Vilhjálmur Egilsson: Þriðja hrunið?

Vilhjálmur Egilsson: Þriðja hrunið? Nú eru að verða liðin tvö ár frá bankahruninu á Íslandi og því rétt að spyrja hvernig hafi gengið að komast yfir

Fréttir

Vilhjálmur Egilsson: Þriðja hrunið?

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson
Nú eru að verða liðin tvö ár frá bankahruninu á Íslandi og því rétt að spyrja hvernig hafi gengið að komast yfir áfallið og endurheimta atvinnu og lífskjör þjóðarinnar. Býsna hægt hefur gengið að vinna úr mörgum málum, s.s. skuldamálum heimila og fyrirtækja og nýju bankarnir eru ekki ennþá komnir í jafnvægi. Dómsmál vegna hrunsins eru rétt að komast á dagskrá.Ríkissjóður fékk stóran skuldabagga og vaxtareikning í fangið við hrunið sem, ásamt tekjufalli vegna minni atvinnu og umsvifa, hefur kallað á mikinn samdrátt í útgjöldum og skattahækkanir.

Ýmislegt hefur þó gengið betur en reiknað var með. Upphaflegar spár um 10% samdrátt landsframleiðslu á síðasta ári gengu ekki eftir heldur lækkaði hún um 6,7% samkvæmt nýjustu áætlunum Hagstofunnar. Störf á fyrri hluta þessa árs voru álíka mörg og á fyrri hluta árs 2009 og skráð atvinnuleysi hefur verið minna síðustu fjóra mánuði en á sama tíma á síðasta ári. Ný áætlun Hagstofunnar um 7,3% samdrátt landsframleiðslu á fyrri hluta þessa árs m.v. sama tíma á síðasta ári ríma ekki við þróun vinnumarkaðarins.

Vinnumarkaðurinn hefur þannig virst tilbúinn til þess að komast upp úr kreppunni og halda fram á veginn. Fyrirtæki hafa verið viljugri en áður til að ráða fólk í vinnu, atvinnuauglýsingum hefur fjölgað og sífellt fleiri fyrirtæki kvarta undan því að fá ekki það starfsfólk sem óskað er eftir. Atvinnuleysið er þó enn alltof mikið og nauðsynlegt fleiri störf skapist í atvinnulífinu.

Margt bendir til þess að vilji sé til þess í atvinnulífinu að fjárfesta af mun meiri krafti en áður og að sú þróun sé reyndar hafin hjá þeim fyrirtækjum sem ekki voru mikið skuldsett við hrunið. Ýmsar mikilvægar hindranir eru þó í vegi fjárfestinga, s.s. of háir vextir, gjaldeyrishöft, axarsköft stjórnvalda í skattamálum atvinnulífsins og endalausar pólitískar flugeldasýningar. Allt þetta hamlar gegn fjárfestingum í atvinnulífinu en þær eru lykillinn að því að komast upp úr kreppunni og endurheimta atvinnu og lífskjör.

Mikil óvissa er ennþá í kringum fjármálakerfið og ekki útilokað að annað hrun verði. Nú er látið reyna á ýmsa gerninga fyrir dómstólum sem snúa að neyðarlögunum og ESA er að skoða mál eins og kaup á skuldabréfum út úr peningamarkaðssjóðum. Síðast en ekki síst hefur dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengisbundinna lána í krónum sett strik í reikninginn. Ef allt fer á versta veg fyrir fjármálafyrirtækin verða höggvin þung skörð í eignasöfn þeirra, sem ekki eru öll beysin fyrir, og það getur auðveldlega þurrkað upp eigið fé þeirra og gott betur.

Þriðja hrunið er ennfremur raunhæfur möguleiki en það gæti gert sjálft ríkið gjaldþrota. Alþingi mun innan tíðar taka ákvörðun um hvort sækja eigi nokkra ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem sat í aðdraganda bankahrunsins, til saka fyrir vanrækslu og draga þá fyrir landsdóm. Vandséð er hvernig hægt er að sakfella þetta fólk fyrir vanrækslu án þess að ríkið sjálft verði þá bótaskylt vegna afleiðinga meintra misgjörða þeirra.

Íslenska ríkið hefur í ótal tilvikum verið dæmt bótaskylt vegna þess sem úrskeiðis hefur farið í stjórnarframkvæmd eða stjórnsýslu. Þegar ráðherra, embættismanni eða starfsmanni opinberrar stofnunar hefur orðið á í messunni hefur það iðulega skapað bótaskylt tjón. Því er afar hæpið að ganga út frá að því að ríkið sé ekki ábyrgt ef saknæm vanræksla ráðherra hefur valdið öllu því mikla tjóni sem varð við bankahrunið.

Nú má vera að einhver mikil réttlætisþörf búi að baki áformum um að hafa æru af einhverjum ráðherrum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. En spurningin er hvort þjóðin hafi efni á slíku réttlæti? Er það ekki hún sjálf sem hlýtur þá mestu refsinguna með hugsanlegu gjaldþroti ríkisins? Hljóma þá ekki orð Jóns Hreggviðssonar kunnuglega? „Vont var þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti"

Á örlagatímum í sögu þjóða hafa fyrri stjórnvöld fengið ýmis málagjöld og án efa oft maklega. Ný ríki hafa verið stofnuð á rústum þeirra sem fallið hafa og tengsl við hið liðna hafa verið rofin. Þar er ekki víst að málaferli og dómar yfir stjórnmálamönnum sem horfnir eru af sviðinu sé farsæl leið fyrir íslensku þjóðina. Nær væri að líta til þeirra þjóða sem farið hafa leið sátta og samstöðu til að gera upp sín erfiðu mál. Íslenska ríkið getur ekki skipt um kennitölu og er ábyrgt fyrir því sem gerðist að svo miklu leyti sem ábyrgðin verður heimfærð á saknæma háttsemi forystumanna þess.

Alþingismenn þurfa að sjást fyrir í störfum sínum. Það er ekki ráðlegt að svala pólitískum hefndarþorsta sínum með því að setja framtíð ríkisins í óvissu. Því menningarbyltingarkennda ástandi sem ríkt hefur þarf að linna. Þjóðin þarf að komast upp úr kreppunni og endurheimta atvinnu og lífskjör sín. Það er best gert með því að eyða kröftunum í að horfa til framtíðar og byggja upp en ekki að búa til nýjar klyfjar. Það þarf að hætta að slátra köttum en fara á fullt í að veiða mýs.

 
Vilhjálmur Egilsson 

framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.



Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst