Vinnur hvatningaverðlaun fyrir beitu úr Kúfskel
Í lok mars fóru Daði Steinn Björgvinsson og Guðný Kristinsdóttir til Akureyrar til að taka þátt í Atvinnu og nýsköpunarhelgi í Háskólanu á Akureyri þar sem þau unnu hörðum höndum að því að láta hugmynd Daða Steins um þorsk og krabbabeitu unna úr Kúfskel verða að veruleika.
Að mörgu þurfti að huga á stuttum tíma eins og hvernig framleiðsluferlið á beitunni verður, hugsanlegt húsnæði, finna réttan markað fyrir vöruna og gerð kostnaðaráætlunar svo eitthvað sé nefnt.
Á staðnum voru leiðbeinendur til að aðstoða ef spurningar vöknuðu og voru þau svo heppin að vinna við hlið nemum (Orra Filippussyni og Þórhildi Eddu Eiríksdóttur) í sjávarútvegsfræði og líftækni og spunnust út úr því ansi skemmtilegar pælingar og hugmyndir um frekara samstarf í framtíðinni. En þess má geta að Orri og Þórhildur unnu til Háskólaverðlauna með hugmynd sína um áframeldi á Ígulkerum á Hjalteyri.
Verkefni Daða hlaut mikla athygli og fannst mörgum mjög áhugavert hvernig vinnsluaðferðin verður en með henni næst 100% nýting á Kúfskelinni. Og að sjálfsögðu er stefnt að því að hafa hana 100% náttúrulega svo beitan mengi ekki haf okkar og land. Svo sparar þetta auðvitað hundruði milljóna í innflutningi þar sem stór hluti af beitunni sem notuð er í dag kemur úr Kyrrahafinu.
Á sunnudaginn flutti Daði Steinn svo lokaerindið sitt fyrir dómnefnd þar sem hann vann til hvatningarverðlauna.
Athugasemdir