Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Sigurður Konráðsson

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Sigurður Konráðsson Þegar gestir mættu á Síldarballið sem haldið var á dögunum í Félagsheimili Seltjarnarness,

Fréttir

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Sigurður Konráðsson

Siggi Konn. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson
Siggi Konn. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson

Þegar gestir mættu á Síldarballið sem haldið var á dögunum í Félagsheimili Seltjarnarness, var anddyrið skreytt málverkum þar sem innblásturinn var sóttur til Síldarbæjarins. Maðurinn sem stóð að þessari óvæntu en mjög svo skemmtilegu sýningu var Sigurður Konráðsson sjóari, skíðamaður, bræðslukarl, veiðimaður, húsa og bátasmiður, listmálari og húsvörður frá Siglufirði.

 

Þessi uppákoma varð til þess að okkur félögunum þótti ærin ástæða til að líta inn hjá Sigga og eiga við hann svolítið spjall. Eftir rjúkandi kaffisopa með ábót, nokkrar vænar tertusneiðar og svolitlar umræður um daginn og veginn hóf Siggi frásögn sína.

Ég er fæddur árið 1943 við Hafnargötuna á Siglufirði og ólst upp á bökkunum fyrir ofan iðandi mannlífið á síldarplönunum við Snorragötuna. Ég hafði strax á barnaskólaaldri mun minni áhuga á leikjum og ærslum með jafnöldrum mínum en algengt var, en fannst þess í stað fátt meira spennandi en að fá að fara með Kidda bróður og frændum mínum Óla og Pétri til veiða. Árin liðu og veiðihvötin gerði ekkert annað en að ágerast. Gústi guðsmaður bjó á þessum árum í gráa brakkanum á syðsta planinu þar sem ég var seinna með trésmíðaverkstæði. Stundum heyrðust skothvellir inni á Leirunum þegar kvölda tók og margar húsmæður í suðurbænum voru ekki mjög sáttar við það. Þegar einhver þeirra kenndi okkur um að hafa verið þarna á skytteríi, bentum við auðvitað á Gústa sem allir vissu að var með byssuglaðari mönnum og sú skýring var yfirleitt tekin gild.

 

 

Fermingardrengurinn Siggi Konn

 

Ég var sendur í sveit sjö ára gamall að Móskógum til Júlla sem þar bjó um og fyrir miðja síðustu öld. Sumrin þar á eftir var ég oft að hjálpa móður minni í síldinni á Njarðarplaninu eða KEA-planinu eins og það var líka kallað, en þar var Jóhann Skagfjörð verkstjóri sá ágæti karl.

Þegar ég var tólf eða þrettán ára fór ég að vinna í Rauðku, en þar voru Konnarnir, Vennarnir og Mikkarnir áberandi fjölmennir. Það var mjög sérstakt að vinna þarna og ýmsir siðir voru bæði óvenjulegir og örugglega öðruvísi en á flestum öðrum vinnusutöðum. Einn af þeim var sá að hver vakt átti alltaf að skila af sér með vísu. Ég á að eiga til eitthvað af þessum kveðskap og veit að nokkrir ágætir Siglfirðingar luma líka á nokkrum vísum frá Rauðkuvöktunum. Þetta var auðvitað upp og ofan kveðskapur eins og gengur, en sumt var bara ansi haganlega gert. Nonni Gústa þótti mjög góður, Svenni sem var þarna smyrjari og pabbi átti líka nokkra góða spretti. Þetta varð auðvitað til þess að oft voru menn alveg handónýtir til vinnu, því þeir gengu bara um eins og í leiðslu og voru að reyna að hnoða einhverju saman alla heilu vaktina. Þegar uppihald var í bræðslunni vorum við Rauðkuguttarnir stundum lánaðir í handlang yfir í Slippinn. Það var auðvitað alveg ágæt tilbreyting í vinnu t.d. að halda á móti þegar verið var að hnoða eða eitthvað slíkt.

Ungir skíðakappar á landsmóti sem haldið var vestur á Ísafirði. Siggi Konn og Siggi Benni með mjög athyglisverðar húfur sem “einhverjar” Ísfirskar stelpur gáfu þeim

 

 

 

 

 

 

 

 

Einu sinni var ég að koma heim að kvöldi og heyri þá mikið kvak í stokköndum milli steingarðanna við stálþilið sem voru þar áður en uppfyllingin kom til. Ég dreif mig í bússur, þríf byssuna karlsins og flýti mér niður að fjöru. Það var mikið tunglskin og ég sé hvar tvær endur líða hægt um sjávarflötinn, en mér fannst svolítið undarlegt að það virtist alltaf vera nákvæmlega jafn langt bil á milli þeirra. Ég nálgast þær skríðandi á maganum í fjörusandinum og þó ský dragi fyrir tunglið þegar þarna var komið sögu, spegluðust ljósin á hafnarbryggjunni í sjónum þannig að ég gat samt séð þokkalega vel til þeirra. Eftir að hafa vandað mig heilmikið komst ég í ágætt færi við þær og lét vaða. Ekki var annað séð en þær hefðu steinlegið báðar tvær og ég fór að kíkja á fenginn. Þá kom í ljós að þarna hafði verið á ferðinni hálfsokkinn kajak sem maraði í hálfu kafi, stefnin höðu staðið upp úr og ég hafði skotið þau af. Langur tími leið áður en ég sagði nokkrum manni frá þessu því ég þóttist vita að mér yrði strítt á þessari snautlegu veiðiferð.

Þegar ég var unglingur sendi pabbi mig einu sinni út á fjörð með byssu til að veiða í matinn og lét mig hafa sjö skot til ferðarinnar. Ég vissi að það var ætlast til þess að ég missti aldrei marks og kæmi til baka með sjö fugla. Ég var búinn að nota sex skot og kominn með jafn marga þokkalega stóra fugla þegar tvær hávellur nálguðust á flugi. Ég náði þeim báðum í síðasta skotinu og kom því heim með átta fugla. Þetta þótti auðvitað ágæt frammistaða, en þó var pabbi ekki alveg sáttur, því þessir tveir síðustu voru í minna lagi og því frekar kjötlitlir.

Menn þurftu að hafa meira fyrir hlutunum í þá dagana og það mátti til dæmis ekki sjást selur koma inn á fjörðinn svo ekki væru komnar fjórar eða fimm trillur af stað til að reyna að ná honum. Ég man eftir skemmtilegri sögu af Páli í bænum sem var faðir Gvendar í bænum, en líklega muna fleiri eftir honum nú orðið. Hann var þá orðinn fjörgamall maður og átti jafnvel erfitt með að komast leiðar sinnar með góðu móti, en þá sást selkópur koma inn á pollinn. Sá gamli hljóp þá fram bryggjuna eins og unglingur og tók undir sig stökk ofan í trilluna, svo mikill var veiðiáhuginn. Í þá daga veiddu menn sér til matar en ekki upp á neitt sport, síðan var allt saman ýmist étið eða gefið þeim sem minna höfðu.

Hart í stjór, - Siggi í krappri beygju í svigbrautinni

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkrum árum seinna, sennilega þegar ég var sextán eða sautján ára fór ég á síld. Ég var mjög heppinn og fékk mjög gott pláss á Björgu SU sem var gerð út frá Eskifirði. Við fórum svo veturinn eftir til Vestmannaeyja og vorum þar eina vertíð, þar málaði ég mínar fyrstu myndir og svo var auðvitað haldið aftur á síld. Við Dagbjört trúlofuðum okkur eftir seinni síldarvertíðina, en hún hefur líklega fengið svolítið sjokk þegar hún kynntist fjölskyldu minni. Hún var varla nema rétt farin að venja komur sínar til okkar þegar hún var sett í að hlaða skot, en hún hafði þá aldrei komið nálægt slíku áður. Þá voru bláu bréfin utan af eplunum eins og þau komu í kössunum á þessum árum mikið notuð sem forhlað. Sennilega hefur hún haldið að nú væri hún komin til villimannalands, en hún lét sig nú samt hafa það.

