Tvö erfið mál á Alþingi

Tvö erfið mál á Alþingi Nú eru til umræðu á Alþingi þau tvö ár sem vitað var að yrðu ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar erfiðustu í upphafi.

Fréttir

Tvö erfið mál á Alþingi

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
Nú eru til umræðu á Alþingi þau tvö ár sem vitað var að yrðu ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar erfiðustu í upphafi. Samfylkingin hefur lengst af verið skipuð harðsnúnu liði ESB-sinna á meðan Vinstri græn hafa verið sá hópur sem staðið hafa sem fastast gegn því að Ísland gengi í þetta umdeilda bandalag evrópuþjóða. Það þykir mörgum undarlegt að tveir flokkar sem hafa svo ólíka stefnu í þessu máli geti staðið að máli sem því sem nú er rætt, þ.e. að sótt verði um aðild að ESB og samningur (náist slíkur) verði svo lagður í dóm þjóðarinnar þegar að því kemur. En kannski er þetta lykilinn að því að um þetta mál skapist eins mikil sátt á meðal þjóðarinnar og mögulegt er að ná. Eða finnst fólki það gæfulegt að einsleitur hópur einarðar ESB-sinna færi einn og óstuddur í slíkar viðræður?Er málum þá ekki betur komið þannig að í því liði séu ákveðnar gagnrýnisraddir sem láta ekki glepjast af lönguninni einni að komast í ríkjasambandið og hafa varan á sér fyrir hönd þjóðarinnar? Þar skiptir aðkoma Vinstri grænna höfuðmáli. Við áskiljum okkur allan rétt til að hætta viðræðum hvenær sem er, sýnist okkur þær vera að leiða okkur í ógöngur. Við áskiljum okkur allan rétt til að fylgja af hörku öllum þeim skilmálum sem við teljum brýnt að ná fram í þessum viðræðum og við munum taka afstöðu til hugsanlegs samnings þegar þar að kemur og berjast gegn honum ef okkur sýnist þess þurfa. Er þetta ekki afstaða sem hver einasti íslendingur þarf að taka og gera upp við sjálfan sig hvort betra er að vera utan eða innan ESB miðað við þær forsendur sem uppi verða að aðildarviðræðum loknum?? Hvað er athugavert við það?
Hitt málið er Icesave og það er af allt öðrum toga. Þar er um að ræða að ganga frá óreiðuskuldum örfárra manna sem stofnað var til á undanförnum örfáum árum undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsókn. Gleymum því ekki að það var undir forystu Davíðs Oddsonar, Geir H. Haarde, Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur sem Landsbanki íslands og fleiri bankar voru gefnir útvöldum vinum flokkanna með skelfilegum afleiðingum. Icesave samningurinn snýst ekki um það að skuldsetja Ísland eins og margir halda. Það er langt síðan það var gert og frá þeim skuldum verður ekki hlaupið. Icesave-samningurinn snýr að því að finna ásættanlega lausn á hrikalega háum skuldum sem Landsbankagengið stofnaði til í nafni Íslands í Bretlandi og Hollandi. Ég hef sannfæringu fyrir því að sú lausn er nú fundinn og það bíður nú Alþingis að afgreiða það með því að samþykkja samninginn.


Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst