Á hestbaki um Tröllaskaga
Á Sauðanesi við Siglufjörð búa þau hjónin Herdís Erlendsdóttir og Jón Trausti Traustason ásamt þremur börnum og tveimur fósturbörnum.
þar á bæ er blandaður búskapur með um 280 kindur, slatta af öndum, hænur, geitur, tvo hunda og ekki síst eru þar 23 hestar.
Herdís og dætur þeirra Jóns þær Jódís Ósk og Hulda Ellý reka saman hestaleiguna Fjallahesta. Herdís hóf að prufa sig áfram með hestaleigu 1997 - 1998 sem gekk vel og fékk hún góða reynslu þá en varð frá að hverfa vegna barneigna. Er dæturnar voru komnar á legg ákvað hún að halda áfram þar sem frá var horfið og hefja hestaleigu á ný ásamt dætrunum.
Herdís Erlendsdóttir með einn gæðinginn
Hestaleigan Fjallahestar hefur upp á að bjóða um 14 gæðinga sem er hægt að leigja út jafnt fyrir óvana sem og vana hestamenn. Vandaður útbúnaður er í boði fyrir viðskiptavini eins og hjálmar, reiðtygi, flugnanet og hnakkatöskur fyrir lengri ferðir. Gaman er að geta þess að Herdís gerir við reiðtygin sjálf ef á þarf að halda. Lærði hún þau vinnubrögð af söðlasmið er hún var við nám í Landbúnaðarháskólanum að Hólum í Hjaltadal.
Bóndinn Jón Trausti að renna í hlað eftir heyskapinn
Í boði eru mismunnandi ferðir á Tröllaskaga allt frá einum klukkutíma upp í fjögurra daga ferðir. Herdís lýsir fegurð fjallaleiðanna með mikilli innlifun sem gerir það að verkum að undirritaðri langar virkilega til að fara í reiðtúr sem allra fyrst með myndavélina. Góðar lýsingar á mismunandi ferðaleiðum eru á heimasíðu Fjallhesta. Einnig hefur Herdís boðið ungmennum í Fjallabyggð upp á reiðnámskeið sem haldin hafa verið á Siglufirði og á Sauðanesi fyrir lengra komna reiðmenn. Reiðnámskeiðin hafa veitt Herdísi mikla ánægju, sérstaklega að sjá örar framfarir ungra reiðmanna.
Hefur sumarið gengið vel hjá þeim mæðgum, er markaðssetning og góðar umsagnir frá ánægðum viðskiptavinum að skila sér vel sem gerir þær bjartsýnar á áframhaldið.
Heimasætan Jódís Ósk að taka veðrið fyrir Veðurstofu Íslands. Veðrið þarf að taka sjö sinnum á
sólahring
Á Sauðanesi er einnig starfsrækt veðurathugunarstöð þar sem heimamenn verða að taka veðurmælingar og senda suður til Veðurstofu Íslands sjö sinnum á sólahring ásamt almennri veðurlýsingu. Sauðanesviti lýsir einnig sjófarendum og hugsa þau hjónin um almennt viðhald á honum.
Árið 2006 byrjuðu Herdís og Jón að taka að sér unglinga til heils árs dvalar á Sauðanesi. Þetta eru unglingar sem þurfa að komast úr sínu hefðbundna umhverfi og dvelja á Sauðanesi í 2 - 3 ár. Markmiðið er að þau fari ekki fyrr en að grunnskóla loknum og hafa allir fjölskyldumeðlimir tekið höndum saman um þetta krefjandi verkefni.
Dætur og fóstursynir Sauðaneshjóna í kvödsólinni
Eru nú á Sauðanesi fimm ungmenni. Börn þeirra Herdísar og Jóns eru Hannibal Páll, Jódís Ósk og Hulda Ellý ásamt fóstursonunum Óðni Þór og Daníel Erni. Gengur sambýlið vel hjá þeim, þar sem höfð er hæfileg blanda við leik, störf og hreyfingardögum sem þau taka öll þátt í.
Sauðanes er myndarbýli þar sem samhent fjölskylda vinnur vel saman að nútíma búskap.
Hannibal Páll búinn að vinna hörðum höndum þennan daginn við að heyja
Nóg er að kalla bra-bra svo endurnar flykkist að með von um brauðmola
Heyja þarf um 500 heyrúllur ofan í búfénaðinn. Hver heyrúlla vegur um 300-400 kg.
Fagurt er á Sauðanesi á ágústkvöldi
Myndir og texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Athugasemdir