Úr einum öfgum í aðrar

Úr einum öfgum í aðrar Okkur íslendingum er ekki alveg sjálfrátt. Eftir að hagkerfið sigldi í strand í kjölfar mestu fjármálakreppu seinni tíma þá ætlum

Fréttir

Úr einum öfgum í aðrar

Hermann Guðmundsson
Hermann Guðmundsson
Okkur íslendingum er ekki alveg sjálfrátt. Eftir að hagkerfið sigldi í strand í kjölfar mestu fjármálakreppu seinni tíma þá ætlum við að spila svo illa úr stöðunni að við bæði dýpkum og lengjum ástandið.

Eftir að tekist hafði að hrekja ríkisstjórnina frá völdum var rokið í kosningar og nýtt fólk kom að stjórn landsins, margir hverjir í fyrsta sinn. Miklar væntingar voru um að nú risu stjórnvöld upp til að verja þá sem minna máttu sín og um leið yrði tekinn slagurinn við erlent ofríki.

Öll vitum við hvernig til hefur tekist.

Þegar horft er framan í stöðu sem stefnir í djúpa kreppu þá má engan tíma missa. Í stað þess að berjast um á hæl og hnakka við að reyna koma sem mestu lífi í atvinnumálin þá hefur sama og ekkert þokast. Það má ekki gleymast að atvinnumálin eru tímafrek og við erum núna að uppskera eins og sáð var í fyrra, sem er eiginlega ekkert og það finnst.

Nú er kominn fram stefna ríkisstjórnarinnar fyrir næstu 12 mánuði, nú eru boðaðar enn frekari skattahækkanir og niðurskurður sem líklega verður meira í orði en á borði. Við höfum þegar séð að auknar álögur á áfengi, tóbak og eldsneyti hafa dregið svo úr neyslu að tekjurnar sem áttu að skila sér sýna sig ekki nema að hluta. Samdrátturinn í hagkerfinu er mikill, hann er alvarlegur og mun kosta fórnir.

Handan við hornið eru kjarasamningar í skugga gríðarlegs atvinnuleysis og ótal glataðra tækifæra.

Það er ekki bara í hagstjórninni sem okkur eru mislagðar hendur, löggjafinn virðist einnig eiga sína spretti. Nú liggur á að breyta lögum um Samkeppniseftirlitið til að færa því áður óþekkt völd. Sjá hér að neðan texta úr frumvarpsdrögum.

Í þessu frumvarpi er hins vegar lagt til að Samkeppniseftirlitinu verði veitt slík rýmri heimild sem gerir því kleift að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að efla samkeppni, þ.m.t. uppskiptingu markaðsráðandi fyrirtækja, án þess að það þurfi að sýna fram á að viðkomandi fyrirtæki hafi gerst brotlegt við bannreglur samkeppnislaga. Rétt er taka hér strax fram að ákvæði EES-samningsins koma ekki í veg fyrir að fyrirhuguð breyting sé lögfest í íslenskan samkeppnisrétt og sem dæmi má nefna að í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi er að finna strangari samkeppnisreglur en í regluverki Evrópusambandsins.

Í þessu nýja frumvarpi er sem sagt gert ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið geti farið inní stór fyrirtæki og hreinlega skipt þeim upp án dóms og laga. Slík uppskipting getur komið til án þess að nein lög hafi verið brotin enda „telji“ SKE að viðkomandi félag „raski“  samkeppni.

Að löggjafinn skuli íhuga að færa framkvæmdavaldinu dómsvald þar sem má skjóta fyrst og spyrja svo er alveg með ólíkindum en kannski í takti við þjóðarsálina sem veit varla sitt rjúkandi ráð.

Að mínu mati er um klárt brot á stjórnarskrá að ræða en ég er reyndar ekki löglærður. Það sem er þó alveg ljóst er að slík heimild mun gera markaðnum ófært að verðmeta fyrirtæki og það er tilgangslaust að skrá fyrirtæki á markað vegna þeirrar áhættu sem slík heimild skapar.  

Í stjórnmálalífinu þá er ljóst að mikil gjá er á milli fjórflokksins og stórs hluta borgarbúa. Þegar þetta er ritað þá virðist sem að stór hluti borgarbúa telji það mátulegt á fjórflokkinn að kjósa frekar framboð grínista en stjórnmálaflokka.

Auðvelt er að skilja þær hugsanir sem knýja á um þetta en hitt virðist gleymast að grínið verður á kostnað kjósenda en ekki flokkanna. Það getur ekki verið heillaskref að skipta út fólki sem bæði kann og getur rekið borgina fyrir fólk sem segist ekki hafa neina stefnu fyrir borgina. Að reka stórfyrirtæki eða stórt sveitarfélag er mikið alvörumál og árangurinn af slíkri vinnu tekur mörg ár að koma í ljós.

Ef að grínið nær alla leið þá munu kjósendur í Reykjavík ekki vita fyrr en um seinan hvort að tjónið verður mikið eða meira.

Að lokum er rétt að rýna örlítið í þann málaflokk sem kostar skattgreiðendur mest.

Heilbrigðisþjónusta hófst sem einkarekstur þegar læknar, ljósmæður og hjúkrunarkonur fóru hús úr húsi og sinntu þeim sem á þurftu að halda gegn gjaldi. Á síðari árum var talið mikilvægt að slík þjónusta væri kostuð af samfélaginu sameiginlega til að allir gætu notið hennar.

Nú eru öfgarnar slíkar að helst á að banna einkarekna heilbrigðisþjónustu bara til öryggis.

Getum við verið á meiri villugötum?


Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst