Ungur afreksmaður
Ungur afreksmaður.
Tíðindaritari skellti sér í ræktina í austurbænum, sem er svosem ekki í frásögur færandi. Þar varð á vegi hans ungur maður, alvarlegur á svip, sem vissi greinilega hvað hann var að gera þarna. Setti þannig þyngdir á slárnar að tíðindaritari hélt einna helst að hann væri að gera at í einhverjum. En það var nú ekki aldeilis þannig. Hann skellti sér síðan undir þetta allt saman, og tók að lyfta þessu upp og niður. Pilturinn sem hér um ræðir heitir Óskar Helgi Ingvason, 16 ára gamall, fæddur og uppalinn Ólafsfirðingur og stundar nú nám við náttúrufræðibraut MTR, ásamt því að sitja í Ungmennaráði Fjallabyggðar.
Það er ekki langt síðan hann var á fullu með KF í fótboltanum, en þar var hann að sögn í 7 ár. Síðan datt hann inní kraftlyftingar og þar er hann með áhersluna um þessar mundir.
Aðspurður sagðist Óskar vera búinn að æfa lyftingar í eitt og hálft ár og hefur það nú þegar skilað honum Íslandsmeistaratitli í réttstöðulyftu og óskum við honum til hamingju með þann titil.
Aðspurður, þá sagðist Óskar æfa kraftlyftingarnar í 2 – 3 tíma daglega og væri það lykillinn að hans árangri. En ekki bara það, heldur spilar mataræðið drjúgan þátt í því að ná þeim árangri sem að sé stefnt hverju sinni. Tjáði hann mér að ef hann missti úr æfingu eða ruglaði eitthvað með mataræðið þá færi sá dagur bara í rugl hjá sér, eða þannig.
Einhversstaðar las tíðindaritari þessa frómu setningu: „ekkert verður til af engu“, og þannig er það með Óskar. Foreldrar hans eru Ingvi Óskarsson, vélstjóri með meiru, sem um þessar mundir er staðarstjóri Norðurorku í Ólafsfirði en var þar áður vélstjóri á Mánabergi ÓF 42 til fjölda ára. Móðir hans, Allý Snorradóttir kemur hinsvegar frá Dalvík, dóttir Snorra Snorrasonar útgerðarmanns og frumkvöðuls í úthafsrækjuveiðum.
Það er því ekkert skrítið þegar Óskar segir mér að hugur hans hneigist til sjósóknar. Það yrði samt ansi gaman að geta sameinað þetta áhugamál sitt, kraftlyftingarnar, með vélstjórn í góðu plássi.
Með þessu kveðjum við þennan unga afreksmann og óskum honum alls hins besta í komandi framtíð.
Athugasemdir