Sykur leiðir ekki til “ofvirkni” en hvað þá?
Staðreyndin er sú að sykurneyslu hefur í gegnum tíðin verið kennt um óvenjulega hegðun ofvirkra barna, afbrotahneigð unglinga og fullorðinna sem lent hafa á glapstigum.
Slíkar ásakanir byggjast á reynslusögum og hafa aldrei verið studdar vísindalegum rökum. Enda er sykur ekki örvandi efni heldur einfaldlega orkugjafi sem samanstendur af tveimur einsykrutegundum sem kallast þrúgusykur og ávaxtasykur.
Ofvirkni
OFVIRKNI Sjúkdómurinn ofvirkni er talinn hrjá um 3 til 5% barna og eru drengir í miklum meirihluta. Í langflestum tilvikum er ofvirkni afleiðing
vefrænna truflana í heilastöðvum. Engin lækning er til en markmið meðferðar er að halda einkennum sjúkdómsins niðri. Meðferðir
sem notast er við felast í ákveðnum uppeldisaðferðum, sálgæslu og lyfjagjöfum.
“OFVIRKNI” SEM EKKI ER SJÚKDÓMSTENGD Börn geta orðið ofvirk fyrir margra hluta sakir:
. Fái þau til dæmis ekki þá athygli er þau þurfa getur afleiðingin orðið hömluleysi. Svefnleysi, sjónvarpsgláp og
hreyfingarleysi getur haft svipuð áhrif.
. Svangt barn er óhamingjusamt barn. Og það er til að mynda margoft búið að sýna fram á það að barn sem sleppir því að
fá sér staðgóðan morgunverð á erfiðara með að halda athygli og stjórna hegðan sinni.
. Kaffín er örvandi efni og getur mikil neysla þess haft örvandi áhrif á barnið. Í hálfum lítra af kóki eru til dæmis um 75
mg af kaffíni. Barn sem vegur 27 kg og drekkur úr tveimur kókdósum hefur þannig neytt álíka mikið (miðað við líkamsþyngd)
af kaffíni og þegar 80 kg maður drekkur átta bolla af kaffi. Aukaverkanir ofneyslu geta lýst sér til dæmis í viðkvæmni, taugaveiklun og
kvíða.
. Skortur á næringarefni/efnum getur haft neikvæð áhrif á hegðun einstaklings. Það efni sem oftast skortir hjá börnum er járn en
járnskortur hefur áhrif á hegðun og hæfileikann til að læra. Barn sem skortir næringarefni getur verið óvenju skapstyggt,
árásargjarnt, fráhrindandi og sorgmætt. Slíkt barn er gjarnan stimplað „ofvirkt“, „þunglynt“ eða
„leiðinlegt“.
. Talið er að viss aukefni í matvælum geti ýtt undir ofvirkni barna, sér í lagi mjög ungra barna, en fylgni hefur fundist á milli
ofvirkniseinkenna og athyglisbrests og neyslu drykkja með aukefnum í. Aukefnin sem um ræðir eru viss litarefni og rotvarnarefnið natríumbensoat.
Að lokum má enginn gleyma því að eðlileg og heilbrigð börn eru oft fyrirferðarmikil og reyna að komast upp með ýmislegt sem ekki fellur
í kramið hjá fullorðnum. Foreldrum (ekki síst ef þeir eru þreyttir og pirraðir) finnst þá stundum að þeir eigi erfiðustu
börn í heimi og reyna að finna hugsanlegar skýringar á óþekkt barnanna. Þá getur sykur verið kjörinn sökudólgur að
þeirra áliti!
Ólafur Sæmundsson, næringarfræðingur
Athugasemdir