Umhverfismál á Siglufirði
Á dögunum dvaldi vinur minn í húsi mínu á Siglufirði. Hann fór á skíði og skoðaði bæinn í logni og sólskini. Þar sem hann er smiður og starfar sem eftirlitsaðili með eignum stórfyrirtækis horfði hann með augum fagmannsins á allt sem fyrir augum bar. Fannst honum mikið til koma um þá uppbyggingu sem hvarvetna blasti við og tók eftir hversu margir bæjarbúar voru að hlúa að húsum sínum. Þó var það eitt sem lá honum mikið á hjarta þegar við hittumst. Hann hafði á göngu eftir hafnarsvæðinu komið að hafnarsvæðinu við nyrstu bryggjuna þ. e. öldubrjótinn og spurði undrandi hvernig á því stæði að þetta liti út eins og einn stór sorphaugur mitt í þessum annars fallega og þrifalega bæ.
Þegar ég kom næst til Siglufjarðar gerði ég mér ferð á staðinn og því miður reyndist þetta allt rétt. Þarna var eitthvað mikið að. Að mínu mati er með öllu óskiljanlegt af hverju umhverfinu er sýnt þetta virðingarleysi sem þarna blasir við og ég tala nú ekki um bæjarbúum sjálfum. Þá er ekki vitað að fjárþröng eigenda þessara lóða sé þessu til afsökunar. Nei það er eitthvað annað að. Ég skora hér með á menn að gera sér ferð og líta á svæðið með augum gestsins. Þá mætti myndatökumaður síðunnar taka myndir af vettvangi og skreyta með þeim þessar aðfinnslur mínar.
Siglufjörður er á allra vörum og menn flykkjast að til að heimsækja staðinn. Það á að vera metnaðarmál allra, en ekki bara sumra, að leggja sitt lóð á vogarskálar í þessu nýja ævintýri. Snyrtimennska skipar þar stóran þátt. Og eitt er víst að eftir því sem hluti bæjarins verður fallegri þeim mun meiri eftirtekt mun sóðaskapurinn vekja.
Ástæða þess að ég ákvað að setja þessar línur á blað var sú að ég horfði í sjónvarpinu á oddvita lista fyrir væntanlegar bæjarstjórnarkosningar. Að því er mig minnir voru allir fulltrúarnir með umhverfismál á dagskrá án þess að gera nánari grein fyrir í hverju slíkt fælist. Það hafa þeir flokkar, sem stýrt hafa bænum undanfarin fjögur ár, væntanlega einnig haft. Miðað við það sem hér hefur verið sagt er hins vegar spurning um hvort stefna sé eitt og efndir annað.
Valtýr Sigurðsson
Athugasemdir