VEGLEG AFMÆLISGJÖF TIL SKÓGRÆKTARFÉLAGS SIGLUFJARÐAR
Á fundi bæjarráðs í gær, 14. júlí, var tekið fyrir erindi frá Skógræktarfélagi Siglufjarðar og Skógræktarfélagi Íslands vegna formlegrar opnunar skógarins í Skarðdal á Siglufirði í tengslum við verkefnið "Opinn skógur". Þann 14. ágúst nk. er fyrirhuguð athöfn tengt þessu verkefni og um leið verður fagnað 75 ára afmæli Skógræktarfélags Siglufjarðar.
Erindi skógræktarfélaganna var í þremur liðum og lagði bæjarstjóri Fjallabyggðar fram tillögur við hvern þeirra sem voru eftirfarandi:
1. Vinnuflokkur frá Skógræktarfélagi Íslands verður að störfum í skóginum í tvær vikur og óskað er eftir liðsinni að hýsa hann og fæða.
Tillaga: Bæjarsjóður styrkir Skógræktarfélag Siglufjarðar um 200 þús. kr. vegna þessa verkefnis.
2. Óskað er eftir lagfæringu tengivegar og bílastæðis.
Tillaga:
a) Bæjarstjóri hefur haft samband við Vegagerðina um nýtt rimlahlið og lagfæringu á tengingu við Skarðdalsveg. Sótt verður um fjármuni til verkefnisins í haust og verður það framkvæmt á næsta ári, ef fjárveiting fæst samþykkt.
b) Ósk er um að fjölga þurfi bílastæðum innan afgirts svæðis Skógræktarfélagsins.
Tillaga:
Bæjarráð veitir 1.5 mkr. til verkefnisins, sem verður framkvæmt af Fjallabyggð og færist sem afmælisgjöf bæjarfélagsins til Skógræktarfélagsins.
3. Óskað er eftir þátttöku bæjarfélagsins í afmælishátíðarhöldunum þann 14. ágúst kl. 14.00.
Tillaga:
Lagt er til að bæjarráð styrki kostnað við hátíðarhöldin um 200 þús. kr.
Bæjarráð samþykkti tillögur bæjarstjóra en lögð var áhersla á að sótt verði um styrki á auglýstum umsóknartíma.
Um verkefnið Opinn skógur má lesa um á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands, www.skog.is en þar stendur m.a. "að markmiðið með verkefninu er að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir, sem eru í umsjón skógræktarfélaga. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi verði til fyrirmyndar og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu, svo að almenningur geti nýtt sér Opin skóg til áningar, útivistar og heilsubótar".
Frétt tekin frá heimasíðu Fjallabyggðar
Athugasemdir