Spjallað við Höllu Haraldsdóttur.

Spjallað við Höllu Haraldsdóttur. Halla Haraldsdóttir fæddist á Siglufirði árið 1934 og ólst þar upp. Þegar hún hafði lokið gagnfræðaprófi, hélt hún

Fréttir

Spjallað við Höllu Haraldsdóttur.

Hjálmar, Haraldur og Halla.
Hjálmar, Haraldur og Halla.

Halla Haraldsdóttir fæddist á Siglufirði árið 1934 og ólst þar upp. Þegar hún hafði lokið gagnfræðaprófi, hélt hún suður til náms í Handíða og Myndlistaskólanum, þá sextán ára gömul. Hún var þar í tvö ár og aðalkennari hennar var Guðmundur Guðmundsson sem notaði þá listamannsnafnið Ferró en er nú þekktur sem Erró.


Leiðin lá síðan aftur heim á Siglufjörð þar sem hún giftist Hjálmari Stefánssyni og eignuðust þau þrjá syni. Seinna stundaði Halla nám í kennaradeild við sama skóla.

Ég leit við í húsbíl þeirra hjóna á tjaldstæðinu í horninu milli Egilssíldar og Bláa hússins, en þar ætla þau að halda til meðan á sýningunni stendur. Móttökurnar voru höfðinglegar eins og við var að búast, stærðarinnar súkkulaðiterta rataði á borðið ásamt nýuppáhelltu ilmandi kaffi. Síðan bættist við smákökudiskur sem mér varð starsýnt á, því hann leit út eins og lítið sjálfstætt og litskrúðugt listaverk á miðju borðinu. Ég horfði lengi á hann áður en ég mannaði mig upp í að raska jafnvægi forms og lita, með því að laumast í smáköku með súkkulaði sem freistaði mín meira en ég fékk við ráðið. Ég kveikti á diktafóninum og við Halla hófum spjallið.


 

Hjálmar Stefánsson og Halla Haraldsdóttir.

 

Það verður að segjast að fyrsta sýningin mín á Siglufirði var með því einfaldasta sniði sem hugsast getur. Það var árið 1962 að ég fékk til afnota búðargluggana í Aðalbúðinni og ég stillti þar upp nokkrum mósaikmyndum. Á þeim tíma gerði ég mikið af eins konar pappírsmósaiki, en það var enginn annar að gera neitt þannig svo þetta var talsverð nýlunda. Efnið sem ég notaði, var brúnt níðsterkt límband sem ég litaði og reif síðan niður. Svo þurfti ég að sleikja límið aftan á hverjum bút rétt eins og frímerki. Það má segja að hver einasta mynd af þessu tagi sem ég vann, hafi kostað mig hálsbólgu. Ég reyndi þá að nota frímerkjapúða en komst einhvern vegin ekki upp á lag með það, svo ég hélt áfram að fá hálsbólgu eftir því sem myndunum fjölgaði. Upphafið af þessu tímabili má rekja aftur til áranna í Handíða og Myndlistaskólanum, en þar gerði ég eins konar frumgerð af mynd sem grundvallaðist á þessari sömu tækni ásamt Erró sem var aðalkennarinn minn þar. Síðar þróaði ég tæknina og verklagið á þá átt sem varð nokkurs konar vörumerki mitt á tímabili. Fyrstu einkasýningina mína í alvöru sýningarsal hélt ég svo á Café Scandia á Akureyri árið eftir. Árið 1965 hélt ég svo stóra sýningu í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut sem gekk mjög vel. Allar myndirnar seldust, og ég gat keypt píanó sem varð til þess að Halli Gunni byrjaði að feta sig áfram á tónlistarbrautinni. Það var svolítið skrýtið að sjá þetta fína hljóðfæri komið heim í stofu og standa þarna innan um allan fábreytileikann sem fyrir var, því það var hálfgert basl á okkur á þessum árum og ekkert bruðlað í fínum mublum frekar en öðru. 1966 var svo læknagyðjan á sjúkrahúsinu afhjúpuð. Ég vann hana mikið til á gólfinu heima á Hólaveginum þar sem við bjuggum á þeim tíma. Það var ansi þröngt þar á bæ meðan á þeirri vinnu stóð, því íbúðin var ekki stór og þrír sprækir strákar þurftu sitt pláss. Svo þurfti ég auðvitað líka að sjá um heimilið eins og gengur. Ég stóð því stundum yfir myndinni útbreiddri á gólfinu með sleifina í annari hendi en málningarpensilinn í hinni.



 

Hulduheimar.

En það var margt annað skemmtilegt að gerast á Siglufirði á þessum tíma. Á hverju ári voru settar upp skemmtanir eða kabarettar. Það gæti hafa verið árið 1965 eða þar um bil, að það var settur upp einn slíkur, en í það skiptið þróuðust hlutirnir með öðrum og óvæntari hætti en flestir áttu von á. Að honum stóðu Karlakórinn Vísir, Kvennakórinn, blandaði kvartettinn, Silke, Gerhard Schmith, svo auðvitað Gautarnir, en einhverjir fleiri söngvarar komu einnig þarna við sögu. Júlli Júll var þarna kynnir og aðal sögumaðurinn. Þarna flugu fullt af spontant bröndurum, svo var sungið og þarna ríkti óhemjumikil kátína. Við Hafliði Guðmunds máluðum þá leiktjöldin niður á Sunnuplani á stórt segl og meira að segja utandyra. Þetta átti allt að gerast um borð í skipi sem kom nokkuð víða við, en ég man ekki til þess að neinn hafi samið neitt handrit af söguþræðinum. Þetta var að mestu leyti einhvers konar spuni sem bara varð einhvern vegin til, en nér þykir þó líklegt að Hafliði hafi þó verið einn af aðal hugmyndafræðingunum. Þetta átti upphaflega að vera bara eitt einasta kvöld en þau urðu heldur betur fleiri.

Klæðnaður okkar í Kvennakórnum var með ýmsu móti, en búningur Silke var alveg eins og hún væri drottning. Kjóllinn leit út fyrir að vera demantsskreyttur og það blandaðist þarna saman mikill glæsileiki annars vegar, en svo var útlit hennar líka pínulítið sígaunalegt. Ég var að vinna á hárgreiðslustofunni með Sillu systir við að sminka. Ég var í kórnum og svo var ég sem sagt líka niður á plani að mála leiktjöldin með Hafliða. Það var því ekki mikill tími til að útbúa eitthvað sem ég átti sjálf að vera í, en ég reif niður gamlar gardínur og klippti upp í. Úr varð mjög fljótsamansettur kjóll sem ég notaði, því ég átti að vera einhvers konar sígauni. Svo málaði ég mig í framan með sósulit sem ég þynnti út. Þegar yngsti sonur minn kom á skemmtunina og sá allar þessar glæsilegu konur sem þar voru og svo mig eins og ég leit út, fór hann að hágráta því honum fannst mamma hans vera svo ljót.

Sýningin sló rækilega í gegn og í stað þess að vera sýnd aðeins einu sinni eins og til stóð í upphafi, gekk hún helgi eftir helgi. Það komu heilu rúturnar úr nágrannasveitarfélögunum fullar af fólki og meira segja líka mun lengra að, t.d. frá Akureyri og Reykjavík til að sjá hana. Það var stöðugt verið að hringja og óska eftir að hún yrði endurtekin fyrir hina og þessa hópa sem vildu koma og þetta var allt saman eitt ógleymanlegt ævintýri.



 

Áin.

Þegar Dr. H. Oidtmann. kom til Siglufjarðar til að setja steinda glugga í Siglufjarðarkirkju eftir Þýsku listakonuna Katzgra, sem ég átti eftir að kynnast mjög vel síðar, sá hann verkið á sjúkrahúsinu og óhætt er að segja að það hafi haft talsverða eftirmála. Fritz Oidtmann sem var annar eigenda þessa virta listfyrirtækis, bjó hjá Ólafi lækni og Kristínu konu hans meðan hann dvaldi á Siglufirði. Hann talaði oft um hve hugfanginn hann hefði verið af þessu verki, og hvað sér hefði fundist furðulegt að einhver stelpa úr litlu sjávarþorpi norður við ballarhaf hefði gert það, en ekki einhver gamalreyndur reynslubolti. Hann hafði líka haft fyrir því að leita uppi aðrar myndir eftir mig úti í bæ sem sveitungar mínir höfðu keypt af mér í áranna rás og grandskoða þær.



Eftirvænting.

Fritz heimsótti okkur svo eftir að við fluttum til Keflavíkur. Hann vildi fá íslending til liðs við sig í Þýskalandi, og virtist sjúkrahúsmyndin vera kveikjan að hans mikla áhuga á mér. Ég var treg til og fannst hugmyndin eins fullkomlega galin og hún gat orðið. Að ég, eða bara hver sem er á mínum aldri fari til Þýskalands til að læra að gera steinda glugga fyrir utan að kunna ekki eitt einasta orð í þýsku. Þeir héldu þó góðu sambandi við mig næstu tvö árin og sendu mér meira að segja jólagjafir. Að lokum buðu þeir okkur í heimsókn sem við þáðum og fórum utan með tvo yngri syni okkar, þá Þórarinn og Stefán. Við fengum stórkostlegar móttökur ytra, ég gaf eftir og samþykkti að reyna. Á sama tíma var mér veittur lista og menningarstyrkur Soroptmista sem varð mér líka mikil hvatning.

 


Djásn.


 Þá vorum við flutt heim eftir tveggja ára dvöl í Danmörku, en þangað fórum við með elsta syni okkar Haraldi Gunnari sem er mjög sjónskertur. Þar hafði hann komist að í mjög góðum sérskóla og við foreldrarnir vildum auðvitað vera honum innan handar þar sem hann var enn of ungur til að vera þar einn sins liðs. Við fluttum aftur heim eftir tvö ár og ákváðum að setjast tímabundið að í Keflavík til að vera nálægt Vellinum, en það var þá fyrirséð að við myndum verða eitthvað á ferðinni landa á milli. Auk þess átti hann að koma heim einu sinni til tvisvar á ári meðan hann var í skólanum sem gekk eftir. Upphaflega var reiknað með að þetta yrði millibilsástand sem myndi vara næstu eitt til þrjú árin, en draumurinn var alltaf að komast sem fyrst aftur heim til Siglufjarðar. Árin hans Halla Gunna í Danmörku urðu þó hvorki meira né minna en þrjátíu og þrjú, svo við ílentumst í Keflavík mun lengur en til stóð í upphafi.

Fljótlega eftir að ég kom til Keflavíkur hélt ég sýningu og varð þar með fyrsta konan sem hélt einkasýningu á Suðurnesjum. Það var skrifað um það í blöðunum á suðurnesjunum að ég hefði rofið karlaveldið sem mér fannst ekkert leiðinlegt. Mér hafði yfileitt gengið mjög vel að selja og þannig varð það líka að þessu sinni því allt seldist upp. Seinna varð ég líka fyrsta konan sem hélt einkasýningu á nýjum verkum á Kjarvalsstöðum. Þar sló ég sölumet sem hafði enn ekki verið slegið tuttugu árum síðar þegar ég hitti Alfreð heitinn að máli, en hann veitti staðnum forstöðu á sínum tíma. Reyndar sló ég líka aðsóknarmet, en ég veit ekki hvað það hefur staðið lengi. En dómarnir sem ég fékk voru alveg hræðilegir og á þeim mátti skilja að það væri ekki ein einasta nýt taug í mér. Aðalsteinn Ingólfsson skrifaði mjög harða og óvægna gagnrýni um sýninguna. Ég man að hann kom inn og labbaði með sýningarskrána einn hring í salnum og leit varla upp úr henni, en gekk eftir það út. Áki Granz sem var mjög þekktur listamaður á Suðurnesjunum sagði mér þegar ég hitti hann nokkru síðar, að hann hefði verið búinn að lesa gagnrýnina áður en ég opnaði. Aðalsteinn hafði samkvæmt því skrifað dóminn áður en hann sá eina einustu mynd eftir mig. En mér finnst það óneitanlega talsvert fyndið að á sama tíma og Aðalsteinn segir að ég hafi engan litasmekk og sé algjörlega vanhæf, vilja hinir þýsku Oidtmannbræður fá mig til samstarfs við sig eftir að hafa skoðað fullt af verkum eftir mig og hrósa mér fyrir einstaklega mikilli næmni í litasamsetningu. Ég held reyndar að ef maður ætlar að gera eitthvað að viti í glerlistinni, verði maður að hafa pínulítið litaskyn. Þegar ég var í myndlistaskólanum var sett upp keppni í öllum skólanum sem gekk út á liti og litaskala. Við vorum tvö sem deildum með okkur fyrstu verðlaunum í þessari keppni, þ.e. ég og Siglfirðingurinn Haukur Friðgeirsson.


Í hlíðinni heima.


“Mánuði fyrir hrun var ég með sýningu í Keflavík og þá gerðist nokkuð sem ég hafði aldrei upplifað áður. Það kom maður inn og sagði: Ég ætla að fá allar myndirnar á þessum vegg. Það má svo líka fylgja sögunni að þetta var frekar stór salur og hann keypti að auki nokkrar myndir af öðrum veggjum. Ég geri ekki ráð fyrir að svona eigi eftir að gerast aftur.


Ferðalag.

Fyrir rúmu ári síðan vildu synir Fritz og Ludwikus Oidtmann fá mig til að gera nýja línu af konumyndum, en ég hef mjög oft gert slíkar myndir og kannski verðið svolítið þekkt fyrir það einkenni mitt. Það hefur lengst af verið eins og einhvers konar stimpill alla mína málaratíð hvað ég hef notað konuna mikið sem tákn í myndunum mínum. Hún hefur táknað himininn, hafið, gyðjur og svo mætti lengi, lengi telja. Ég er búin að gera þrjár myndir með þeirra aðstoð og sýrubrenna þær í gler. En það er svo dýrt að framleiða þær með þeirri aðferð sem þeir vilja nota að það er eiginlega útilokað að selja þær vegna framleiðslukostnaðarins, en þær eru rosalega flottar.



Steinunn Marteinsdóttir, Álfhildur Stefánsdóttir og Halla Haraldsdóttir.

 

Núna er ég að sýna aftur í heimabænum mínum Siglufirði eftir nokkurt hlé og ég vona að einhver muni eftir mér, heiðri mig með nærveru sinni og líti inn á sýninguna mína í Bláa Húsinu.


Og með þeim orðum kvaddi ég þau heiðurshjón Höllu og Hjálmar og þakkaði fyrir mig. Halla sýndi síðast á Siglufirði í Ráðhúsinu árið 2002.

Texti: Leó R. Ólason.

Myndir: Guðmundur Skarphéðinsson.

 


Athugasemdir

26.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst