Viðtal við ungan íbúðarkaupanda.
Þegar tíðindaritari mætti til vinnu í gærmorgun, munaði minnstu að hann yrði hlaupinn niður af ungri mær sem var að ljúka sinni næturvakt á Sigló-hótel. Sagðist hún þurfa að drífa sig því rútan, sem færi í austurbæinn, væri alveg að koma.
Það var því ekki annað að gera en að hlaupa með henni út stéttina og ná smá spjalli við hana meðan beðið var eftir að Einar kæmi á rútunni.
Hér var á ferðinni Gunnlaug Helga, tvítug að aldri. Að loknu stúdentsprófi frá MA þá dreif hún sig til Austurríkis og lauk þar prófi sem skíðkennari. Starfaði hún þar í landi við þá iðju fram á síðasta vor að hún kom aftur heim. Hafði hún þá fjárfest í íbúð í Ólafsfirði sem beið þess að verða „standsett“. Aðspurð hvers vegna hún hafi keypt íbúð í Ólafsfirði, sagði hún að þar væri bara æðislegt að búa. Ekki skemmdi fyrir að kaupverð á húsnæði hafi verið langt undir öllu landsmeðaltali þannig að þar væri bara tækifæri og góður fjárfestingarkostur. Svo spillti ekki fyrir að gott væri að losna frá „gamla settinu“.
Hún hefði til dæmis getað málað bæði eldhúsinnréttinguna og skápana í svefnherbergjunum í þeim litum sem henni fannst smart. „Þau hefðu sko aldrei samþykkt það, ef þau hefðu átt að ráða einhverju um það“.
Með það var Einar mættur, Gulla prílaði upp í rútuna til hans og rúllaði af stað heim. Kunnum við henni bestu þakkir fyrir spjallið.
Athugasemdir