Vinna hefst á ný við golfvöllinn og útivistarsvæðið í Hólsdal

Vinna hefst á ný við golfvöllinn og útivistarsvæðið í Hólsdal Framkvæmdir á vegum Leyningsáss eru nú að hefjast á ný í Hólsdal. Til stóð að hefjast handa

Fréttir

Vinna hefst á ný við golfvöllinn og útivistarsvæðið í Hólsdal

Masterplan golfvallar - Edwin Roald
Masterplan golfvallar - Edwin Roald


Framkvæmdir á vegum Leyningsáss eru nú að hefjast á ný í Hólsdal. Til stóð að hefjast handa um miðjan maí en eins og bæjarbúar vita er Hólsdalurinn nýkominn undan snjó.

Þessar tafir á verkinu koma sér afar illa enda bætast þær við tafir sem urðu vegna úrkomutíðar sl. haust. Mikil áhersla verður þó lögð á að ljúka jarðvegsvinnu þannig að unnt verði að sá í allan völlinn í sumar sem er forsenda þess að unnt verði að opna hann 2015. Þá verður samhliða þessari vinnu unnið við umfangsmikið vökvunarkerfi vallarins sem verður að mestu leyti sjálfvirkt. Ný brú yfir Leyningsá upp við skógræktina verður svo byggð innan skamms í stað ræsis sem nú er.
Vonandi er þess ekki langt að bíða þar til Hólsdalurinn verður iðagrænn og að framkvæmdin fari að taka á sig þá mynd alhliða útivistarsvæðis sem stefnt er að öllum bæjarbúum til ánægju.

Um þessa framkvæmd má segja að hún hafi gengið mjög vel þegar haft er í huga hversu stuttan tíma vinna hefur staðið yfir í raun, en jarðvinna hefur aðeins staðið yfir í tvo og hálfan mánuð. Kemur þar fyrst og fremst til góð undirbúningsvinna golfklúbbsins, frábærir verktakar og viðvera hönnuðar vallarins Edwins Roald á staðnum, en stöðugt hefur þurft að aðlaga verkið að aðstæðum sem upp hafa komið. Til dæmis var ráðist í breytingar á deiliskipulagi til að koma til móts við óskir skógræktarfólks, en skipulagið gerði ráð fyrir að innkeyrsla að bílastæði golfvallarins lægi í gegnum hlið skógræktarinnar og síðan gegnum trjálund neðan vegar. Skógræktarfélagið sætti sig illa við þessa útfærslu og gátu forsvarsmenn Leyningsáss á margan hátt tekið undir þau rök. Unnt var að leysa þetta með því að land Grafargerðis, sem var í einkaeign, fékkst auk þess sem samþykki Vegagerðarinnar og Fjallabyggðar var fengið fyrir sérstakri innkeyrslu inn á bílastæði beint af Skarðsvegi. Í kjölfarið var deiliskipulaginu breytt auk þess sem um leið var hannað æfingasvæði á hinu nýja landi sem samkvæmt upphaflegri áætlun átti að vera á gamla golfvellinum. Með þessu móti losnar um meira land austan Hólsár til annarra nota en golfiðkunar. Á meðfylgjandi teikningu má sjá hvernig svæðið kemur til með að líta út að framkvæmdum loknum.

Framkvæmdir í Hólsdalnum hafa til þessa kostað rúmar 50 milljónir króna sem ætla má að séu rétt tæplega helmingur af heildarkostnaði verksins. Þá er klúbbhús ekki tekið með í reikninginn en þar er um sérstaka framkvæmd að ræða sem ekki var inni í samkomulagi Leyningsáss. Hins vegar er þegar farið að huga að byggingu sem getur gengt hlutverki einskonar þjónustuhúss, ekki aðeins fyrir golf heldur einnig fyrir aðra útivist í Hólsdal en víst er að áhersla verður lögð á að sú bygging verði umhverfinu til sóma.

Texti. Valtýr Sigurðsson form.


Athugasemdir

27.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst