Vettvangsferð til Tequila
Í síðustu viku heimsóttum við þennan
skemmtilega bæ. Erindi okkar var ekki að njóta þeirra veiga sem þar voru í boði
heldur að kanna stöðuna á framleiðslu á húsgögnum fyrir Hannes Boy Cafe.
Öll húsgögn veitingastaðarins eru sérsmíðuð hjá litlu smíðaverkstæði í Tequila. Verkstæðið er í eigu ungs frumkvöðuls Alejandro Avila Torres. Þessi ungi maður hefur hannað og þróað húsgögn sem framleidd eru úr notuðum tequilatunnum. Tequila tunnurnar eru eikartunnur sem svipar mjög til gömlu síldartunnanna sem notaðar voru á gullaldar árum Siglufjarðar. Verkstæðið er lítið í ófullkomnu húsnæði og aðeins að hluta undir þaki. Að jafnaði vinna fimm manns þar. Samningurinn við Rauðku ehf er sá stærsti sem hann hefur gert. Tvöfalda þurfi í starfsliðinu til að ná að skila pöntuninni á tíma. Allt bendir til að húsgögnin verði komin á sinn stað i Hannes Boy Cafe seinnipartinn í maí.
Það var ekki síður skemmtilegt að heimsækja litla tunnuverksmiðju í sama bæ. Þar voru gamlar tequilatunnur teknar í sundur og úr efninu smíðar minni tunnur og drykkjarkönnur sem siðan eru seldar ferðamönnum. Lyktin og að sjá tunnusmiði við vinnu sína minnti manna á tunnuverksmiðjuna sem starfrækt var á Siglufirði hér á árum áður.
Róbert Guðfinnsson
Athugasemdir