Um borð í Hring – Siggi og Dæja


Í mörg ár fórum við bræður og frændur inn að Málmey í Skagafirði til að veiða sel og vorum þá yfirleitt nokkra daga í túrnum. Þessi útgerð hafði lengi gengið ágætlega, en rétt eins og öll ævintýri gera tók þetta enda og það bara nokkuð snöggan. Síðasta árið veiddum við mjög vel og sendum mikið út af skinnum. Það var farið að ráðgera alls konar fjárfestingar í framhaldinu því skinnaverð hafði verið hátt árið áður og við bjuggumst við að nú yrðum við ríkir. Það átti að kaupa nýja byssu, mikið af skotum og margt, margt fleira. En þetta var einmitt árið sem Birgitte Bardot hóf baráttu sína gegn selaveiðum með miklum látum. Eitt af því sem hún gerði var að senda frá sér fréttamynd um hrottalegar veiðiaðferðir, en það kom svo seinna í ljós að það var allt saman sviðsett og myndin í sjálfu sér ekkert annað en fölsun. En skinnaverðið hrundi á einni nóttu og við fengum bara örfáar krónur fyrir heilmikið erfiði. Það breytti kannski ekki öllu fyrir okkur en heilu byggðirnar í norður Canada og á Grænlandi hreinlega eyddust í kjölfarið. Ég hætti nú samt ekkert að fara í bíó þó að hún léki í myndinni sem verið var að sýna því hún var svo flott stelpan sú. Við fórum líka á vorin í egg þangað út og það kom meðal annars til af því að pabbi gamli hafði verið vinnumaður þar á sínum yngri áruum og við nutum þess lengi.

Siglfirskir skíðakappar: Jonni Vilbergs, Dísa Þórðar, Siggi Konn, Dísa Júll og Gústi Stebba


Eins og flestir unglingar á Siglufirði stundaði ég líka skíðin af miklum móð. Þá voru margir frábærir skíðamenn á Siglufirði sem létu mikið að sér kveða á landsvísu. Ég keppti einu sinni á landsmóti sem haldið var á Ísafirði og einum tvisvar sinnum á Siglufirði. Það gekk alveg þokkalega og mig minnir að ég hafi náð fimmta sætinu í minni grein þegar best lét.
Ég var á Hring SI sumarið sem fyrsta barnið fæddist. Það var ekki nema nokkurra daga gamalt þegar ég flutti mig yfir til Palla Páls sem var þá með Garðar GK, en við fórum á síld norður undir Svalbarða. Þar vorum við lengi og þegar ég snéri svo loksins heim aftur var frumburðurinn orðinn sex mánaða gamall. Svon´er´á síld eins og segir í ljóðinu hans Ómars.

Það hefur líklega verið árið 1964 sem ég komst á samning hjá Palla Jóns á trésmíðaverkstæði SR. Þar var mikið að gera og verkstæðið byggði og sá um allt viðhald hjá verksmiðjunum á Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Þar vinn ég í nokkur ár og klára námið, en seint á sjöunda áratugnum þegar síldin er horfin var orðið lítið að gera. Margir Siglfirðingar fóru í atvinnuleit m.a. til Svíþjóðar og eflaust eitthvað víðar. Þá er fyrsti báturinn smíðaður, en í framhaldinu fer ég inn á Akureyri. Þar er ég eitt sumar hjá Tryggva sem var með KEA stöðina til að ná mér í aukin smíðaréttindi.

 


Sól, sól, skín á mig. - Trésmiðurinn Siggi á góðum sumardegi


Kring um 1969 er Farsæll smíðaður, en það var gamli maðurinn hann pabbi sem smíðaði hann. Þetta er sá hinn sami Farsæll og stendur núna uppi á þurru landi norðan við Síldarminjasafnið, en hann hefur ýmist staðið þar eða flotið á pollinum fyrir framan það síðustu árin.


Þegar ég kem frá Akureyri helli ég mér í bátasmíðina með þeim Hauki Freysteins og pabba gamla, en smíðaði þó einn þá tvo síðustu. Við byrjum í Kaupfélagshúsinu sem stendur enn og er núna viðbygging aftan við þá Gránu sem er hluti af Síldarminjasafninu. En síðar fluttumst við í svarta lagerhúsið sem stóð neðst við Gránugötuna sunnan við Bigga Björns og þar sem Lögreglustöðin stendur núna.
Eftir miðjan áttunda áratuginn var bátatímabilinu eiginlega lokið og helst var vinnu að hafa við ýmis konar viðhaldsverkefni. Algengt var þá að menn sáust ýmist hanga hálfir út um glugga húsa eða voru prílandi upp á þökum þeirra. En eitthvað var samt um nýbyggingar líka og ég byggði t.d. tvo læknabústaði við Ártún og eitthvað fleira.

Siggi og Haukur Freysteins smíðuðu Dröfnina ásamt Konna föður Sigga

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Árið 1994 meiddist ég á hendi í smíðunum og það breytti því að nú var ekki lengur hægt að halda áfram af sama krafti og áður. Við seldum allt sem við áttum fyrir norðan og fluttum suður, en það höfðum við þó aldrei nokkurn tíma ætlað okkur að gera. Ég fór að vinna sem húsvörður í Tollhúsinu, er þar enn og kann því ágætlega. Þetta var árið 1996 og þessar breytingar urðu til þess að það varð til miklu meiri tími fyrir áhugamál. Ég þók þá upp þráðinn frá því fyrir 35 árum, fékk mér fullt af litum, striga og penslum og fór að mála aftur. Við erum fjórtán saman í svolitlum klúbbi, höfum aðstöðu í myndlistardeildinni í Valhúsaskóla og fáum svo til okkar kennara þangað. Eitt af inntökuskilyrðunum í klúbbinn var að kunna að baka. Það kunni ég alls ekki en tókst samt að kjafta mig inn og er þar á undanþágu til frambúðar, en tók í staðinn alfarið að mér að sjá um kaffið.


Ein af fyrstu myndunum sem voru málaðar og líklega sú eina sem hefur varðveist frá upphafsárunum í Eyjum. Hún er líklega frá árinu 1960


Það má segja að myndin af Elliða sé nokkurs konar símamynd, en ég er mjög ánægður með útkomuna. Ég málaði hana að miklu leyti eftir lýsingu frá Kidda bróðir í gegn um síma, en hann var þarna um borð. Skipverjarnir töluðu yfirleitt ekkert um slysið árum eða áratugum saman, en hann sagði mér þó á endanum hvernig þetta hafði gerst þarna út af Snæfellsnesinu. Elliði var alveg lagstur á hliðina og þeir búnir að missa flesta bátana frá sér, en Muggi og Lalli voru komnir á björgunarfleka. Þá tók út með honum en skolaði aftur inn eftir þó nokkuð langan tíma í þessu líka snarvitlausa veðri. Kannski hálftíma eða eitthvað svoleiðis og það er alveg ómögulegt að skilja hvernig svona lagað gat gerst. Félagar þeirra þeir Egill og Hólmar voru því miður ekki jafn heppnir. Ég var svo með þessa mynd á sýningu fyrir nokkru og þá kom til mín nágranni minn sem sagði mér að hann hefði verið háseti á Júpíter sem kom einmitt að slysinu og bjargaði skipverjum af Elliða þegar hann sökk. Það var svo dimmt og vitlaust veður að það sást ekki neitt, þannig að Júpíter fór fyrst framhjá slysstaðnum en snéri síðan við og fann þá.


En svo við víkjum aftur að veiðunum, þá er það nú ýmislegt sem hefur verið veitt um dagana annað en fugl og fiskur. Ég hafði gengið í hið Íslenska byssuvinafélag eftir að við fluttum suður og ég fór með þeim félögum mínum tvisvar til Póllands að veiða villisvín og fasana og svo auðvitað hreindýr fyrir austan. Ég fékk líka leyfi til að veiða einn höfrung á ári og finnst mér líklegt að það sé ekki mjög algeng leyfisveiting. Ég setti mig í samband við gamlan skipstjóra sem hafði verið á hvalbátunum  á árum áður og hann seldi mér alvöru skutul og skutulbyssu sem ég notaði síðan við veiðarnar.
En það er svo alveg ljóst að allt þetta veiðieðli er genatengt. Það er voðalega gaman þegar afabörnin hringja í mig til segja mér að það séu bara þrír til fjórir metrar á Garðskaga og fínt sjóveður.

Séð inn í byssuskápinn hjá Sigga, en þar gætir ýmissa grasa. Þarna er geymt alls konar dót og sumt af því hefur venjulegur leikmaður ekki minnstu hugmynd til hvers er notað

Bissueignin er upp á hálfan annan tug


Það var komið fram yfir miðnætti þegar við félagarnir stóðum upp, þökkuðum fyrir okkur og bjuggumst til heimferðar. Siggi og Dæa fylgdu okkur til dyra, en úti fyrir beið okkar lygn og stillt haustnóttin. Þetta var búið að vera mjög skemmtilegt kvöld.

 

Ljósmyndir: Birgir Ingimarsson
Texti: Leó R. Ólason


Athugasemdir

22.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst