Héðinsfjörður

Héðinsfjörður Héðinsfjörður er tæplega 6 km langur eyðifjörður nyrst á Tröllaskaga sem lengi var einangraður. Með tilkomu Héðinsfjarðarganga tengir

Héðinsfjörður

Héðinsfjörður. Mynd tekin af www.bradtguides.com
Héðinsfjörður. Mynd tekin af www.bradtguides.com

Héðinsfjörður er tæplega 6 km langur eyðifjörður nyrst á Tröllaskaga sem lengi var einangraður. Með tilkomu Héðinsfjarðarganga tengir fjörðurinn nú Ólafsfjörð og Siglufjörð með tvískiptum jarðgöngum. Héðinsfjarðargöng eru stærsta verkefni sem Vegagerðin hefur boðið út, þau eru 3,9 km og 7,1 km að lengd. Vegalengdin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar er í heild um 15 km.
Fyrir botni fjarðarins er ágætt veiðivatn, Héðinsfjarðarvatn. Inn af fjarðarbotninum er 5-6 km langur dalur. Stórt silungsvatn prýðir dalinn, 3 metra yfir sjávarmáli. Mikið dýralíf er við vatnið og síðla sumars gengur vatnableikja og mikil sjóbleikja í það. Tilvalið er að ganga um fjörðinn og njóta fegurðarinnar sem þar blasir við.

Byggð lagðist af í firðinum árið 1951, þar er jafnan snjóþungt og oft urðu þar mannskaðar vegna snjóflóða.

Mannskæðasta flugslys á Íslandi varð í Héðinsfirði þann 29. maí árið 1947 þegar flugvél Flugfélags Íslands flaug á utanvert Hestfjall. Fórust allir 25 sem í vélinni voru, 21 farþegi og fjögurra manna áhöfn.


22.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.