Alþingismaður í þrifum!

Alþingismaður í þrifum! Þurfti að bregða mér til Ólafsfjarðar í gær því hér í bæ voru hvergi til rófur. Það er ekki hægt að bjóða 25 manns upp á

Fréttir

Alþingismaður í þrifum!

Alþingiskonan Bjarkey stendur í stórþrifum
Alþingiskonan Bjarkey stendur í stórþrifum

Þurfti að bregða mér til Ólafsfjarðar í gær því hér í bæ voru hvergi til rófur.

Það er ekki hægt að bjóða 25 manns upp á kjötsúpu án þess að hafa rófur svo ég skrapp yfir í austurbæ, þar voru til 6 st. rófur og ég keypti þær allar svo nú er rófulaust á Tröllaskaga.

Geng stoltur út með rófurnar mínar í poka og sé þá rautt fallegt hús sem hér áður fyrr var símstöð. Þarna er núna Kaffihúsið Klara á jarðhæð og Gistihús Jóa á efri hæð.

Kaffi Klara og Gistihús Jóa í gömlu símstöðinni í Ólafsfirði

Já hugsa ég, hér ræður ríkjum hún Bjarkey Gunnarsdóttir alþingiskona og maðurinn hennar hann Helgi Jóhannsson.

Kaffihúsið heitir Klara eftir mömmu hennar og Gistihúsið Jói eftir pabba hans.

Best ég stingi inn hausnum og athuga hvort að hún er á staðnum.

Feimin skólastúlka með hárið í hnút stendur við afgreiðsluborðið, hún minnir mig á Bjarkey á sínum yngri árum. Eða varð hún bara allt í einu feimin þegar ég kem með myndavélina og kynni mig, rétt áðan heyrði ég hana tala reiprennandi ensku við einn túristann á staðnum.  

"Ekki taka mynd......ég skal ná í mömmu hún er uppi að þrífa", svo faldi hún sig bak við búðarborðið en ég náði samt mynd.

 Ekki taka mynd.....Hún kynnti sig aldrei með nafni, sagði bara "ég er bara örverpið hennar mömmu".

Þarna birtist svo Alþingiskonan, dröslandi risa ryksugu niður stigann úr Gistihúsi Jóa.

(Klikkið á mynd 1 og sjáið hana stærri, takið einnig eftir gömlu símaklefunum og stórum grænum peningaskáp. Þar voru geymdir símavíxlar, frímerki og peningar hér áður fyrr.) 

Bjarkey! Það eru nú örugglega ekki margir starfsfélagar þínir frá alþingi sem þræla við þrif og annað í sínu sumarleyfi segi ég þegar ég sé hana í rauðum vinnukonuslopp með þessa stór ryksugu.

"Úff, nei það held ég nú ekki segir þingmaðurinn og hlær".

Bjarkey Gunnarsdóttir alþingismaður fyrir VG tekur pásu frá þrifunum til að spjalla smástund við mig.

Ég hef nú svona frétt af þér í gegnum árinn og á Facebook byrja ég, ég hélt nú að þú værir aðallega kennari, námsráðgjafi og bæjarfulltrúi. Nú ert þú á alþingi, svo rekur þú Kaffihús og Gistihús með. Er þetta ekki svolítið mikið?

Jú, jú þetta stemmir allt en svo erum við einnig með gistiheimili hérna suður í firðinum, svo já þetta er nú að verða fullmikið. En þetta er gaman og gefandi, maður hittir mikið af skemmtilegu fólki í gegnum ferðamennskuna.

Þetta er mjög heimilislegt og flott innréttað alltsaman hjá ykkur segi ég og Bjarkey gengur með mér um kaffihúsið og sýnir mér hitt og þetta.

"Já við lögðum mikinn tíma í að finna réttar mublur og muni, vildum hafa þennan gamaldags heimilislega stíl og samtímis hafa gömlu símstöðina sýnilega sem eðlilegan hluta af kaffihúsinu. Ég baka næstum allt sjálf, svo getur fólk komið og lesið bækur og það getur líka tekið með sér bók ef það skilur aðra eftir í staðinn. Meiningin er að skapa kósý stemmingu og að fólki líði eins og heima hjá sér". 

Svo huggulegt og heimilislegt.

Síminn minn hringir allt í einu og ég svara og heyri í reiða, óþolinmóða konurödd segja:

"Hvar eru rófurnar? Ertu ekki að koma með rófurnar? "

Ó fyrirgefðu elskan mín, gleymdi mér smástund, er að spjalla við Bjarkey hérna á Kaffi Klöru.

"Hættur þessu helv...kjaftæði og komdu með rófurnar"..........svo lagði hún bara á".

Bjarkey stendur við bókaskiptavagninn og við erum einmitt að dáðst að norðurljósamyndunum hans Gísla húsvarðar í Menntaskólanum þegar reiða konan hringdi.

Heyrðu! Ég verð víst að drífa mig með rófurnar til Sigló, takk fyrir spjallið Bjarkey.

Flýti mér aðeins of mikið, gleymi rófunum og sný við móður og másandi, svo hugsa ég. Guði sé lof það tekur bara 15 mínútur að keyra þetta, þau eru algjör kraftaverk þessi göng.

Takk Stjáni frændi fyrir þessu frábæru göng!

Það er hægt að fara til Ólafsfjarðar og til baka á hálftíma að kaupa rófur, ef maður lendir ekki á snakki á Kaffi Klöru.

Myndir og texti:
NB 


Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst