Afturhvarf til fortíðar
Við framsóknarmenn stóðum í þeirri trú að ætlunin væri að afgreiða málið í sátt á milli stjórnvalda og þeirra aðila sem gegna lykilhlutverki í því að bregðast við þeirri djúpu efnahagslægð sem blasir við okkur. En það var öðru nær. Forsvarmenn Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífisins lýstu á fundi viðskiptanefndar yfir megnri óánægju með frumvarpið og þá um kvöldið var ljóst að ríkisstjórnin hafði ekki haft neitt samráð við þessa hagsmunaaðila við gerð frumvarpsins. Samræðustjórnmálin í verki eða hvað? Það að ríkisstjórnarflokkarnir skuli leyfa sér á tímum sem þessum að koma fram með þessum hætti réttlætir eitt og sér vantraust á ríkisstjórnina.
Að hverfa aftur til gjaldeyrishafta og mikilla inngripa í markaðinn er óneitanlega afturhvarf til fortíðar. Og það undir forystu flokka sem hingað til hafa hreykt sér af stefnu sinni um afnám hafta. En stefnuleysi ríkisstjórnarinnar hefur valdið því að staðan er eins og raun ber vitni.
Með skýrri framtíðarsýn og markvissum vinnubrögðum stjórnvalda hefði verið hægt að fara aðrar leiðir en ríkisstjórnarflokkarnir lögðu þarna til. Hins vegar blasti við þetta kvöld að yrði ekkert að gert, úr því sem komið var, væri hætt við að aðilar á markaði tækju stöðu á móti krónunni með tilheyrandi gengisfellingu. Því ákváðum við framsóknarmenn að hindra ekki framgang málsins þá um nóttina en vísum ábyrgðinni í þessu máli algjörlega á hendur ríkisstjórninni.
Von okkar er sú að þær heimildir sem SÍ voru veittar umrædda nótt verði lítið sem ekkert notaðar. Ef ástand hafta mun vara í langan tíma er ljóst að erlend fjárfesting hér á landi verður nær engin því hver vill fara með fjármuni inn á markað ef óljóst er hvenær hægt verður að losa um fjárfestinguna? Hætt er við að útflutningsfyrirtæki leiti leiða til að koma sér undan því að flytja allan gjaldeyri sinn hingað heim. Lögin koma jafnvel í veg fyrir að fólk geti selt eignir sínar hérlendis og flutt úr landi. Það verður að auki ekki betur séð en að 6. grein laganna komi í veg fyrir að Íslendingar styrki hjálparstarf erlendis umfram 10 m.kr. á ári. Nema auðvitað að Seðlabankinn veiti undanþágu. Það er ekki fjarri því að sá grunur vakni að hugsanlega sé verið með markvissum hætti að auka völd stjórnmálamanna þannig að hlutirnir verði eins og í gamla daga. Þá ákvörðuðu stjórnmálamenn og flokkar það hverjir fengu gjaldeyri eða húsnæðislán. Það eru stjórnmál gærdagsins.
Það er óneitanlega áhyggjuefni að yfirstjórn Seðlabanka Íslands, sem ekki nýtur almenns trausts hér á landi eða erlendis, sé falið þetta mikla vald.. 90% landsmanna treystir ekki yfirstjórn SÍ og á alþjóðlegum vettvangi heyrast efasemdaraddir um að fyrrverandi stjórnmálamenn eigi að gegna störfum seðlabankastjóra. Seðlabanki Íslands er þrátt fyrir þetta undanþeginn þeim ströngu viðurlögum sem aðrir eru settir undir samkvæmt lögunum auk þess sem hann er einnig undanþeginn stjórnsýslureglum. Er þetta verjandi? Það er ljóst að þó heimild til undanþága frá þessum lögum sé til staðar þá nýtur Seðlabankinn ekki trausts til að vinna eftir þessum reglum. Yfirstjórn Seðlabanka Íslands er jafnt á ábyrgð Samfylkingarinnar sem Sjálfstæðisflokksins sama hvað líður einstaka bókunum sem lekið er af fundum ríkisstjórnarinnar.
Birkir Jón Jónssons, þingmaður Framsóknarflokksins
Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknarflokksins
Grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun
Athugasemdir