Starfsfólk HSF safnar í kvöld undirskriftum gegn fyrirhuguðum niðurskurði
Í kvöld, mánudagskvöld, mun starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar ganga í hús og safna undirskriftum gegn niðurskurðinum á HSF. Samskonar undirskriftum er verið að safna um allt land og á að afhenda þann lista næsta fimmtudag á Austurvelli.
Tillögur ríkisstjórnar um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu hafa fengið landsbyggðina til að rísa úr rekkju og segja „hingað og ekki lengra“. Landsbyggðin hefur þegar fengið nægan skerf af niðurskurði í heilbrigðismálum og ekki má við meiru, tími er til kominn að fólk taki höndum saman og mótmæli átroðningnum sem ekki virðist ætla að stoppa.
Haus undirskriftalistans má lesa hér að neðan en einnig geta lesendur síðunnar sem ekki eru staddir á Siglufirði prentað hausinn út og safnað undirskriftum vina sinna. Listanum má síðan koma á Sigurð Jóhannesson á netfangið sigjo@hssiglo.is en einnig má hafa samband við hann í síma 895-6042.
Íbúar Fjallabyggðar nú segjum við NEI
Við undirritaðir íbúar í Fjallabyggð skorum á ríkisstjórn og Alþingi að hverfa frá þeim mikla niðurskurði á fjárveitingum til Heilbrigðistofnunarinnar Fjallabyggð (HSF) sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlögum. Þessi niðurskurður mun hafa í för með sér verulega skerðingu á grunnheilbrigðisþjónustu íbúa sveitafélagsins.
Ef niðurskurðurinn verður staðreynd munu Landsspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri taka við eftirgreindri almennri sjúkrahúsþjónustu:
- Langflestum deyjandi sjúklingum
- Krabbameinssjúklingum
- Almennum lyflæknissjúklingum s.s. lungnasjúklingum, hjartasjúklingum, sjúklingum með blóðtappa o.fl.
- Langflestum einstaklingum sem eru vistunarmetnir og geta ekki verið heima lengur
- Bæklunarsjúklingarfrá LSH eða SA þurfa verða alla leguna á LSH eða SA
- Langflestum sjúklingum með sýkingar sem þurfa innlögn
- Langflestum sjúklingum með kvíða, þunglyndi og önnur andleg vandamál sem krefjast innlagnar
Hvíldarinnlagnir á HSF munu leggjast af en það hefur í för með sér að aldraðir einstaklingar geta ekki dvalið eins lengi heima og ella. Þar að auki mun HSF hætta að vera sá bakhjarl fyrir heimahjúkrun, heilsugæslu og bráða- og sjúkraþjónustu sem hún hefur verið.
Í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er kveðið á að öllum sé tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli og sambærilegra atvika. Enda segir í lögum um heilbrigðisþjónustu að ÖLLUM landsmönnum sé tryggður réttur til grunnþjónustu í heilbrigðismálum.
Enda teljum við það sjálfsögð mannréttindi að lágmarks sjúkrahúsaþjónusta sé tryggð í Fjallabyggð.
Haus listans má sækja HÉR
Athugasemdir