Styrkjarstuð

Styrkjarstuð Það er kominn tími til að horfa á björtu hliðarnar á styrkja-"gate" íslenskra stjórnmála.Í fyrsta lagi hlýtur það að vera fagnaðarefni að

Fréttir

Styrkjarstuð

Friðrik Jónsson.
Friðrik Jónsson.
Það er kominn tími til að horfa á björtu hliðarnar á styrkja-"gate" íslenskra stjórnmála.

Í fyrsta lagi hlýtur það að vera fagnaðarefni að ofur-styrkirnir til Sjálfstæðisflokksins frá FL-Group og Landsbanka Íslands voru alger undantekning (og settir í samhengi við geðveikina sem var í gangi hjá þeim fyrirtækjum þá námu styrkirnir hvor um sig ekki nema andvirði tveggja Range Rover Vogue Supercharged sem taldist víst ekki mjög merkilegt á þeim bæjunum!).
Í öðru lagi eru viðbrögð allra flokkanna (jafnvel þó manni finnist á stundum sumir vera meira leiðir yfir því að upp um þá komst en yfir að hafa orðið uppvísir að dómgreindarleysi í styrkþægð) hreint ágæt. Fréttin sem setti allt í gang, um ofurstyrk FL-Group til Sjálfstæðisflokksins, birtist síðastliðið þriðjudagskvöld. Fimm dögum síðar, á páskasunnudag, eru allir flokkarnir búnir að opna bókhald sitt yfir stærstu styrki árið 2006. Ber því ekki að fagna?

Í þriðja lagi hljótum við að fagna, og taka a.m.k. að mestu trúanlega, það sem virðist vera þvottekta hneykslan 99.9% sjálfstæðismanna yfir því að tekið var á móti þessum ofurstyrkjum.

Í fjórða lagi er hreint ágætt að núna vilja allir Lilju kveðið hafa hvað varðar setningu laga um fjármál stjórnmálaflokka undir lok árs 2006. Athyglisvert að miðað við heildarstyrkjatölur áranna á undan, sem þó hafa birst, virðast óvenju háir styrkir, eða ofur styrkir, ekki hafa komið til fyrr en lögleiðing takmarkanna lá í loftinu.

Í fimmta lagi er hverjir styrkja hvað óneitanlega athyglisvert. Þegar hefur verið bent á styrki fyrirtækis tengt nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins til Framsóknarflokksins, en athyglisverðara er jafnvel að hin svokallaða S-hóps viðskiptablokk styrkir Samfylkinguna mest allra flokka árið 2006! Sérstaklega er athyglisvert að hinn meinti framsóknarmaður Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, og sem ég veit að er ekki skráður félagsmaður í Framsóknarflokknum, skuli styrkja Samfylkinguna um 3 milljónir í gegnum eignarhaldsfélag sitt Ker ehf. Ker styrkir ekki Framsóknarflokkinn þetta ár, en Samskip veita styrk upp á 1,5 milljón. Samtals eru styrkir S-hóps tengdra fyrirtækja til Samfylkingarinnar 12 milljónir á meðan að styrkir S-hóps tengdra fyrirtækja til Framsóknarflokksins 6,5 milljónir. S-hópurinn var þá réttnefni eftir allt saman!

Í sjötta lagi vekur athygli að engin fyrirtæki tengd Finni Ingólfssyni er þarna að finna á styrktarlista Framsóknarflokksins. Hvorki t.d. VÍS eða Frumherji.

Í áttunda lagi er athyglisvert að innan allra flokka virðist vera ágætis aftenging á milli þeirra sem sjá um fjáröflun fyrir flokkana og þeirra sem leiða hið pólitíska starf, a.m.k. almennt - ef frá eru taldir ofur-styrkir.

Í níunda lagi er það von mín og vissa að atburðir síðustu daga hafi verið ágætis "detox" meðferð fyrir alla flokkanna. Þeir eru núna allir búnir að "laxera" þokkalega vel og hafa án efa lært sína lexíu. Og gleymum ekki að lögin um fjármál stjórnmálaflokka eru nú búin að vera í gildi í rúm tvö ár og var greinlega ekki vanþörf á þeim.

Í tíunda lagi vona ég að á þeim 12 dögum sem eru til kosninga geti allir flokkar snúið sér aftur að því að ræða það sem máli skiptir – framtíðina. Hvernig við endurreisum nýtt og betra Ísland. Um það vil ég fyrst og fremst heyra frá flokkunum og fulltrúum þeirra á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Friðrik Jónsson


Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst