru upp. Á neðri hluta af nótnastatífi var svo komið fyrir lausum botni úr kökuformi sem átti að virka eins og diskur, en hann þoldi illa meðferðina og entist því ekki sérlega vel. Ég spilaði á Regall kassagítar sem mun vera smíðaður árið 1926 og er enn í fullu fjöri. Það var æft þrisvar í viku, á þriðjudags og fimmtudagskvöldum en einnig milli kl. 10 og 12 á laugardagsmorgnum. Í þá daga var alltaf kennt fyrir hádegi á laugardögum og það brást yfirleitt ekki að allir krakkarnir komu upp á sal til okkar í síðustu frímínútunum og þar var haldið svolítið ball. Þær frímínútur áttu það líka til að verða svolítið vel í lengri kantinum. Við spiluðum síðan á öllum skólaböllunum nema árshátíðinni, en þá voru Gautarnir fengnir svona til hátíðabrigða.

Spilað í Sjallanum, sennilega á jólaballi. Magnús, Baldi og Tommi. Á myndina er líklegt að sjáist ekki í Elías á pianó og Dadda Júll á Trommur

Það hefur svo líklega verið næsta vetur sem rafvæðing hljóðfæranna hófst. Ég keypti plötugítar af Steingrími Lilliendal sem hafði áður keypt hann af Ragnari Páli. Þessi gítar hafði verið smíðaður inni á Akureyri í hljóðfærasmiðjunni Streng, en gekk alltaf undir nafninu Saltfiskurinn og ég man að ég borgaði heilar 300 krónur fyrir gripinn. Ég keypti síðan Framus pickup á hann í hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttir og Ragnar Páll hjálpaði mér að setja það á. Þarna átti ég orðið rafmagnsgítar en engan magnara sem gekk auðvitað ekki. Þá var útvarpið á kennarastofunni fengið að láni og spilað í gegn um það. Jóhann skólastjóri var svolítið smeykur um útvarpið í höndunum á okkar og leit einu sinni við á æfingu. Hann spurði hvort það væri nú alveg öruggt að ekki væri hægt að spila á gítarinn útvarpslaust. Við töldum svo ekki vera, en Jósep stóð upp og sagðist vera farinn áður en skólastjórinn tæki pianóið líka og hann þyrfti kannski að reyna að spila á pottofninn undir glugganum.

Daddi er þarna kominn með alvörutrommusett, Tommi 6 strengja bassann, Siggi Bald þriggja pikkupa gítar og Magnús tveggja. Sennilega hefur Jósep Blöndal verið á pianóinu þó ekki sjáist í hann

Fyrsta söngkerfið var svo risastórt Grundig eða Telefunken segulbandstæki sem skólinn átti en það var tengt stórum hátalara. Því fylgdi líka mikrófónn og hægt var að kveikja á öllu saman án þess að stillt væri á upptöku. En hljóðið í þessu tæki var hins vegar alveg skelfilega vont og líkast því sem stundum hefur verið kallað veðurstofusánd. Tommi var fljótlega kominn með sex strengja gítarbassa og við hinir með Höfner gítara alveg eins og Bítlarnir. Við eignuðumst svakalega flotta Vox magnara, en hljóðkerfið var samtíningur úr ýmsum áttum. Við fundum m.a. lampamagnara og eitthvað fleira í Alþýðuhúsinu eða Stúkuhúsinu sem einhverjir eldri og reyndari voru búnir að leggja og fórum með þetta dót til Kristins í Bíó. Honum tókst að fá hljóð úr þessu, við tengdum það við hátalara sem við tókum úr gömlum útvörpum, komum fyrir í pappakassa og þetta var síðan notað í einhvern tíma.

Síðasta útgáfa hljómsveitarinnar Hrím 1970
Rúnar Egils á trommur Sverrir Elefsen á bassa, Árni Jörgensen á gítar og Magnús á orgel

Í byrjun spilaði Baldi Júll yfirleitt á trommur, en stundum stóð hann upp frá þeim og söng. Okkar skoðun var nefnilega sú á þessum tíma að það væri ekki endilega neitt atriði að vera alltaf að spila á trommur í öllum lögum. En þetta breyttist þegar við fórum að spila á skátafundum. Þannig var að Jón Dýrfjörð og Magga systir hans voru mjög drífandi í skátahreyfingunni og það voru haldnir fundir eða skemmtikvöld á mánudagskvöldum í Alþýðuhúsinu sem var svo alltaf slúttað með kakói og kringlum. Við tókum að okkur að spila þarna nokkrum sinnum, en þar sem þetta voru skátasamkomur þótti rétt að gera okkur að meðlimum og Stebbi Jóhanns var settur yfir okkur sem flokksforingi. Deildin fékk nafnið Þrestir og við fengum sérstakan fána með mynd af skógarþresti. Í beinu framhaldi gerðum við Stebba að trommuleikara, en hann hafði áður spilað á klarinett með lúðrasveitinni. Hann tók þetta nýja hlutverk mjög alvarlega og keypti sér flott trommusett hjá Gesti Fanndal, en einnig allar þær Shadowsplötur sem hann náði í. Hann lagðist síðan yfir þær og stúderaði hvert trommuslag og hvert breik hjá Brian Bennett trommara sem hafði þá nýlega verið kosinn besti trommari í heimi í Melody Maker eða einhverju slíku poppriti. Stebbi varð síðan á undrastuttum tíma afburða trommari, en fór snemma suður og var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Dáta.

Síðasta útgáfa hljómsveitarinnar Hrím 1970
Rúnar Egils á trommur Sverrir Elefsen á bassa, Árni Jörgensen á gítar og Magnús á orgel

Talsverðar mannabreytingar urðu á Gaggaárunum eins og gengur, menn stöldruðu mislengi við, komu, fóru og komu svo kannski aftur. Þar má nefna Balda Júll, Sigga Bald, Gaua Gústa, Dadda Júll, Jósep Blöndal, Guðmund Hafliðason, Halla Óskars, Elías Þorvalds, Guðmund Víðir, Mumma Þóroddar, Gísla Blöndal, að ógleymdum Stebba, en auðvitað gleymi ég einhverjum.
Eins var það með hljómsveitarnöfnin, þau lifðu mislengi, var jafnvel skipt út fyrir önnur ef einn maður kom eða fór og stundum var búið til nafn sérstaklega fyrir eina uppákomu. Los brilleros, Gipson, Pólar, Kanton, Los banditos og Omo eru nokkur þeirra.

Hljómsveitin Omo 1964 Magnús, Elías, Guðmundur Hafliða og, Halli Óskars á bak við

Það var mikið um böll á Höfninni á þessum árum og eitt sinn forfallaðist hljómsveit sem átti að spila þar með litlum fyrirvara snemma árs 1964. Palli hafði samband við okkur og spurði hvort við gætum hlaupið í skarðið og bjargað ballinu. Það var auðvitað ekkert mál að öðru leyti en því að við Tommi Hertervig voru ekki orðnir 16 ára. Við reddum því einhvern vegin og það hlýtur að bjargast sagði Palli og auglýsti ballið. Við gerðum okkur ferð til þar til bærra yfirvalda og leituðum eftir undanþágu því við vorum nú einu sinni fæddir á árinu og svo sem engin smábörn lengur. En svarið var afgerandi, það var ekki um það að ræða að neitt slíkt yrði leyft og við sögðum Palla ótíðindin heldur súrir á svip. Hann tók þeim létt og sagði okkur að mæta bara og spila, þetta yrði ekkert vandamál. Þetta fannst okkur svolítið undarlegt en mættum samt til leiks á tilsettum tíma. Þá var Palli búinn að skerma okkur af þannig að við sáumst ekki frá dansgólfinu og fá Alla Rúts til að þykjast spila á gítar á sviðinu. Alli fór auðvitað hamförum í þessu hlutverki sínu eins og búast mátti við af honum og gerði heilmikla lukku. Einu sinni varð þó ofurlítið slys því ég byrjaði á lagi þegar Alli var enn ekki búinn að setja á sig gítarinn. Það tóku einhverjir eftir þessu og fannst undarlega gott sánd í gítarnum miðað við að það væri enginn farinn að spila á hann ennþá. Löggan var óvenju mikið á svæðinu þetta kvöld og tónlistaráhugi þeirra virtist vera með ólíkindum. Við laumuðumst út eldhúsmegin annað slagið til að láta lögguna sjá okkur utan dyra þegar þeir voru að koma eða fara. En þetta fyrsta fullorðinsball okkar varð auðvitað bara eftirminnilegra vegna þessa feluleiks. Það voru tveir vel þekktir laganna verðir sem bókstaflega helguðu ballinu starfskrafta sína þetta kvöld. Eitt sinn þegar þeir stóðu í andyrinu og hlustuðu á hljómsveitina heyrðist annar segja við hinn: “Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að hann Alli Rúts væri svona góður á gítar. Flest getur hann þessi drengur.”

Hljómsveitin Pólar 1965
Daddi Júll, Siggi Bald, Gaui Gústa og Magnús

Það var svo spilað á fyrsta sveitaballinu í Héðinsminni í Blönduhlíð um sumarið. Það gekk eins og best verður á kosið og við vorum ítrekað klappaðir upp í lokin. Á öðru eða þriðja aukalaginu kom löggan og tók rafmagnið af húsinu. Þeir sögðu okkur að nú væri komið meira en nóg, balltíminn væri úti og jafnvel þó fyrr hefði verið. Í ofanálag væru tveir okkar ekki nema 15 ára og ættu þess vegna alls ekkert að vera þarna. Við vorum auðvitað þakklátir löggunni fyrir að vera ekki með neina smámunasemi, en þóttumst alveg vita hvaða lögregluþjónn á Siglufirði sem þekktur var að því að taka starf sitt mjög alvarlega hefði átt spjall við starfsbróður sinn í Skagafirðinum.

Einu sinni fórum við í hljómsveitinni Omo í mikinn leiðangur. Hann hófst á föstudagskvöldinu í Alþýðuhúsinu á Akureyri, við spiluðum í Hlöðufelli á Húsavík á laugardagskvöldinu og svo aftur í Alþýðuhúsinu í bakaleiðinni á sunnudagskvöldinu. Hljómsveitarbíllinn var Austin Gypsy Jeppi og Símon Gests var bílstjórinn. Inn í hann fór öll hljómsveitin og öll hljóðfærin nema trommusettið sem var rækilega bundið niður á toppinn. Við máluðum nafnið á hljómsveitinni á rúmfjöl, festum hana á toppgrindina og fannst framtakið hin ágætasta markaðssetning. Ferðalagið gekk reyndar alveg ljómandi vel nema kannski sunnudagskvöldið, en þá var allt orðið svolítið þreytt, bæði gestir og spilarar. Það sem er svo ekki síður eftirminnilegt við þessa ferð, er að ég held að það sé alveg klárt að í henni smakkaði Elías brennivín í fyrsta skipti.

Hljómsveitarbíllinn var af gerðinni Austin Gypsy og bílstjórinn var Símon Gests

Eftir Gaggaárin fór ég suður í nám. Þar spilaði ég ekki mikið, en þó var stofnað til einnar hljómsveitar sem var frábrugðin flestum öðrum að því leyti að trommuleikarinn var stelpa og bara þó nokkuð höggþung hún heitir Halldóra Halldórsdóttir. Hljómsveitin fékk nafnið Textar. Þar var einnig Benni bróðir Harðar Torfa svo og Tommi Hertivig. Einu sinni spiluðum við í pásu hjá Dátum í Lídó sem síðar hét Tónabær og þar var þá Þuríður Sigurðar einnig að stíga sín fyrstu spor á sviði. Hún sló algjörlega í gegn strax á fyrsta lagi sem var Sonny og Cher smellurinn Baby don´t go og það var alveg ljóst að þetta kvöld væri stjarna fædd. Þarna kom auðvitað vinur okkar Stebbi Jóhanns að góðu gagni.

Þessi hljómsveit hét því einkennilega nafni Textar. Það var rosalega töff að vera með stelpu á trommunum og ekki skemmdi fyrir að hún var þrælgóð

Ég kem síðan aftur heim í ársbyrjun 1970 og geng til liðs við þá sem eftir voru af hljómsveitinni Hrím, þá Árna Jör og Rúnar Egils. Sverrir Elefsen kom líka inn í bandið úr hljómsveitinni Max sem var þá nýlega hætt. Við æfðum mjög stíft í upphafi ákaflega vandað prógram og sungum mikið þríraddað. Þegar við vorum komnir með 30 lög eða svo, æfðum við ekki meira heldur spiluðum sama lagalistann nær allar helgar alveg fram á haust þegar Hrím lagðist endanlega af.

Veturinn 1970-71 var stofnað til Hjóna og paraklúbbsins af Steinari Jónassyni hótelstjóra og fleirum. Þórður og Bjarki komu að máli við mig og spurðu hvort ég væri ekki til í að liðsinna þeim svolítið þarna um veturinn. Ég var til í það og fyrst í stað hét hljómsveitin ýmist Þórður og félagar, Bjarki og félagar eða eitthvað í svipuðum dúr. Skömmu síðar kemur Sturlaugur inn í þennan hóp og ég sting upp á að kalla hljómsveitina Miðaldarmenn. Rökin fyrir nafngiftinni voru þau að um miðja öldina voru tveir meðlimirnir að fæðast en hinir tveir voru upp á sitt besta. Þessi hugmyndafræði féll í kramið og þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þórður og Bjarki voru óumdeilanleg andlit hljómsveitarinnar út á við og lituðu hana með sterkum karaktereinkennum sínum, en Sturlaugur var duglegur að vinna ýmsa undirbúningsvinnu og annað sem sást kannski minna þegar á sviðið var komið. Útgerðin vatt fljótlega utan á sig og hljómsveitin Miðaldarmenn breyttist smátt og smátt úr því að vera gömludansahljómsveit sem lék einu sinni í mánuði yfir veturinn fyrir einn dansklúbb, yfir í að spila alhliða danstónlist fyrir blandaða hópa vítt og breitt um landið.

Síðasta útgáfa hljómsveitarinnar Hrím 1970
Rúnar Egils á trommur Sverrir Elefsen á bassa, Árni Jörgensen á gítar og Magnús á orgel

Eftir að við fórum að spila flestar helgar þurftum við að sækja mikið úr bænum allan veturinn í alls konar veðrum, því okkur var nánast úthýst hjá Steinari á Höfninni. Það var eins og Gautarnir ættu hreinlega húsið og við vorum auðvitað alls ekki sáttir. Á þessum tíma var Þórður dáinn og Bjarki farinn, en Leó og Birgir komnir í staðinn. Við heimsóttum þá vin okkar Villa Friðriks sem var húsvörður í Alþýðuhúsinu og sömdum við hann. Dansleikjahald í því ágæta húsi hafði þá legið niðri í nokkur ár og Villi var hinn kátasti og alveg til í að halda nokkur böll. Við spiluðum þar einn vetur velflest föstudagskvöld en Gautarnir voru á Höfninni á laugardögum, yfirleitt fyrir hálftómu húsi nema það væri árshátíð eða eitthvað slíkt í gangi. Steinar varð alveg sjóðandi vitlaus og hótaði okkur því að við kæmum aldrei inn fyrir dyr hjá honum ef við héldum uppteknum hætti, en þar kom að sættir tókust og við fengum sanngjarnan hlut af ”spilakökunni” á Höfninni.

Frá árshátíð G.S. á Hótel Höfn.
Magnús, Gísli Blöndal, Gerhard Schmith, Gaui Gústa, Guðmundur Víðir Eggertsson og það grillir í Elías á píanóinu. Ef myndin er skoðuð vel, sést í brún á bassatrommu lengst til vinstri, en á trommusettinnu var Valgeir Sigurðsson

Áratug síðar var ég hættur í Miðaldamönnum og ákveðinn í að taka góða pásu í spilamennskunni. Þá endurtekur sagan sig því Bjarki kemur aftur til mín og biður mig að leysa af um tveggja mánaða skeið í nýstofnaðri hljómsveit sinni Öldinni Okkar sem hafði upphaflega verið húshljómsveit á hótel KEA. En það fór eins og svo oft vill verða, ég ílentist þar í hálfan áratug eða svo. Þegar fram í sótti fóru verkefnin vaxandi og Öldin fór víða og spilaði mikið út um allar sveitir þó svo að það væri kannski ekki svo mikið á Siglufirði. Ástæðan var auðvitað first og fremst hinn frábæri harmonikkuleikur Bjarka.

Eftir það fórum við Steinar Ingi að spila saman og höfðum talsvert að gera. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við spiluðum tveir á Hótel Höfn á Síldarævintýrunum 1992 og 93. Það var frítt inn, spilamennskan stóð yfir samfleytt í 5 tíma og húsið var alveg pakkfullt af fólki. Eftir að flestir voru farnir heim voru veggirnir blautir af svita og við reyndar líka. Það var frábært að spila með Inga jafn góður félagi og hann er vandfundinn.
1990 er ég farinn að spila á trommur í Gautunum og gerði það þar til um vorið 1991 þegar ég flyt suður. Við Ingi héldum samt áfram að spila saman þó við byggjum á sitt hvoru landshorninu og m.a. þó nokkrum sinnum hjá Magnúsi í Staðarskála fyrir gesti og gangandi. Það var ekki haft allt of mikið fyrir hlutunum þá, enda þurfti þess ekki lengur. Menn sjóast með aldrinum, mæta bara í giggið, stinga dótinu í samband og telja í. 

Síðustu ár hafa verið heldur rólegri í músíkinni, eða alla vega miðað við hin fyrri. Fyrir nokkrum árum var stofnuð sex manna hljómsveit sem eingöngu var skipuð Frímúrurum og hún er ein sú allra magnaðasta sem ég hef spilað með því þarna voru hvílíkir snillingar samankomnir. Svo hef ég stundum spilað einn á minni samkomum og um nokkurra ára skeið á jólaböllum fyrir kvenfélagið og leikskólinn með fyrrverandi bæjarstjóra í þeim ”fræga” bæ Álftanesi.

Bræðrabandið, sex manna hljómsveit skipuð frímúrarabræðrum mínum, hér er spilað á Grandhótel fyrir árgang úr Kennaraskólanum

Nú var kaffið og bakkelsið á þrotum. Spólan í diktafóninum var komin á enda og það var búið að skjóta á allt myndefnið í hljómsveitaralbúminu. Þá lá næst fyrir að þakka Magnúsi fyrir viðurgjörninginn og spjallið og finna til hatt sinn og staf...


Texti: LRÓ.
Myndvinnsla og uppsetning: BI.

 

Í vitnisburði fyrir hljómfræði úr Tónskólanum veturinn 1963-64 er gefin einkunnin ”mjög góð.”Nöfnin á blaðinu kveikja á mörgum minningaperum. Gerhard Schmith er kennari og skólastjóri, en Sigurjón Sæmundsson og Hafliði Guðmundsson prófdómarar


Athugasemdir

23.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst