Vígsla Hálslyftu
Sunnudagurinn 9. des s.l. var merkisdagur í sögu skíðasvæðisins í Skarðsdal Siglufirði. Fjórða skíðalyftan, Hálslyfta, var opnuð við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni á öllum aldri. Sr. Sigurður Ægisson sóknarprestur flutti ávarp og bað blessunar Guðs fyrir fólk og búnað á skíðasvæðinu. Veður var með afbrigðum gott, og skíðafæri alveg frábært.
Vinna við undirbúning og uppsetningu við Hálslyftu hefur staðið í nokkrar vikur og gengið vel. Með samstilltu átaki allra þeirra sem komu að byggingu lyftunnar er þetta orðið að veruleika. Þar má helst nefna: Berg byggingaverktaka, Raffó rafverktaka, JE vélaverkstæði, Bás vinnuvélaverktaka, Rauðkumenn og starfsmenn skíðasvæðisins.
Nú er komin ný lyfta, nýtt þjónustuhús á Bungusvæði, bætt og betri lýsing og skíðabrekkur á svæðinu hafa verið lagfærðar, þannig að nú má með sanni segja að það séu bjartir tímar framundan á skíðasvæðinu í Skarðsdal.
Vefsíða skíðasvæðisins með upplýsingum um opnunartíma o.fl. er: skard.fjallabyggd.is
Fréttamaður siglo.is var á staðnum og tók þessar myndir.
Athugasemdir