SAMFÉLAGSÞÁTTTAKA!

SAMFÉLAGSÞÁTTTAKA! Mig langar að segja ykkur frá einhverju stórkostlegu, einhverju sem fyrir fjórum árum var, leyndarmál og bara svona lítil hugmynd, en

Fréttir

SAMFÉLAGSÞÁTTTAKA!

Aðaheiður Sigríður Eysteinsdóttir
Aðaheiður Sigríður Eysteinsdóttir

Mig langar að segja ykkur frá svolitlu stórkostlegu, einhverju sem fyrir fjórum árum var leyndarmál og lítil hugmynd, en einnig spurning um að þora að kasta sér út í hið óþekkta og sjá svo bara til.

Eru sumir virkari en aðrir í að taka þátt í því samfélagi sem þeir búa í ? Spyr ég!

Já, einhvern veginn er það þannig og verður ávalt.

Flestir borga sinn skatt og kjósa og láta það duga sem framlag sitt til bæjarmála. Aðrir kaupa félagsmiðstöð og vinna síðan fyrir 0 kr. við að kynna bæinn fyrir ungu fólki frá öllum heimshornum.

Ég hitti Aðalheiði Eysteinsdóttur (Öllu Siggu) á Sigló fyrir fjórum árum, við vorum að tala um heimþrá og ást okkar á þessum fallega firði. Hún hvíslaði að mér: Leyndó! ég er að vinna í því að kaupa Alþýðuhúsið svo ég geti verið hér meira. "Vá sagði ég, ertu að safna félagsheimilum? þú átt jú eitt fyrir inn í Eyjafirði." 

Þarna var eitthvað nýtt að fæðast og hugmynd um einhverskonar framtíð. Rétt eins og með Síldarminjasafnið í upphafi, höfðu ekki margir trú að þessu heldur.


Aðstandendur REITA:

Aðalheiður Eysteinsdóttir matráðskona, Arnar Ómarsson framkvæmadastjóri, (sonur Öllu) og Ari Marteinnson verkstjóri hugmyndasmiðjunnar REITIR 2014 

Man þá tíð þegar ég var ráðinn sem fyrsti ferðamálafulltrúi bæjarins sumarið 1996, þá var ekki óvanalegt að heyra á bæjarlínunni: "Til hvers að vera að safna þessu drasli, kostar bara peninga og er ekki betra að kveikja bara í þessu öllu?" "Eða, við hvað ert þú eiginlega að vinna?
Færðu borgað fyrir að kjafta við einhverja túrhesta?"

Skiljanleg viðbrögð við nýjungum, eftir tvo áratugi af rotnandi og grotnandi brökkum og bryggjum.

Einnig eru það leifar frá hinu framleiðslustýrða samfélagi þar sem augljóst var að ef við förum á sjó og veiðum fisk, skerum af honum hausinn, slægjum og flökum þá að sjálfsögðu eykst sölu verðmætið.

Menning og ferðamennska gefur oftast af sér hagnað á annan hátt. 

Það eru oftar en ekki listamenn, rithöfundar, skáld og aðrir skrítnir karakterar í samfélaginu sem í krísunni og volæðinu fá okkur að sjá lífið og tilveruna í nýju ljósi.

Sýna fram á að til sé plan B þegar að plan A er hrunið, týnt og tröllum gefið.

Siglufjörður hefur alltaf verið fullur af "sérkennilegum snillingum" á öllum sviðum.
Hér og bara hér var hægt að þéna árslaun á nokkrum sumarmánuðum og síðan yfir veturinn gátu listamennirnir stundað sína listgrein af lífi og sál. 

Hér er líka eitthvað sem hægt er að kalla "Siglfirskan andan" eitthvað sem lýsir sér í sterkum framkvæmdar- og framfaravilja sem kemur fram í orðum eins og:

"Eftir hverju erum við að bíða, gerum þetta bara sjálf og drífum í þessu."

Andi síldarárana ræður hér enn ríkjum og ef okkur mistekst rísum við upp aftur eins og síldarkóngarnir í denn sem fóru á hausinn hvað eftir annað en byrjuðu upp á nýtt, stoltir og beinir í baki.


Arnar Ómarsson þreyttur eftir 10 daga törn,
"en við gerum þetta allt aftur næsta sumar, þetta er svo hrikalega gaman"

Plan B: hefur nú þegar verið lengi í gangi og þú ert hluti af því, þú varst bara aldrei spurður? Viltu vera með ?

Einkennismerki hins góða krafts í menningu og listum sem og í ferðamennskunni eru þessu ótrúlegu "SPIN OFF" dæmi. Þ.e.a.s. eitt gefur annað, eitthvað óstöðvandi byrjar að rúlla og lifa sínu eigin lífi. Engin spyr og engin er spurður.

En svo verður maður stundum var við þennan skrítna gamla hugsunarhátt:

"Æ, þetta er ekkert fyrir mig, er þetta ekki bara fyrir ferðamenn eða einverja mennta og listasnobbara að sunnan?"

Halló! Hvernig getur maður haldið uppi svona hugsunarhætti?

Í þessum bæ hanga ekki fullt af einhverjum óskiljanlegum abstrakt listaverkum upp um alla veggi. Sem bara hámenntaðir listasérfræðingar geta túlkað:

"Hmm, já, þetta er líklega grár blóðugur köttur sem er búinn að flækja sig í gaddavír."

Nei. Hér er bara haldið  á lofti minningum um listir og vinnu alþýðu þessa lands.

Við erum með Síldarminjasafn um síldarsögu og baráttu verkafólksins. 

Ljósmyndasafn með fleiri hundruð þúsund myndum af okkur bæjarbúum. Heimildum af vernjulegu fólki, lífi þeirra og draumum.

Þjóðlagasetur og þjóðlagahátíð með lögum, ljóðum og rímum alþýðufólks.

Ljóðasetur með ljóðum almennings sem enginn varð ríkur á að semja.

Síldarævintýri og Pæjumót þar sem allt er framleitt hér og af venjulegum bæjarbúum.

Herhúsið, sem bíður listamenn alls staðar að úr heiminum velkomna til sköpunar hér og margt fleira sem er verið að gera út um allan bæ.

Blessuð sé minningin um þrjóskuna í manninum sem gaf og okkur Skógræktina.
Takk, Jóhann Þorvaldsson, við sjáum fegurðina í þessu núna. 

Síðan kemur Róbert Guðfinnsson með sitt framlag, Rauðku, gólfvöll, útivistarsvæði, betra skíðasvæði og skála, Hótel Sunnu og fl.

Listagallerí eru út um allan bæ. Eitt af þeim rekur Alla Sigga í Alþýðuhúsinu. Hún býr til skúlptúra úr spýtum, skapar alþýðuna eins og t.d bændur með sauðfé og ömmu Fríðu með harmonikku og fl.

Reitir 2014
Reiðhjól tengt við þvottavél, hrærum öllu saman og sjáum hvað gerist. 

Þetta er fyrir okkur öll, allt saman fullkomlega aðgengislegt fyrir hver sem vill vera með og njóta með okkur!

Hitti Róbert Guðfinnsson í gær svo stressaðan og hann vissi ekki hvort hann var að koma eða fara, en hann náði að hrópa út um bílgluggann:

"Úff, erfitt að vera svona kapítalisti, bara helv...PUÐ! Verð að fara að hætta þessu..."

Í guðanna bænum Róbert, taktu pásu en ekki hætta. Endilega komdu og njóttu með okkur af öllu þessu góða sem er að gerast hér.

Svo ég gleymi nú ekki REITIR í þessu svamli af orðum, vil ég passa upp á að leiðrétta þann misskilnig að það sé bara enn eitt lista dæmið. Þetta er sko miklu meira en svo.
Þetta er alþjóðleg vinnustofa um samvinnu með hugmyndafræði sem byggir á þeim krafti sem kemur í að blanda saman ólíku fólki, menningarstraumum, menntun o.s.f.v.  

Það sem við bæjarbúar höfum ekki alveg áttað okkur á er að þeirra verkefni er að kynna sér sögu, lífshætti, leyndarmál og drauma Siglfirðinga.


Höfundar myndbandsverksins 1%, alsæl með kveðjugjöf frá Ásdísi Gunnlaugsdóttur í Gallerí Sigló. (Lyklakippa með gamla bæjarmerkinu okkar)

Í ár unnu þau að því að spegla okkur með sinni upplifun og setja það upp í ólíku formi.  T.d. lifandi sögukorti í snjallsíma, 1 % = 12 Siglfirðingar (vídeó um tólf venjulega bæjarbúa). Draslkaffi var opnað við Öldubrjót og svona gæti ég lengi talið. 

Þarna voru á ferð 25 ótrúlega skemmtileg ungmenni sem tóku þátt í Reitum í ár.  þau grétu þegar þau fóru og skildu við mömmu Öllu sem eldaði mat alla daga og skipaði fyrir með sleif í annari hendi og pott í hinni.

Þau táruðust líka yfir að vera að fara úr þessum yndislega bæ og frá öllu þessu hjálpsama fólki sem býr hér. Þau upplifðu okkar sönnu bæjarsál.

Allt það upp er talið hér á undan verður til staðar á næsta ári og meira til.

Ég vænti mér þess kæri Siglfirðingur að þú gerist virkur samfélagsþátttakandi og verðir með í þessu öllu. Njótið heil!

"Vertu til því vorið kallar á þig........."

Meira um REITI hér:  Reitir.com (enska)

                                  Grein um REITI 2014


                                  Skemmtilegt stutt myndband Reitir 2014

                                  Draslkaffi opnar á Sigló

Myndir og Texti:
NB 


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst